Tækifærisljóð

Hér birtist sýnishorn af tækifæriskveðskap mínum frá ýmsum tímum. Þetta er birt hér til gamans og til að fullnægja þörf höfundar til að upphefja sjálfan sig eins og kostur er, ef mig skyldi kalla, eins og skáldið sagði.

 

Ljóðin koma hér á eftir:

Tækifærisljóð frá ýmsum tímum

 

(Óprentað enda sumt ekki prenthæft - sýnishorn)

 

Skírnar- og nafnaljóð

Afmælisvísur

Brúðkaupsbragir

Erfiljóð 

Annað

 

Skírnar- og nafnaljóð

 

Aron Bjarki – Það bar við um þessa mund [1]

 

Það bar við um þessa mund

að þöllin fæddi sveininn

sem lýsti af um græna grund

og græddi hugarmeinin.

 

Hún fæddi dreng í Davíðs borg

hvar dafna menn og konur;

úr öllum hugum horfin sorg,

hann var Jóseps sonur.

 

Óskir fylgja, ungi sveinn,

Arons nafni og Bjarka.

Nú víst þín bíður vegur beinn

er viltu sjálfur arka.

 

Gangi þér allt í góðan hag,

gleði völdin hafi.

Þér ómi lífsins ástarlag,

þess óskar þér þinn afi.

Elín - Skírnargjöf[2]

 

Eldar loga, kviknar bál í brjósti,

bruna um æðar, líkt og þrumur ljósti,

kveðja mig til leiks með þungum þjósti,

þrýsta á huga, líkt og standi í gjósti.

Því segi ég glaður, gott er þig að finna

glæðast trú og vonir drauma minna.

 

Kæra vina, eigðu lif í yndi

allt þér gangi í hag í logni og vindi

Dagar mæti snót í ljúfu lyndi

lukkan með þér gegnum ævi syndi.

Þú ert fögur, fljóðið unga og bjarta,

fegurð þín, hún magnar sál og hjarta.

 

Elín litla, eftirlæti pabba

ömmubarn um gólfin brátt mun labba.

Við mömmu sína meira en fús að rabba

og málgan afa sinn með brosi gabba

með ljúfu skapi heillar allan heiminn

hugþekk stúlka, geislandi og dreymin.

 

 

Gunnar Ingi - Ein lítil gjöf[3]

 

Ljós sem kviknar

líf sem kviknar

Fæddur er fallegur karl

Hefst ný saga

hefst drengs saga

Ljúflings er hafið líf

ljúflings er byrjað líf.

 

Móður sem elskar

móður sem dáir

á þessi indæli sveinn

Faðmur sem huggar

faðmurinn huggar

verndar frá hættu og vá

verndar frá ógnum og vá.

 

Faðir hann styrkir

faðir hann eflir

með ljúfri og leiðandi hönd

Hvetur til dáða

Hvetur sinn snáða

Fyrirmynd fjörugum gaur

fyrirmynd frísklegum gaur.

 

 

 

Bardagadrengur

Bardagamaður

beittur og baráttufús

Nefnist því Gunnar

nafn hans er Gunnar

Sigrandi fer hann um fold

sigrandi ferðast um fold.

 

Konungum líkur

konungur sjálfur

Foringja fræknleika ber

Sjálfum sér stýrir

sér sjálfum hann stýrir

Ingi er hans annað nafn

Ingi er hans síðara nafn.

 

Bróður átt góðan

bróður átt, Aron

Hann kennir þér leiki og list

Og systir þín, Elín

systirin Elín

verður þér vinur í raun

verður hún vinur í raun.

 

Frændur þér heilsa

frændur þig kveðja

Víst er um frægð þína og fjör

Atli og Dúni

þeir Atli og Dúni

og Kristófer senda þér koss

Kristófer sendir þér koss

 

 

 

Ég bið að þú dafnir

bið að þú þroskist

Þú eiga skalt hamingjubros

Guð faðir geymi

Guð minn þig geymi

Þú átt skilið það besta sem býðst

átt skilið það besta sem býðst.

 


 

Valdimar Kolka - Skírnarvísur[4]

 

Þú ert skafhreifinn skírnardrengur

og skrautlegur eins og gengur

Megi hamingja þín

verða hugljúf og fín

Þú ert hreint ekkert smábarn lengur.

 

Þú ert glaður á góðviðrisdegi

er þú geysist um mannlífsins vegi

Þú ert gimsteinninn skær

þegar skrafar við tær

Þú ert skjaldsveinn og stóreflis peyi.

 

 

Áróra Sirrí - Yngismær fær nafn[5]

 

Við norðurljósa laglegasta blik

lagði fljóð af stað í þennan heim

Lukkuleg á svip og laus við hik

á langafadegi hóf sitt ævigeim

Hún þroskast fljótt við foreldranna skjól

falleg bros hún sendir þeim að gjöf

Og afar bæði og ömmur halda jól

öflug hljóðin berast vítt um höf

Megi stúlkan lifa í lukku glöð

lánast allt sem reynir sér til góðs

Þess óskar stoltur afi á þessi blöð

yndislegri snót án galla og hnjóðs

Elsku besta Áróra Sirrí mín

öllu betri verði lukkan þín.

 

Kári Jökull - Nafnaþula[6]

 

Þessi nýfæddi vekur nýja von

Hinn nýfæddi gaur er Atlason

sefur lon og don

Líkist Áróru stóru systur sín

jafnt í sinni sem ásýnd, gleðin skín

Þau eru fín

Kyssir mömmu og karlinn í sátt

krúttaralegur á allan hátt

Brosir kátt

Nafnið hans hæfir hetju vel

Hraustlega vaxinn ég hann tel

og syndan sem sel

Drengurinn Kári Jökull er kúl

Að klæða hann er mikið strit og púl

                eins og Erkki Nool.

Eva Lovísa - Sonnetta um kraftaverk í tilefni nafns[7]

 

Það kraftaverk er vaknar blóm í haga

og vonir frómar rætast hjónum ungum

Þakkir kvikna á þeirra fúsu tungum

þjóta um loftin straumar gleðidaga.

 

Já, hafin er nú hamingjunnar saga

hrundið unga töfrar pabba og mömmu

Hjalar sætt við afa sinn og ömmu

yndisleg snót með hláturkitl í maga.

 

Ungmeyju fagra prýðir sannleikssál

nú sæla býr í Lísu og Heimis ranni

Í húsinu ríkir gleði í ljúfu lyndi.

 

Lovísa fögur hjalar manna mál

mögnuð Eva hnellin er með sanni

Hamingjan fegri fljóðsins ljós og yndi.

 

 

Lilja Sól - Kveðja frá afa[8]

 

Nú brestur á gleði og gaman

og gleðst nú öll fjölskyldan saman

Ein blómarós bættist í flokkinn

hún brosir við kolsvartan lokkinn

Alla glitrandi gimsteina dylja

þau gleymérei, nellika og lilja.

 

Hún er stjarnan á himninum heiða

sem Heimi og Lísu nú seiða

Þá hnátuna elskar hún Eva

allt vill hún smásystur gefa.

Verði lukkan ein lífs hennar brekka

nú Lilju Sól fýsir að drekka.

 

 

Elfar Bjarki  - Dagnýr drengur[9]

 

Hér er drengur svo naskur og nýtur

sem nú nafn sitt frá foreldrum hlýtur

Allar heillir hann fær

þegar hjalar svo tær,

inn í heiðríkju heimsins hann þýtur

 

Til hamingju, dagnýi drengur

okkur dúddunum gleði og fengur

Með þín aronsku tár

og þitt loggyllta hár

á augljósum guðsvegi gengur.

 

 

Baldur Leó - Nýtt nafn í fjölskylduna[10]

 

Hann er frábær og fallegur drengur

Hann er flottari en gerist og gengur

Hann er næmur og skýr

Hann er naskur og hlýr

og nafnlaus hann verður ei lengur.

 

Hann á föður og fjörlega móður

Hann á flippaðan töffarabróður

Hann er fjölskyldustór

Hann er frískur og rór

Hann er fallegur, indæll og góður.

 

 

 

Hákon Kolka – Til hamingju![11]

 

Hjá regnboga í rökkri eða skini

má rósir og blóm eiga að vini

Við norðurljós náttúran ljómar,

nýr dagur og söngurinn ómar

Úr rússneskum eldi og íslenskum þrótt

er auðvelt að sameina dagsbrún og nótt.

 

Kjörnafni klerksins er skrýddur,

með konunganafni er prýddur

Hákon hann heitir sá ljúfi,

heilsum þeim glaðsinna stúfi

Eldhugans kjarkur um æðar hans fer,

ástríkur söngur til hæða hann ber.

 

Við sólris er kappinn sig klæðir,

og Kolkumýrarnar þræðir

Læknir með logsverð í stafni

hér leysti og gerði að nafni.

Því nefnist hann Kolka svo heppinn og hreinn.

Til hamingju drengur, til hamingju sveinn!

 

 

Katrín Kolka - Kominn er dagur daga[12]

 

Nálgast vor og sól á himni hækkar

hressist jörð er líf og gróður stækkar

lengist dagur, vetrarfrostum fækkar

funinn vex og sjávaraldan lækkar

Lítil stúlka brosir blíðum augum

blikar djúpt í skærum hvarma laugum.

 

Kominn er dagur daga

fyrir dagsins ungu snót

 

Ömmubarn og eftirlæti pabba

undurfríð um gólfin brátt mun labba.

Við mömmu sína meira en fús að rabba

og málgan afa sinn með brosi gabba

Gleður Katrín Kolka allan heiminn

með kátu skapi, brúnaþung og dreymin.

 

Kominn er dagur daga

fyrir dagsins ungu snót

 

 

 

Kæra vina, eigðu lif í yndi

allt þér gangi í hag í logni og vindi

Hamingjan þér mæti í ljúfu lyndi

lukkan með þér gegnum ævi syndi.

Þú ert frábær, fljóðið unga og bjarta,

fús að brosa, magnar sál og hjarta.

 

 

Einar Kolka Pálsson - Við skírn[13]

 

Hann er drengur svo naskur og nýtur

þegar nafnið í guðsgjöf hann hlýtur

Sína hamingju fær

þegar hjalar svo tær,

inn í heiðríkju heimsins hann þýtur

 

Þú ert lánsamur, dugmikill drengur

þú ert drífandi happafengur

Þú ert Einar svo smár

þú ert ungur og knár

þú á augljósum guðsvegi gengur.

 

Frá frænku og „frænda“

 

 

Jón Kolka - Nafnavísur[14]

 

Það er gaman að kúldrast og kafa

ef Kolkurnar eru í vafa

Með öflugri raust

er orðið ei laust

þegar anginn fær nafnið frá afa.

 

Nú nafnlaus er labbinn ei lengur,

lukkunnar fallegi strengur

Kröftugur sveinn

keikur og beinn

Jón Kolka, til hamingju, drengur!

 

 

 

 

 

 

 

 

Afmælisvísur

 

Pabbi 50 ára - Til hamingju

 

Kæri faðir, öldin hálf er orðin,

ægisboðar lífsins minnka fljótt.

Því virðuleikans sterka bjarta storðin

stendur, þó að vindar blási ótt

Og skynseminnar rödd og reynsluforðinn

ráða, þó að herji víl og sótt.

 

Kæri faðir, þú sem okkur elur,

eilíf sæla fylgi þér um veg.

Drottinn Guð, sem okkur alla telur

einkasyni og dætur, blessi þig.

Til hamingju með daginn þann er dvelur

dægrið það, er gleður þig og mig.

 

 

Guðrún Árný eins árs - Eitt ár í tímans skaut

 

Þú varst svo lítil, ljúfa mær

þú lékst við fingur, hrein og tær

þú saugst af brjósti, baðst um meira

þér birtist margt að sjá og heyra

 

Þú varst svo ung og agnarsmá

svo ótalmargt að skoða og sjá

þú vildir skíða, hoppa og hendast

hlaupa af stað, um gólfið sendast

 

Þú gast ei heldur gengið neitt

þá gréstu mikið, sárt og heitt

en tíminn leið við leik og hlátur

við ljúfust bros, - og “soldill” grátur

 

Og núna ertu stór og stælt

með styrkri rödd á mömmu er skælt

þú getur hlaupið, reitt og rifið

- og reyndar upp í stóla klifið -

 

Já, þú ert dugleg, daman mín

dýrleg eru augun þín

falleg ertu, fagra meyja

svo fín, - ég veit ei hvað skal segja

 

 

 

Æ þér fylgi von og vit

vegleg sæla, ástarglit

Megirðu dafna í Drottins landi

djöflar heimsins ei þér grandi.

 

 

Kristófer 10 ára – Skarfur í Skógum

 

Það var eitt sinn skarfur í Skógum 
sem skottaðist úti í móum 
Í fótbolta knár 
frískur og klár 
svo fuglunum þykir nóg um.

í tölvunni feikna frækinn 
svo flinkur og þrautasækinn 
Er kemur í mark 
hann kætist við skark 
og klofar um tölvulækinn.

Kristófer heitir sá kappi 
klókur og fimur tappi 
Hann reiknar svo skjótt 
og skrifar svo fljótt 
að skólinn hans hrósar happi.

 

 

Jón Bjarnason 70 ára - Sjötug ríma

 

Braghendur mansöngur eða upphaf rímu

 

1.            Sælir, vinir, svona byrjar sjötug ríma

                Verður flutt þeim mæta manni

                sem mærður skal í þessum ranni

 

2.            Sjötíu hefur seggur árin sældar lifað

                Fæddur norður á nyrstu Ströndum

                hvar næðir vindur út með löndum

 

3.            Í Bjarnarhöfn hann búskap átti bóndi góður

                Ól upp börn og bylti  túnum

                blessun las úr tímans rúnum

 

4.            Félagsmál og fólksins líf hann færði saman

                Skilgreindi og lagði leiðir

                leiðtogi og málagreiðir

 

5.            Réðst svo norður, reif upp riftan Hólaskóla

                Kunnur varð af kraftaverkum

                kennari af ættum merkum

 

6.            Bændaskólans blómatíma bar til sólar

                Nemar námu búandfræði

                sem búskap skyldi leysa úr læði

 

7.            Sat á þingi, sanngjarn var og sáttaleitinn

                Fólksins hag hann bar í brjósti

                barðist fremst í miklum gjósti

 

8.            Ráðherra með réttu varð og reisti varnir

                ESB hann eyddi úr landi

                aldrei tóri slíkur fjandi

 

9.            Úr sínum flokki smánarlegir svikahrappar

                Hann í bakið hnífum stungu

                huglaust lið af ættum gungu

 

10.          Sögu hans ég segja vil í sjötugu ljóði

                Heyrið mína hugar glímu

                hlustið vel á þessa rímu

 

Ferskeytt ríma af Asparvík á Ströndum

 

11.          Norður á Ströndum er nóttin dimm

                og nálægir tindar gnæfa

                Bylja á húsunum hretin grimm

                og höglin börnin svæfa

 

12.          Svo kemur vorið veitult og frjótt

                og vindarnir breytast í gjólu

                Í hita og hlýju er andlit svo rjótt

                og hlaupið með mjólk í skjólu

 

13.          Asparvíkin er voldugt skjól

                sem vegsama halur og spúsa

                Átti þar fjölskyldan fagurt ból

                í fjölmenni lítilla húsa

 

 

14.          Iðkaði Bjarni bóndans gang

                byggði úr traustum viði

                Sótti þar hákarl og sjávarfang

                og sonunum kenndi í friði

 

15.          Laufey svo ræðin, röggsöm og glöð

                réði víst húsum inni

                Ól hún þar börnin sem birtust í röð

                brosandi og glaðleg í sinni

 

16.         Heiða sem peysurnar prjónar um ár

                purpura Hiddi safnar

                Reynir í fræðunum flinkur og klár

                í fjölskyldu Ásta dafnar

 

17.          Lella í hjálpsemi ljúfust og best

                og laukurinn Jón sat á þingi

                Kalli með skinnin sín mætust og mest

                nú mál er að Rúna syngi

 

18.         Signý í golfinu geysist í mark

                glóir hann Valgeir af hlýju

                Þrautgóð er ættin og þétt er hvert spark

                þetta eru systkinin tíu

 

19.          Á þessum meiði er magnað svið

                makar og frændur og mágar

                sem geta af sér enn meira einvalalið

                sem ættina hrjóstrugu fágar

 

 

20.          Því leggurinn í þeim er lurkurinn sá

                sem leynist í Strandablóði

                Heiðarlegt fólk skapar heiðin há

                haf gefur kjark í hljóði

 

Stafhent ríma af Bjarnarhöfn í Helgafellssveit

 

21.          Um Bjarnarhöfn við Breiðafjörð

                bárur mynda megingjörð

                Þar berserkir forðum lögðu leið

                að launum þeir fengu pín og deyð

 

22.          Dorma þar selir við sjávarnið

                syndandi fuglar að gömlum sið

                Um staðinn fjallið stendur vörð

                stiklar um grundir kindahjörð

 

23.          Kirkjan er staðarins djásn og dýrð

                drottni helguð, af Guði skírð

                Óx þar Jón við ótal störf

                elfdist að krafti í gleði og þörf   

               

24.          Menntun þá sótti sveinninn sér

                syðra og ytra, þar og hér

                Reisti svo hús og ræktaði tún

                reri til fugla frá sjávarbrún

 

25.          Neistinn til kennslu kallaði á hann

                í kennarastarfinu gleði fann

                Í kennslunni þótti hann skarpur og skýr

                skilning hann glæddi sem áður var rýr

 

26.          Sveitungar fundu hans fljúgandi vit

                í félög hann settu í hagsmunastrit

                Á bændaþing sendu með búandans arf

                borinn var seggur í oddvitastarf

 

27.          Samvinnuhugsjón í huga hans stóð

                hagsmunir fólksins í viðskiptaglóð

                Við formennsku kaupfélags traustlega tók,

                nú tiltekt var hafin í efnahagsbók

 

28.          Í hreppsnefnd leiddi hann margvísleg mál

                mælskan þar dugði og tendraði bál

                leiddi fólk saman um samfélagsbót

                sáttmála vonar var komið á fót

 

29.          Gífurleg afköst með atorku og dug

                og allt gert af krafti og vönduðum hug

                til hliðar við stritið og bjástur við bú

                börnin sín mörgu og öfluga frú

 

30.          Bjarnarhöfn kallast sú kostanna jörð

                kann þó að vera mjúk eða hörð

                matarvæn kista í mannanna róm

                megi þar spretta og uppvaxa blóm

 


 

Samhent ríma af Hólum í Hjaltadal

 

31.          Svo fluttist að Hólum í Hjaltadal

                sem hvílir í svipmiklum fjallasal

                þar oft heyrist veglegra vætta tal

                sem síðan nam bergmála í vísum hal

 

32.          Hólabyrða í hvítum kjól

                helgan vegsamar biskupsstól

                Í Gvendarskál kviknuðu himinhjól

                og hugurinn mikla drauma ól

 

33.          Þar bjargaði skóla frá bráðri neyð

                byggði upp að nýju af gömlum meið

                þróaði námið, sú braut var breið

                bændaskólanum vann hann eið

 

34.         Efldi staðinn með styrkri hönd

                stórvirki framdi sem barst út um lönd

                sveitunga virkjaði iðjusöm önd

                atorku Jóns héldu engin bönd

 

35.          Nemendur menntaði ár eftir ár

                uppfyllti námsþyrstra vonir og þrár

                Skólinn í virðingu varðaði hár

                velgengnin brúaði skurði og gjár

 

36.         Að ríða með Jóni að Hólum heim

                hrifningu vakti með öllum þeim

                sem menningu höndum taka tveim

                og treysta á bóndans þjóðarseim

 

37.          Skagfirskur kraftur varð kunnur á ný

                og kirkjan á Hólum bar hátt við ský

                Skólinn er búskapnum birtan hlý

                nú bændur víst engir neita því

 

38.          Í starfinu fríða tók fjölskyldan þátt

                frúin og börnin sem léku sér dátt

                unnu þau störf sem bárust að brátt

                beindu um gestum sem vissu svo fátt

 

39.          Þannig leið tíminn í sólríkri sveit

                samhent þau undu á fallegum reit

                lífsaflið viljuga og hugsunin heit

                að happasæld meiri var sannlega leit

 

40.          Skagfirskur höfðingi, í huganum glóð

                halda nú vildi upp á sigra og ljóð

                þá kappann til verka kallaði þjóð

                kaus hann til þingstarfa vitur og fróð

 

Afhent ríma af eiginkonu og börnum

 

41.          Munið öll að manns og konu mesta gaman

                er þá með börnum sitja saman

               

42.          Ungur kynntist kærri og ljúfri konu sinni

                löng og lánsöm urðu kynni

 

43.          Ingibjörg er auðnudrengsins æskudraumur

                hjá henni birtist gleði og glaumur

 

44.          Konan sú frá Kolkufólki kraftinn léði

                vel það skildi seggurinn séði

 

45.          Saman standa í einu og öllu, alla daga

                yndi er þeirra ástarsaga

 

46.          Listræn kona, ljúfum myndum liti gefur

                leik að pensli í höndum hefur

 

47.          Hjónin kæmust illa af ef ekki ættu

                hvort annað að í heimsins hættu

 

48.          Bjarni í sveitarstjórnarstússi af styrkri festu

                Ásgeir hagfræði miðlar mestu

 

49.         Ingibjörg er íslandsfróð, ég um það ræði

                Laufey rómar rússnesk fræði

 

50.          Katrín sína hjúkrun nam af hlýjum huga

                Páll mun jarðvegs dáðum duga

               

Nýhent ríma af þingmennsku

 

51.          Það er gaman að göslast í pólitík

                og ganga til verka gegn fláræðisminni

                barátta fólksins er fáu lík

                og freistar þess góða í dánumannssinni

 

 

52.          Í þjóðmálum einatt má gera gagn

                ef góðir menn um framkvæmd véla

                en þegar draga vargar vagn

                víst má falla á glugga héla

 

53.         Jóns var öndin heið og há

                er hugsjón rak til góðra verka

                hafði það sem þurfa má

                þjóðarsýn og samkennd sterka

 

54.          Sat á þingi og verk sín vann

                því viska bjó í þessum huga

                Virðing óx því fólkið fann

                að fús hann mundi lýðnum duga

 

55.          Fylgið óx og flokkurinn þá

                fékk að stýra þjóðarfleyi

                Réðst þá að settist rekkur sá

                í ráðherrastól er birti af degi

 

56.          Þjónaði ötull þjóðarhag

                þæfðist móti evruhelsi

                strandveiðum veitti lausnarlag

                lagðist gegn braski og auðmagnsfrelsi

 

57.          Bændunum bjó hann betri kjör

                barðist gegn árás innfluttra vara

                sannlega réði sanngirni för

                á svig við loforðin neitaði að fara

 

 

58.         En svikarar leyndust liðinu í

                sem leituðu færis að svíkja og ljúga

                hans eigin foringjar blakkir sem blý

                bognuðu og hrundu eins og veslingahrúga

 

59.          Þeir stungu í bakið dugandi dreng

                drápu sín tengsl við fólkið og landið

                þeir atkvæðum týndu og töpuðu feng

                trúnaður horfinn, þar slitnaði bandið

 

60.          Nú hann stendur eftir með hreinan skjöld

                hokinn af reynslu, virtur og dáður

                hans verk munu lifa um ævi og öld

                hans atgeir er gljáandi og beittari en áður

 

Lokalag undir limruhætti

 

61.          Hér er fjölmenni saman safnað

                sem í sjötugsveislu hefur hafnað

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Hvílíkt sem hann hefur dafnað!

 

62.          Á góðgæti gæðum við okkur

                gleðst þá hver vala og stokkur

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Þetta er hreint enginn stjórnmálaflokkur

 

 

 

63.          Við drekkum hér dásemdar veigar

                hver drengur og stúlka teygar

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Hans hugsjónir víst eru seigar

 

64.          Við hlustum á lofræður langar

                lof þetta athygli fangar

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Nú blána og svitna vangar

 

65.          Við spjöllum við konur ok karla [kalla]

                kyssum á vanga og skalla

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Hann hendist um ganga og palla

 

66.          Hér upphefjast ættmennahvinir

                hér eru ærlegir tengdasynir

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Við hyllum þig  Jón sem vinir

 

67.          Lifðu nú vel bæði og lengi

                í lukkunnar blússandi gengi

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                á hamingjuóskanna engi

 

68.          Árin sem öðlingsins bíða

                í ánægju megi þau líða

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                sem í hug okkar ferðast víða

 

69.         Lifðu sem lífsblóm í eggi

                leiktu með skeljar og leggi

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Gakktu ei á hurðir né veggi

 

70.          Þessi unaður ei stendur lengur

                af Óðni ég hingað var sendur

                               Við hyllum einn mann

                               einn hugrakkan mann

                Hlustið nú, ég heiti Gvendur.

 

 

Hafþór sextugur

 

Það má alls ekki meistarann mæra

þótt mögnuð sé öðlingsins æra

Hann syndir í skjól

inn í sextugra ból

þar sem öndina aldraðir næra.

 

Hann Haffi oft til Flórída flýgur

svo feginn um golfvelli smýgur

Hann er glaður á brá

og svo brosandi af þrá

þegar góðvín úr glösunum sýgur

 

Til hamingju hugljúfi drengur

þinnar hugrökku konu ert fengur

En nú segi ég stopp

og ég stöðva allt flopp

því þér leiðist ef mala ég lengur

 

                               26. febrúar 2014

 

 

Óttar Einarsson 70 ára - Í afmælisveislu

 

Hann Óttar er yrkjari slyngur,

um afaskap hástöfum syngur.

Ljóðmælin stinn

hann letrar á skinn

og leikur við hvurn sinn fingur.

 

---

 

Drífur um draumsjónir brátt fár,

í dag þú sjötíu átt ár

en huggun þér er

að hvirfill er ber

því á höfðinu er ekkert grátt hár.

 

 

Sú var tíðin ... Ljóð flutt á 50 ára afmæli ML[15]

 

Nú er hátíð og hugirnir mætast

og í höllinni gleðjast og kætast.

Eftir fimmtíu ár

lifa óskir og þrár

og þeir draumar sem dafna og rætast.

 

1953

Þegar skólinn var settur í salnum

og sólskinið ljómaði í dalnum

þau dönsuðu tjútt

það var dæmalaust fútt

þó að væri ekki mikið í malnum.

 

1963

Það var djammað og farið í Festi

og menn fengu sér jakka og vesti

Það var rokkað af list

og svo reyndu menn „twist“

meðah Ómar söng: „Hott, hott á hesti!“

 

1973

Þau börðust gegn böli og dauða

undir blaktandi fánanum rauða

og menn fóru út í geim

en þau frelsuðu heim

og var fagnað af fjöldanum snauða.

 

1983

Þau bjórlíki kneyfuðu úr krúsum

á knæpum og veitingahúsum.

Fyrst var það „shake“

en síðan kom „break“

og svo löptu menn landa úr brúsum.

 

1993

Þetta er kynslóð sem kaupir af sjóðum

og hún kann ekki  mikið í ljóðum

En þau rækta sinn skrokk

og þau skemmta sér nokk

við að sippa og lyfta upp lóðum.

 

2003

Þau lauga sitt lífsblóm af kappi

og lenda við Pálma í stappi.

En á tölvunnar skjá

reynist tilveran blá

og þau létta sér lífið með rappi.

 

 

Brúðkaupsbragir

 

Parið Jósi og Gunna[16]

 

Í kvöld við eigum hér ánægju saman

og syngjum öll þennan fagnaðarbrag

Því hér er aldeilis glaumur og gaman

já, þetta er gleði- og hamingjulag

 

Karlinn elskar konu snjalla

og konan elskar góðan mann

Barnahópinn heim þau kalla

sem hoppar um með sóma og sann

 

Já, nú er aldeilis glaumur og gaman

gleðin magnar þann hamingjutón

Þau tvö sem presturinn pússaði saman

parið Jósi og Gunna´ eru hjón.

 

 

Heimir og Lísa - Giftingardagurinn 22. júní 2012

 

Þegar frétt nokkur flýgur um bæinn

og feykist jafnt út yfir sæinn

hún berst oss í blíðu

og brakandi stríðu

og býður til hammó með daginn.

 

Þetta er glóandi giftingarvísa

frá góðlandi elda og ísa.

Lifið alsæl í krukku

við kæti og lukku.

Koma svo, Heimir og Lísa!

 

Til Parísar parið nú heldur.

Í París veit enginn hvað veldur.

Þar er ljómandi flott

og lífið svo gott.

Þar er logandi ástareldur.

 

Í lífinu er margt í mörgu

og mikið af þúfunum körgu.

Farið varlega um palla

og prýðið þá alla!

Frá pabba og Ingibjörgu

 

 

Brúðkaupsvísur handa Palla og Söndru

 

Nú til brúðkaups er boðað „í skyndi“

með brosi og göfgi í lyndi

í hjónabandsból

í brakandi sól

þau berast með sælunnar vindi

………………….

Hann er fjörmikill dáðadrengur

hún á drauma um lífið sem gengur

Nú gerist það kátt:

þau gifta sig brátt

því þau geta ekki beðið lengur

………….

Nú er boðið til brúðhlaups með tertu

brauðhleif og fiskmeti hertu

Ég á líf, ég á líf

það er ljúft  og ég svíf

lofa brúðhjónin hnakkakerrtu

………………

Nú merlar um stokka og steina

og stirnir á ufsir og hleina,

tungl skín á tindana hreina

og trúnaðarsáttmáli  gjör.

Hér glóir á brautina beina

því brúðkaup í vændum má greina,

þann dag má ei lukkunni leyna:

Lífið er yndisleg för.


 

Erfiljóð

 

Þakkarkveðja - Katrín Kolka Jónsdóttir (f. 29. 9. 1982 - d. 27. 2. 2011)

 

Kæra góða vina, við kveðju sendum þér,

úr kærleiksfullum hjörtum sú þökk um loftin fer.

Núna ertu horfin en hlustar þó svo vel

er hrygg við sitjum eftir við leik að völu og skel.

Víst ertu áfram nálæg og hressir okkar hug,

huggar daprar sálir og lyftir þeim á flug.

 

Þú nældir þér í öðling sem umvafði þig ást

þinn yndislega maka sem aldrei vonum brást.

Og elsku litla soninn þinn ólstu upp með dug,

allt þú honum kenndir með þínum blíða hug.

Þann gimstein hefur annast með ást frá fyrstu tíð,

unga drenginn styrkti móðurhöndin blíð.

 

Umhyggjan frá foreldrum var dæmalaus og sterk

og fjölskyldan þig studdi gegn særindum og verk.

Þú elskaðir allt sem lifir og lífið móti skein

þótt linuðust þínir fætur og efldust illvíg mein

því sálin þín var heiðrík og hugur þinn var knár

og hjarta þitt var blíðlynt þótt geigur ýfði sár.

 

Dirfska þín og kraftur kæfði alla þraut

og kjarkur þinn til lífsins píslir sigra hlaut.

Við vitum öll að launin sem ljúfa hjartað fær

er líðan betri er englum og guði sín´ er nær.

Nú stríði þínu er lokið og kinnin þín er köld.

Við kveðjum þig með þökkum, við hittumst seinna í kvöld.

Lífið er von - Guðný Jósepsdóttir (f. 12.6. 1929 - d. 9.6. 1999)

 

                Ljós kviknar

                líf bliknar

                lund viknar

                og lífið er von.

 

Að kynnast og lifa í samlyndi og sátt

sæluna teyga um daga og nátt

er unaður mesti

Afkvæmi eignast sem dafna af dug

drífandi stráka sem lyftast á flug

og eltast við þresti.

 

Þeir fullorðnir verða og fegra sitt líf

finna sér vinnu, eignast sín víf

og börnin sín góðu.

Þá lifnar í húsi og heimilið grær

hlátrasköll dynja og gleðin er nær

í hamingjumóðu

 

                Ljós kviknar

                líf bliknar

                lund viknar

                og lífið er von.

 

 

 

Svo húmar að kveldi og kyrrðin sest að

kallið að handan frá himnanna stað

Hann kallar til náða

Við harmþrungin stöndum, því söknuður sár

sorginni fylgir, depurð og tár

sem letja til dáða

 

En minningin lifir og með henni þrá

sem myrkrinu eyðir og kyrrir hvern sjá

sem englarnir blíðir

Í frelsarans jarðlífi er vonin svo væn       

vegsömum Drottinn í þakklátri bæn

Við hittumst um síðir.

 

 

Söngfuglinn sem hljóðnaði - Sigurður Sigurjónsson (f. 8.9. 1913 - d. 3.6. 2005)

 

Söngfuglinn hljóðnar í húmi um kvöld

nú heilsar oss nóttin, svo döpur og köld

Tónarnir víkja og tíminn er kyrr

það tindrar á hvarma sem aldreigi fyrr

Það er nótt, það er nótt meðal manna.

 

Þrösturinn ljúfi með síglaðan söng

hann syngur ei meira um vordægrin löng

Gladdi okkar hjarta, hann gaf okkur dug

í glóð þeirra söngva við lyftumst á flug

Hann söng ljóð, hann söng ljóð handa öllum.

 

Rifjast upp kynni svo kær og svo djúp

svo kankvís og glaðleg í listrænum hjúp

Söngskáldið ljúfa sem sem gaf okkur gjöf

sem geymist í hjörtum við aldanna höf

Samdi lög, samdi lög fyrir lífið.

 

Minningin lifir um líf sem var bjart

í listrænum huga bjó eilífðarskart

Ég þakka þau kynni, þau lýsa mér leið

í lifandi tónum um ævinnar skeið

Kæra þökk, kæra þökk fyrir kynnin.

 

 

Kveðjuorð - Albert Jóhannsson í Skógum (f. 25.9. 1926 – d. 26.12. 1998)

 

Herrans höllu í

heyrast dýrðar ljóð

Hestar hneggja kátt

himins fagurt stóð

Gestur gengur inn,

gleðst við kunnug hljóð

Bregður brosi á vör,

blikar augna glóð

 

Vinar verkalok

virða og þakka ber

Horfið fjúk og hret,

því himin augað sér

Er svífur burt hans sál,

sorg um húsið fer

Ljúf er lausn frá kvöl,

en logsár harmur er

 

Biðjum góðan Guð

að geyma þennan mann

Snjall í leik og list

hann lífi og fegurð ann

Vinir kveðja í von

sem vermir hugans rann:

Við komum seinna í kvöld

og kannski hittum hann . . .

 

 

Frá sveitungum og vinum - Tómas Jónsson, Skarðshlíð (f. 25. 4. 1929 – d. 1. 8. 1998)

 

Með þakklæti í hug og hjarta

við hefjum upp örsmátt ljóð.

Þín vinsemd og vináttan bjarta

verðskulda dýran óð.

Samt skortir öll orð að yrkja,

óhægt er sorg að virkja.

 

Með ljúfum og léttum huga

lægðir þú storm og þraut

Þín fordæmi flestum duga,

er fennir á lífsins braut.

Þú hjálpaðir hrjáðum í vanda,

á himnum þau verk þín standa.

 

Frá þrautum fékkst líkn að launum,

lofuð sé miskunn Hans.

Frelsi frá feigð og raunum

er friður hvers gæfumanns.

Í hugum er hryggð og tregi.

En - hittumst á efsta degi!

 

 

Annað

 

Lokasöngur í Kabarett LA 1980 (Við ýmis lög)

 

(Nína og Geiri)

Við eigum okkur leikfélag lítið eitt

sem leikur núna alls ekki neitt

því blankheit herja á hópinn þann

sem hlægir, æsir og syrgir mann.

 

(Siggi var úti)

Í fyrstu þau leituðu á leiðtoga vitin

með ljúfsárar óskir, þau leikaragrey.

En ríkið það neitaði, nú sáust svikin

og nánasir bæjarins – svei, svei og svei.

Nei, sko mennina flotta og fína.

Nei, sko mennina flotta og fína.

Úr formföstum augunum óskirnar skína

en aumingja leikarar fá ekki neitt.

 

 

 

(Stolt siglir fleyið)

Það er því alveg víst, elskurinn minn

að atvinnuleikhúsið hverfur nú um sinn.

En ætlið þið þrjótum að þola það raus –

að við verðum leikfélagslaus?

LA – gamla LA

leikfélagið mitt

í stormi og hríð þú stendur þitt stríð

stöðvar allt níð, því lund þín er blíð

LA – gamla LA

leikfélagið mitt

Við elskum þinn hag hvern einasta dag

við syngjum þér brag og búumst í slag.

Það er því ekki víst, elskurinn minn

að atvinnuleikhúsið hverfi burt um sinn

því við ætlum ekki að þola það raus

að við séum leikfélagslaus.

 

(Ólafur reið með)

Láum því ljóma kröfuna

Leikfélag! Leikfélag!

Burt með nauma nískuna

við norðlenskt leikfélag.

Berum oss að berjast fyrir björginni

berum oss að berjast fyrir björginni strax.

 

 

Garður á Laugarvatni

 

Hér býr minning um sigur og sóma

um samstöðu er vaknaði úr dróma

hér er gæfunnar rós

hér býr gleði og ljós

nú er Garðurinn komin í blóma

 

Þó að veðráttan virðist oft galin

þið svo velkomin eruð í dalinn

Þegar Garðbúar kærir

fluttu kátir og færir

þá fór kliður um háfjallasalinn

 

Hér er framtíðarhugsjón í huga

sú hugsjón mun sveitinni duga

Hér er heimili nýtt

hér er  fallegt og hlýtt

hér sé hamingja - og ein og ein fluga.

 

 

Vísnagátur – Um hverja er ort?

 

Hún er svarthærð með sígaunaenni

hún er svarteyg sem eldur þar brenni

Hún þurrkar og þvær

sú þvengmjóa mær

Hún á karl sem er kallaður ... og svo segi ég ekki meira. (Elín)

 

Durgur sá á dætur þrjár

dáldið lítið göngufrár

Ljóskan Lilla

er lífs hans dilla

horskur er og hærufár. (Óttar)

 

Flennist upp um fjöllin

og fíflast við tröllin

heyrið hlátrasköllin

er horfir á Eyjafjöllin

Stikar vígs um völlinn

vönduð málaþöllin. (Connie)

 

Hann var eitt sinn bóndi á bænum Steig,

með baslinu kenndi í Skógum um sinn

Á dimission sinni fyrst dreypti á veig,

dásamar bugður og köttinn minn. (Sigurjón)

 

Hún er ættuð að vestan úr vogi við strönd

á völsku hún mælir af gáska

Vinnur á sumrin við leiðsögn um lönd

en lullar í útlandi um páska. (Gríma)

 

 

 

Fasteignir seldi og fékk þannig aur,

flennist um túnin á slætti

Gælir við boddí sá bráðlyndi gaur

bóndi með nýjum hætti. (Heimir)

 

Stúdent frá MK er stúlkan sú

stjórnsöm er fraukan smáa

var síðhærð, en er ekki orðin frú,

ungfrúin leggjaknáa (Kiggó)

 

 

Þorrablót UMFL 2005

 

Póstur og bankastjóri (Lag: Pósturinn Páll)

Flytjandi: Johnny High – Jón Þór Ragnarsson

 

Pósturinn Jón

pósturinn Jón

pósturinn Jón er ekkert flón

í búðinni opnar banki

brosir þá Nonni blanki

Blíðlegur er bankastjórinn Jón.

 

Kann ég vel að syngja um seðlabúnt

sofa með þau undir kodda mínum

Já, ég elska peninga

Pósturinn Jón, Jón, Jón er ekkert flón ...

 

Pósturinn Jón

pósturinn Jón

pósturinn Jón er ekkert flón

í búðinni opnar banki

brosir þá Nonni blanki

Blíðlegur er bankastjórinn Jón.

 


 

Í sveitinni (lag: Halló, þarna bíllinn ekki bíður)

Flytjandi: Gugga gospel – Guðbjörg Jónsdóttir

 

Í sveitinni er furðufólk að finna

fýsir mig þá sveitalubba að kynna

Í kulda og trekki kúra í sínum bólum

kerlingar og karlar sem elska beljur, kindur, hunda og ketti, en hafa ...

ímugust á skólum

 

Í Efra-Apó og Hvammó búa kappar

en Kjartan og Snæbjörn eru Austureyjar-tappar 

Í Útey búa Gulla og gæinn þéttur

og grúví lögmaðurinn í Tungu rekur féð í annarra manna garða og ...

setur svo upp fléttur

 

Á Snorrastöðum Simbi á Guggu gólar

og gaurafjöld á Hjálmstöðunum spólar

Á Ketilvöllum Gróa og Guðný búa

í Miðdal búa þau Bjarni Líndal og Mía konan hans, en í Miðdalskoti vill ...

Magga að Kalla hlúa

 

Í Hólum eru Heiða og Jói Gunni

hrópast á með einum og sama munni

Elínborg og Friðgeir á þau hlýða í kulda

en á Böðmóðsstöðum eru blómabörnin Auðunn og María, einnig Hörður, Mæja, Árni, Erla og nautahjónin sælu ...

Jón Þormar og Hulda

 

 

 

Í Leyni elska Guðmundur Óli glaður

og gjafmild meyja, Rósíta, ó já maður.

Í Efstadal eru Björg og Bjössi kraftur

en blessuð gleymum ekki Siffa og Möggu, Kristrúnu, Ragnheiði og Tedda sem ...

brýtur og lagar aftur

 

Ég er drottning (Lag: Elsku vinurinn góði)

Flytandi: Helena fagra frá Kanarí – Helena Traustadóttir

 

Ég er drottning tennismanna

ég er drottningin ein og sanna

ef ég þyrfti kúlur að kanna

myndi ég láta þær allar inn

elsku besti vinurinn.

 

:,: Umbarassa, umbarassa, umbarassassa :,:

 

Þarna sé ég strákastóð

ei er því að leyna

Vaknar í mér gömul glóð

brátt ég fer að veina

Skilurðu hvað ég meina?

 

:,: Umbarassa, umbarassa, umbarassassa :,:

 

Strákar komið, kyrjum lag

hleypur nú á snærið.

Dönsum fram á næsta dag

Sjáið þið á mér lærið.

Nú er tækifærið.

 

:,: Umbarassa, umbarassa, umbarassassa :,:
Unglingaskólarnir á Laugarvatni (Lag: Í skólanum)

Flytjandi: Dísa – Þórdís Pálmadóttir

 

Í skólunum, í skólunum þau skemmta sér og djamma

þau rífa kjaft við kennara

og kasta skít í meistara

Í skólunum, í skólunum þau skemmta sér og djamma

 

Hann Kári Jóns, hann Kári Jóns, hann krakkastóðið siðar

Hann bannar sex og sull í bjór

og sukk í laug og helgarþjór

Hann Kári Jóns, hann Kári Jóns, hann krakkastóðið siðar

 

Í Menntó er, í Menntó er svo mikið lært um lífið

Þau skipta um maka mjúklega

og meika daginn sjúklega

Í Menntó er, í Menntó er svo mikið lært um lífið

 

Tommi Tommi Tré (Lag: Bolli-bolli-bu og Ó, þá náð)

Flytjendur: Dísa og Gugga gospel

 

Tommi-Tommi-Tré-Tommi-Tré-Tré-Tré

Tommi-Tommi-Tré-Tommi-Tré-Tré-Tré

Tommi-Tommi-Tré-Tré-Tommi-Tommi-Tré

Tommi-Tommi-Tré-Tommi-Tré-Tré-Tré

 

Ó, þá náð að eiga hamar

einkanlega í smíðinni

ó þá heill að hætta mega

að halda áfram í keppninni

 

 

 

Jói-Jói-Tré-Jói-Tré-Tré-Tré

Jói-Jói-Tré-Jói-Tré-Tré-Tré

Jói-Jói -Tré-Tré- Jói-Jói -Tré

Jói-Jói -Tré- Jói-Jói -Tré-Tré-Tré

 

Allt sem ég get (Lag: Kanntu brauð að baka?)

Flytjandi: Johnny High

 

Kanntu brauð að baka? Já, það kann ég

Svo úr því verði kaka? Já það kann ég

Ertu alveg viss um? Já það er ég

Eða ertu kannski bara að gabba mig?

 

Kanntu að sjóða pulsu? Já það kann ég

Svo úr því verði Guðni? Já það kann ég

Ertu alveg viss um? Já það er ég

Eða ertu kannski bara að gabba mig?

 

Kanntu að frussa úr dælu? Já það kann ég

Svo bensín flæði um planið? Já það kann ég

Ertu alveg viss um? Já það er ég

Eða ertu kannski bara að gabba mig?

 

Kanntu að leika löggu? Já það kann ég

og stinga fólki í steininn? Já það kann ég

Ertu alveg ....

 


 

Ekta Laugvetningar (Lag: Bimbambimbam)

Flytjandi: Helena fagra frá Kanarí

 

Bimbam bimbam, bimbirimbirimbam

Hver er að berja? Bimbirimbirimbam

Það eru ekta Laugvetningar. Bimbirimbirimbam

Og hvern vilja þeir finna? Bimbirimbirimbam

Skipulagsfulltrúann. Bimbirimbirimbam

Hvað vilja þeir honum? Bimbirimbirimbam

Vernda auðar lóðir. Bimbirimbirimbam

En hvers vegna vernda? Bimbirimbirimbam

Svo þeir geti tjaldað þar. Bimbirimbirimbam

Hver eru svo rökin? Bimbirimbirimbam

Sjónmengun og hávaði. Bimbirimbirimbam

Og hvað vilja þeir meira? Bimbirimbirimbam

Vernda gömlu gufuna. Bimbirimbirimbam

Og hvernig á að gera það? Bimbirimbirimbam

Banna allar breytingar. Bimbirimbirimbam

Og hvað fáum við að launum? Bimbirimbirimbam

Að sjá þá og virða. Bimbirimbirimbam

Hvernig koma þeir hingað? Bimbirimbirimbam

Á fornbílum og þyrlum. Bimbirimbirimbam

Bimbam bimbam, bimbirimbirimbam

 

 

Traustur vinur (Lag: Traustur vinur)

Flytjandi: Helena fagra frá Kanarí

 

Óli minn, þú ert konum kær

þú huggar og verndar þær

Óli minn, svo fagur og stæltur staur

þú ert strákanna besti gaur

 

Já, sagt er að þegar þú faðmir stúlkugrey

verði hún aftur mey

Því segi ég það, þá á hún vin í raun

fyrir hennar hönd, guði sé laun.

 

Því stundum verður konum á

styrka hönd þær þurfa þá

þegar rúmið allt í einu sýnist einskisvert

gott er að geta talað við

einhvern sem að skilur þig

traustur vinur getur gert kraftaverk

 

Gullna rörtöngin (Lag: Upp með hendur)

Flytjandi: Johnny High

 

Drullusokkur hentist inn í H-Sel

og hélt á rörtöng, hvílíkt tröll

Heimtaði með þjósti peningana

annars mundi hann rota þau öll

Upp með hendur, niður með brækur,

peningana aftur, eða ég slæ þig í rot.

Haltu kjafti, snúðu skafti,

aurinn eins og skot!

 

 

 

Drullusokkur druslaðist í burtu

reyndi að fela sporin sín

Við eltum hann á tveimur glæsikerrum

ég og litla Sigga mín

Upp með hendur, niður með brækur,

peningana aftur, eða ég slæ þig í rot.

Haltu kjafti, snúðu skafti,

aurinn eins og skot!

 

:,:Hesma, þúsma, mesma, vosma, kasma, isma,

hesma, þúsma, mesma, hosma? - Já!:,:

 

Við náðum honum hímandi við Þingvöll

og hengdum hann upp í næsta tré

Réttlætið það sigraði að lokum,

og H-Sel endurheimti féð.

Upp með hendur, niður með brækur,

peningana aftur, eða ég slæ þig í rot.

Haltu kjafti, snúðu skafti,

aurinn eins og skot[1] Aron Bjarki Jósepsson, elsta barnabarn mitt, fæddist 21. nóvember 1989, sonur Guðrúnar Árnýjar dóttur minnar og Jóseps Sigurðsonar. Skírnardagur var 21. janúar 1990. (Lag: Sigurður Sigurjónsson).

[2] Í tilefni skírnar Elínar Jósepsdóttur dótturdóttur minnar 24. apríl 1994. Hún fæddist 1. október 1993.

[3] Gunnar Ingi Jósepsson, dóttursonur minn  var skírður 12. nóvember 1995. Hann fæddist 6. ágúst 1995.

[4] Hinn 25. nóvember 2006 var Valdimar Kolka, sonur þeirra Katrínar Kolku Jónsdóttur mágkonu minnar heitinnar og Eiríks Valdimarssonar, skírður heima í Aragötu 16 af sr. Hildi Eir Bolladóttur. Ég orti til hans í orðastað okkar hjóna. Valdimar fæddist 6. september 2006.

 

[5] Áróra Sirrí er dóttir Atla Sævars sonar míns og Dóru Gígju Þórhallsdóttur, tengdadóttur minnar. Hún fæddist á afmælisdegi föður míns, 6. október 2013. Þegar henni hafði verið gefið nafn sendi ég henni þetta ljóð. Það var í  janúar 2014.

[6] Kári Jökull er dóttir Atla Sævars sonar míns og Dóru Gígju Þórhallsdóttur, tengdadóttur minnar. Hann fæddist 6. desember 2016.

[7] Eva Lovísa er dóttir Heimir sonar míns og Lísu tengdadóttur. Ort sem kveðja frá ömmu og afa í febrúar 2015 þegar hún fékk nafnið sitt. Hún fæddist 15. ágúst 2014.

[8] 17. desember 2017 var Lilju Sól, dóttur Heimis sonar míns og Lísu Lárusdóttur tengdadóttur minnar, gefið nafn. Hún fæddist 27. nóvember 2017.

[9] Elfar Bjarki er sonur þeirra Arons Bjarka Jósepssonar, dóttursonar míns, og Dagnýjar Aðalsteinsdóttur, fæddur 14. ágúst 2013. Hannn er því elsta barnabarnabarn mitt. Skírnin var 5. október 2014

[10] Baldur Leó er sonur þeirra Arons Bjarka Jósepssonar, dóttursonar míns, og Dagnýjar Aðalsteinsdóttur, fæddur 30. júlí 2015. Kveðja frá langafa í tilefni skírnar 10. október 2015

[11] Hákon Kolka Timofeev er sonur Laufeyjar mágkonu og Mikhails Timofeev, Hann fæddist 9. júní 2012, skírður 14. ágúst 2012.

[12] Þann 14. nóvember 2012 fæddist Palla og Söndru sitt fyrsta barn. Stúlkan litla var síðan skírð 12. janúar 2013 og fékk nafnið Katrín Kolka eftir frænku sinni.

[13] Þann 9. nóvember 2014 var Einar Kolka, sonur Söndru og Palla, skírður. Hann fæddist 21. september 2014.

 

[14] Jón Kolka er sonur Bjarna Jónssonar, mágs míns. Hann fæddist 2. mars 2017.

[15] Höfundar Óttar Einarsson og undirritaður.

[16] Lag: Kötukvæði.