Siðferði í íþróttum (bók)

Þessi bók er fræðsluefni, ætlað til notkunar á námskeiðum háskólanna í íþróttafræðum, í íþróttaakademíum framhaldsskólanna og á námskeiðum innan íþrótta- og ungmennahreyfinga og einnig ætlað öðru íþróttaáhugafólki.

Spilling og siðferði Meginefni fyrri hluta – Drengskapur eðs spilling? – er siðferði í íþróttaheiminum sem tekið er fyrir frá ýmsum hliðum, allt frá sögu og hugsjónum til peningahyggju og óheilinda. Í síðari hluta – Sprikl eða alvöru fræðigrein? – er fjallað meðal annars um íþróttir í bókmenntum, öðrum listum og fjölmiðlum. Einnig er þar fjallað um niðurstöður nýrrar rannsóknar höfundar meðal almennings á siðferði og gildum innan íþrótta. Styrkir til rannsóknarinnar fengust frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Vinnumálastofnun. Skotið er inn ljóðum og rammaefni úr fjölmiðlum, auk mynda.

Aukin siðvitund Að margra áliti hefur siðvitund innan íþróttaheimsins farið minnkandi síðustu áratugina og á því þurfi að ráða bót. Dæmi um spillingu og óheiðarleika eru enda óteljandi úr íslensku íþróttalífi síðustu áratuga, hvað þá af erlendum vettvangi. Íþróttasiðferði hefur verið lítill gaumur gefinn í uppfræðslu íþróttafræðinga og íþróttakennara. Fræðsluefni af þessu tagi á íslensku kynni að gagnast í þá veru að snúa þessari þróun við. Áhugi hefur farið vaxandi innan íþróttahreyfingarinnar að bæta siðferði í íþróttum og hefja heiðarleika og leikgleði til vegs. Aðalstyrktaraðili verksins er Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna. Auk þess styrktu Íþróttasjóður ríkisins og Bakhjarl Menntavísindasviðs Háskóla Íslands verkið á fyrri stigum þess.

Pdf-Siðferði í íþróttum

ISBN 978-9935-9195-5-7