Ljóðabók

Þessi bók hefur að geyma nokkurn fjölda frumsaminna ljóða. Þau eiga það sammerkt að fjalla um æviskeið manns frá vöggu til grafar. Reyndar spannar hún einnig fyrri líf og framhald sálarlífsins að lokinni jarðvist.

Bókin er 71 síða og geymir 48 ljóð. Hún er prentuð í Litrófi, Reykjavík og kostar 3.000 kr. Hægt er að panta hana hér á síðunni.

 

Hér á eftir fara ljóðin í bókinni:

 

DRAUMADRENGUR

 

 

Líf á líf ofan

 

Sumt sem þú upplifir

hefur þú upplifað áður

þótt þú upplifir það í fyrsta sinn

Áttu þér fyrri líf?

Fyrri tilveruskeið?

Spennandi tilhugsun

sem vekur enn fleiri spurningar

 

Hver valdi þér þetta líf?

Þú sjálfur?

Hvers vegna einmitt þetta líf?

Þú brýtur heilann um

hver þú varst í fyrra lífi

og hver þú verður í því næsta

Þú vilt samt ekki vita það.

 

 

 

Árin sem þú manst ekki

 

Þú manst ekki hver þú varst sem lítið barn

en áreiðanlega varstu saklaus og fallegur

dálítið ofverndaður

 

Húsið ykkar var enn í smíðum

kalt og hráslagalegt

en hjartaþel foreldra þinna var hlýtt

svo að þér var aldrei kalt

 

Hlutverk þitt fyrstu árin

var að bæta foreldrum þínum

þriggja barna missi

 

Þú fékkst snert af lungnabólgu nokkurra vikna

og pabbi þinn brunaði með þig

upp á spítala

í leigubíl sem hann hafði engin efni á

bláfátækur verkamaðurinn.

 

 

Yndiskútur

 

Þú varst peð

þegar þú fæddist

en braggaðist fljótt

og gerðist kraftmikill kiðlingur

 

Þú gerðir þínar afdráttarlausu kröfur

Mjólk, mjólk, mjólk

Þakklæti þitt var óendanlegt

Þú brostir og hjalaðir

framan í mömmu þína og pabba

Varst svo innilega viss í þinni sök

 

Kerlingar og karlar

í báðum ættum

dásömuðu þennan unga dreng

signdu sig og báðu Jesús, Maríu og dýrlingana

að blessa þig

Svo gerðu þau krossmark yfir þér.

 

 

 

 

ALÞÝÐUSTRÁKUR

 

 

 

 

Úti að leika

 

Daglegt áhyggjuleysi æsku þinnar

fólst í franskbrauði og sultu

sem mamma þín rétti þér

út um eldhúsgluggann

Auðvitað fengu vinir þínir og bræður

að njóta þessara Guðsgjafa

 

Þið bræðurnir voruð annálaðir í hverfinu

fyrir athafnasemi

Alltaf úti, alltaf eitthvað að bardúsa

Stundum komst þú í hann krappann

eins og þegar þú fleyttir þér á fleka út á sjó

og þurftir að láta bjarga þér

eða þegar vettlingurinn fraus við stuðarann

þegar þú varst að teika vörubíl.

 

 

Skakkur samanburður

 

Þú varst elsta barnið

en samt fjórða barn foreldranna

Það var svolítið snúið

Ef þú gerðir eitthvað öðruvísi en til var ætlast

fékkstu einatt að heyra

hve börnin sem dóu hefðu verið þæg

og yndisleg

Þetta var afskaplega erfiður samanburður

en smám saman

lokaðirðu eyrunum.

 

 

 

Andaglas í stofunni

 

Mamma þín var miðill

Það var oft andaglas í stofunni á kvöldin

stundum reyndirðu að hlusta

það var spennandi

Framliðnir ættingjar og vinir

komu fram á þessum fundum

Elsti bróðir þinn var tíður gestur

Hann var orðinn læknir

 

Hún spáði líka í bolla

fyrir konurnar í götunni

þá var enn skemmtilegra að hlusta

Þær áttu mjög oft börn í vændum

ferðalag stóð fyrir dyrum

og eldheit ástarsambönd

nema þær væru giftar

Stundum var röð af bollum á ofninum í eldhúsinu.

 

 

Rangeygur

 

Fimm ára dastu á hausinn

ofan af borði

og varðst rangeygur

Það var frekar vont fyrir sjálfsmyndina

Félagarnir gerðu gys að þér

fyrir að einblína svona á eigið nef

Sumarið eftir sjö ára bekk

hafðirðu fengið nóg af stríðninni

þá breyttust augun

og þú varðst í staðinn tileygur

Eftir það vissi enginn

á hvern þú varst að horfa

Það kom sér oft vel

þegar þú fórst að kenna.

 

 

 

Feimni er veiki

 

Fæstum kemur til hugar

að þú hafir verið feiminn í æsku

Þú varst það nú samt

Ef þú varst ávarpaður

vafðist þér tunga um tönn

og þú brást við með flíruglotti

sem gjarnan var misskilið

 

Í tólf ára bekk áttirðu að leika í leikriti

þú æfðir stíft og lærðir hlutverkið utan að

en á sýningardegi veiktistu illilega af feimni

og lást ælandi og skælandi heima

á meðan skólafélagarnir slógu í gegn

 

Þetta var sárt og átakanlegt fyrir litla sál.

 

 

Íþróttamaður

 

Þú varst af þekktri íþróttaætt

og áttir því að verða afreksmaður

það tókst til að byrja með

þú stofnaðir félög með yngri bræðrum

og vinum í götunni

þú varst bestur í flestum íþróttum

og fæddur leiðtogi

það hjálpaði upp á sjálfsálitið

og gerði þig dálítið góðan með þig

Auk þess varstu stærstur

og lappalengstur á þeim árum .

 

 

Táningsástir

 

Þú varst afskaplega feiminn við stelpur

alveg frá unga aldri

Merkilegt

eins og þú varst nú sætur drengur

 

En þú varst samt oft skotinn

og fannst fiðring í maganum

 

Um fermingu áttirðu kærustu

þið leiddust um hverfið

þegar enginn sá til.

 

 

Besti vinurinn

 

Ekkert er eins dýrmætt

og að eiga góðan vin

og besta vináttan eru kannski sú

sem verður til í bernsku

Í götunni þinni bjó jafnaldri þinn

Þið kynntust einmitt á götunni

lékuð saman

ólust nánast upp saman

voruð heimagangar hvor hjá öðrum

voruð saman í bekk

þar til ofbeldi einkunnaspjalda

setti ykkur í sitthvorn bekkinn

fenguð hvolpavitið saman

voruð skotnir í stelpum saman

þær voru líka vinkonur

Leiðir ykkar hafa legið saman alltaf við og við

Þið eruð ólíkir eins og rúgbrauð og kæfa

en bætið hvor annan upp

Enn eruð þið bestu vinir

 

 

 

 


 

UNGLINGUR Í FRUMSKÓGI

 

 

 

 

Töffari með bjútílokk

 

Á svipstundu breyttist allt

um fjórtán-fimmtán ára aldurinn

Eins og snortinn

af sprota töfradísar

Fórst á sjóinn og varðst töffari

þóttir að vísu ekki fiskinn

varst yngstur um borð

og lagður í einelti

Svaraðir fyrir þig með níðvísum

kepptir í limbórokki austur á fjörðum

snoppufríður unglingur með Presley-lokk

eignaðist kærustur

Fórst í kappdrykkju

og manst ekki meira eftir því kvöldi

 

Vannst þér inn fullt af peningum

en eyddir því öllu í skemmtanir

Samt leiddist þér á þessum árum

inni í þér var eitthvert tóm.

 

 

Fé eða frami?

 

Þú bröltir upp í menntaskóla

eftir sæmilegt landspróf

en lentir svo í sálarkreppu

þurftir að velja á milli járnabindinga

og áframhaldandi menntaskólanáms

 

Oft fannst þér þú hafa valið vitlaust

valið auraleysi, fátækleg föt

bílleysi og meinlætalíf

en mamma og pabbi vildu eindregið

styðja drenginn sinn til náms

 

Í járnabindingum varstu fremstur í hópnum

eignaðist fyrsta bílinn

áttir peninga í öllum vösum

en eitthvað vantaði

svo að þú ákvaðst að ganga menntaveg

þótt það kostaði stríðna skólafélaga

og sérvitra kennara.

 

 

Guð gaf ...

 

Þú eignaðist fyrsta barnið þitt

rauðhærðan hnokka

en uppeldi hans fór mestmegnis fram norður í landi

Þið mamman skildust að

Þú dýrkaðir þennan indæla dreng

heimsóttir hann

og fékkst hann í heimsókn til þín

Síðar var hann einn vetur hjá þér

Það var dýrmætur vetur

sem aldrei gleymist

Svo ljóslifandi í minningunni

meira en hálfri öld síðar

Hann er fastur fyrir

og smitar út frá sér ljúfmennskunni

Auk þess er hann dverghagur í höndunum.

 

 

 

... og Guð tók

 

Mamma þín gerði þér grikk á þessum árum

Hún dó frá þér

og ykkur bræðrunum og pabba þínum

Af hverju gerir fólk svona?

En æ, hún gat ekkert að þessu gert

krabbaskrattinn át hana upp

og raunar alla fjölskylduna

eftir áratuga heilsuleysi

og sorg yfir dánum börnum

Þér þótti missirinn sár

en lést þó lítið á því bera

tárin voru löngu þornuð

Sorgin fékk þó útrás í ljóði

sem grátandi Guðsmaður las við útförina.

 

 

 

Önnur Guðsgjöf

 

Þá fæddist þér dóttir

nafna mömmu þinnar

eftirmynd hennar segja margir

en samt svo mikið hún sjálf

Hún vafði þér um fingur sér þessi litla dís

og hélt því lengi áfram

svo að sumum þótti nóg um

Þú kvæntist mömmu hennar

og það samband entist í heilan áratug

 

Þessi dóttir þín

er elskuleg dóttir

yndisleg móðir

og frábær ómissandi amma

Þriggja ára fór hún með koppinn sinn út á stétt

og sat þar á honum til að sjá fólkið

Hugsa sér, þessi litla hnáta orðin amma!

 

 

 

Félagsmálafrík

 

Í háskóla valdirðu ekki þá námsgrein

sem pabbi og mamma vildu

heldur greinar sem aldrei hafa gefið neitt af sér

En það skipti svo sem ekki máli

því þú veltir þér upp úr félagsmálum

og safnaðir vegtyllum hvers konar

Réði metorðagirnd för þinni

eða var þetta heilbrigð löngun til að koma að gagni

og öðlast viðurkenningu?

 

Meðfram háskólanáminu

gerðistu stjórnmálagaur

starfaðir fyrir frjálslynt flokksbrot

sem þóttist vera boðberi lýðræðis

og nýrra aðferða

Það brást

og þegar stungið var upp á þér í öruggt þingsæti

sökktirðu hælum í leðjuna

og þú fannst annan í þinn stað.

 

 

 

Í útlendra skjóli

 

Glaðbeittur fórstu til útlanda í háskóla

Mestur tími fór þó í landhelgisbaráttu

Þú varðst róttækari með hverjum deginum

Þú lærðir ekki mikið þá

 

Allt í einu varstu kominn í útlenda kommúnistasellu

og reistir níðstöng gegn íslenskum ráðherra

vegna lélegra námslána

 

Eftir fjögur ár lá leiðin heim

þú varst orðinn róttækari en sjálfur Stalín

fráskilinn maóisti

búinn að þýða ljóð asískra kommúnista

norsk ljóð og sögur

og sjálfan Morgan Kane.

 

 

Styrkar stoðir

 

Námsárin þín

átti að heita að þú lifðir á námslánum

en það var samfélagslega ósatt

Það sem hélt í þér lífi

og litlu fjölskyldunni þinni

var vinna í fríum og með skóla

heima og erlendis

Þú þýddir bækur og last í útvarp

skrifaðir útvarpsþátt um kirkjuklukkur í Noregi

og annan um Einar Ben

uppdigtað viðtal við löngu látinn mann

En allt hefði komið fyrir ekki

ef pabbi þinn hefði ekki stutt þig

með ráðum og dáð

hann var dáðadrengur

og mamma þín skrifaði bréf til stráksins síns

og bað Guð að blessa hann.

 

 

HÁMENNTAÐUR ÖSKUBUSKI

 

 

 

 

Verkamaður í víngarðinum

 

Eftir heimkomu tók lífsbaráttan við

og baráttan fyrir bættum kjörum alþýðunnar

sem þú þekktir svo sem nógu vel úr æsku

Mestur tími fór þó í sellufundi

lestur byltingarbókmennta

fjölritun bæklinga og sölu málgagnsins

Þú hættir að kenna í háskólanum

til að fara í byggingavinnu

og starfa með alþýðunni

eins og það hét.

 

 

Kommi

 

Þótt þú værir orðinn harður kommúnisti

og félagi í einingarsamtökum

marx-lenínista

varstu aldrei alveg sannfærður

Réttlæti og jöfnuður - já

Góður boðskapur -  já

en framkvæmdin oft klaufaleg

og aðdáun á fræðikenningunni heldur mikil

Þú áttir líka erfitt með að taka þátt í persónudýrkun

á foringjum byltingarinnar

nema þá helst Maó gamla

 

Þú fluttir þó norður til að leiða byltinguna þar.

 

 

Öskukarlinn

 

Sem menntaðasti öskukarl landsins

varstu sendur á hin og þessi þing

Foringjarnir buðu þér í nefið

en hleyptu þér ekki lengra

Þú bauðst þig fram til forseta ASÍ

fékkst mörg þúsund atkvæði

Varðst trúnaðarmaður öskukarla á Akureyri

 

Þrátt fyrir allar þessar vegtyllur

tapaðir þú samt kosningu

móti formanni verkalýðsfélagsins

sem þar hafði ríkt í 100 ár

Ó, það er dýrlegt að drottna!

 

Skrifaðir óteljandi áróðursgreinar í Dagblaðið

en byltingin lét á sér standa.

 

 

Ópíum

 

Marx og félagar voru með þetta á hreinu

trúin er ópíum fyrir fólkið

Þér fannst kirkjan auk þess meingölluð

eins og ASÍ og ríkisstjórnin

Alla ævina hefurðu því verið frekar ókirkjurækinn

 

Þér finnst þó einhvern veginn ómögulegt

að hugsa þér heiminn án máttar Guðs

og það góða í öllum mönnum

hlýtur að vera frá Guði

Þess vegna trúir þú á Guð

og vilt ekki fara á mis við hann

 

Samt er það svo

að þú þagnar alltaf í miðri trúarjátningu

þegar kemur að setningunni

„Ég trúi á ... heilaga, almenna kirkju ...“

Kirkjan er ekki Guð.

 

 

 

Ný fjölskylda

 

Kona í samtökum kommúnista

varð eiginkona þín til tíu ára

og móðir þriggja sona

Þú fékkst að reyna það um sinn

að vera heimavinnandi foreldri

Dásamleg reynsla

Þú gerðist einnig íþróttapabbi

þeyttist um landið allt og fórst  til Færeyja

í fótboltaferð

Strákarnir urðu miklir afreksmenn

í boltagreinum og hástökki

Gamli þrístökkvarinn hvatti þá óspart

Allir eru þeir á einhvern hátt líkir þér

en samt sérstakir og ólíkir innbyrðis.

 

 

Hæfileikamaður

 

Sá elsti tók snemma ástfóstri við körfubolta

og skildi boltann sinn nánast aldrei við sig

Varð mikill snillingur með hann

en líkaði ekki keppnisstússið

Blíður og afar náinn þér

Þið vissuð nánast alltaf hvað hinn var að hugsa

Allt sem hann gerir skal vera fullkomið

Syngur eins og djúpraddaður engill

Gítarinn leikur í höndum hans

og lögin sem hann semur

eru viðkvæm og ljúf

Menntaði sig í hljóðblöndun

tölvufræðum og hugbúnaði

Nú er hann yndislegur pabbi

stundar útiveru

fjallgöngur

og borðar ekki dýr

Hann er fjölskyldumaður í sérflokki.

 

 

Gömul sál

 

Frá fyrstu mánuðum

var miðguttinn mikill pabbastrákur

Hann fæddist gömul sál

alvörugefinn og íhugull

Minnti stundum á lítinn spörfugl

grannur og með stór vökul augu

Undir niðri næmur og fljótur að hugsa

viljugur til að hjálpa öðrum

og taka á sig ábyrgð

Með mikla skipulagshæfileika

sterka stjórnunarhæfni

og afskaplega réttsýnn gagnvart öðru fólki

Nær árangri í öllu

sem hann tekur sér fyrir hendur

Ástríkur faðir barnanna sinna

og þér er sagt að hann sé ljómandi tengdasonur

og þú veist hann er frábær sonur.

 

 

Húmoristi

 

Sá yngsti hefur sérstaka hæfileika

til að gera alla hluti á eigin hátt

öðruvísi en allir aðrir

Rólegur á yfirborðinu

en undir niðri ólga flúðir

Hugsar viðfangsefnin frá allt öðru sjónarhorni

en flestir aðrir

Þér fannst  yndislegt að ala hann upp

kynnast sérstakri kímnigáfu hans

og einstakri skaphöfn

Svo var hann frábær í hástökki

og ýmsum öðrum íþróttum

Ljúflingur og góður drengur

sáttur við sjálfan sig og tilveruna

Nýtur lífsins með kærustu sinni og hundi

í erlendri borg

Það er ekkert slæmt til í honum

Hann verður alltaf litli strákurinn þinn!

 


 

 

Skáld draumanna

 

Þrátt fyrir anstreymi og áföll

hættirðu aldrei að trúa því

að þú yrðir einhvern tíma skáld

Samt gerðirðu frekar lítið í málinu

 

Þú þýddir ljóð eftir útlenda poppara

og norsk nútímaljóð

ortir tækifærisljóð við tækifæri

skrifaðir erfiljóð, afmælisbragi og skírnarkvæði

kenmnslubækur og áróðursgreinar

fórst svo út í fræðileg skrif

En ekkert af þessu gerði þig að skáldi

 

Hundrað árum síðar gafstu út eigin ljóð

Þá varstu loks orðinn skáld.

 

 

 

Draumur um ríkidæmi

 

Eftir fjögur ár fyrir norðan fluttirðu suður

byltingunni var slegið á frest

og þú fórst að vinna sem skrifstofublók um sinn

Það skilaði þó litlu

fyrir eignalausan fjölskyldumann

svo að þú gerðist sjálfstæður atvinnurekandi

 

Þá vaknaði draumurinn um að verða ríkur

Það átti líka að gera allt gott í einkalífinu

en þú varðst aldrei ríkur

Eftir nokkurra ára hark fór allt niður á við

 

Gjaldþrota

og algjörlega magnþrota

hrökkstu í kút ef síminn hringdi

ansaðir ekki ef barið var að dyrum

Svona fór um sjóferð þá.

 

 

BLANKUR ÚTILEGUMAÐUR

 

 

Útlegð úti á landi

 

Þú sendir sjálfan þig í útlegð úti á landi

kenndir þar í ein tíu ár

Síðasta árið varstu skólameistari

og látinn leggja skólann þinn niður

Þarna fékkstu skjól fyrir rukkurum

Þú forðaðist annað fólk lengi vel

Umgekkst fyrst og fremst samkennara

og nemendur

og svo auðvitað börn þín og bræður

Samt kenndirðu áfanga í skólanum sem hét

Samskipti og tjáning – SAM 106

Þú eignaðist þó smám saman góða vini í sveitinni

og nemendur drógu þig með í íþróttir

Þú sast í umdeildri þorrablótsnefnd

og varðst frægur í sveitinni

ýmist að endemum eða góðu

eftir því við hvern var talað.

 

 

 

Á skilorði

 

Eftir tíu útlegðarár

skiptirðu um skóla

Þú varst raunar enn í útlegð

en á einskonar skilorði

á meðan beðið væri loka gjaldþrotaskeiðsins

Þarna bjóstu í þrettán ár

Kenndir mest við háskólaútibú á staðnum

vænkaðist nú hagur hins snauða

í glímu við fræðimennsku

og fróðleiksfúsa stúdenta

spriklandi íþróttakengúrur

Þú fékkst titilinn MEd

og starfsheitið aðjunkt.

 

 

Áföll

 

Útlegð úti á landi verndar ekki

fyrir sorg og missi

Pabbi þinn dó aldraður

og saddur lífdaga

Þið voruð nánir síðustu árin

þú heimsóttir hann í hverri Reykjavíkurferð

Hann var þér mikil fyrirmynd

þótt þú vildir sjaldnast viðurkenna það

 

Næsta ár misstirðu yngsta bróður þinn

það var líka erfitt

Þið voruð líkir um margt

Hann var rétt um fimmtugt þegar hann dó

alltof snemma

þið sem voruð rétt að kynnast á ný

og orðnir vinir

 

Þriðja andlátið sem skók tilveru þína

var andlát föðurbróður þíns

Þið voruð miklir vinir

hann var á leið í heimsókn til þín

með öðrum frænda

Auðvitað heimsótti hann þig

en öðruvísi en til stóð.

 

 

Sonur „fæðist“ á fertugsaldri

 

Sé einhver afkomenda þinna líkur þér

er það sá sem fáir vissu af

í þrjátíu og fimm ár

ekki einu sinni hann sjálfur

Góður drengur og vandaður

ótrúlega vel upp alinn

þótt þú kæmir þar hvergi nærri

Róttækur hugsjónamaður

og alvörugefinn galgopi

Allt í einu stækkaði fjölskylda þín um sex manns

sem gaman er að kynnast

Æðislegt!

 

 

Þungur á bárunni

 

Útlegðarárin voru erfið

þunglyndi skók hug þinn

og þú nagaðir sjálfan þig að innan

með sjálfsásökunum og níði

Þér fannst allt líf þitt hafa verið mistök

á mistök ofan

svik og svindl

og hálfur hugur í öllu

Þú faldir þetta þó nokkuð vel

fyrir flestum

með vandaðri kennslu

þátttöku í félagsmálum

ástríki við strákana þína

Svo eignaðistu vini í sveitinni

hjón sem voru fátæk að veraldarefnum

en auðug af vinarhug

Þú hresstist

en nú – 25 árum síðar

ertu kominn á hressandi úrbót

Þetta er í ættinni.

 

 

ÁSTFANGINN REYNSLUBOLTI

 

 

Opnað fyrir ástina

 

Til að verða ástfanginn

þarf að opna fyrir ástina í hjarta sínu

Það gerðir þú

Hjarta þitt var opið um stund

og þráði að lifa

Þá hittirðu hana

konuna þína

og hjarta þitt fylltist af ást

 

Heppinn varstu að henni virtist eins farið

þú fékkst að njóta tilfinninga

sem þú hélst að væru þér ekki lengur til

Sömu tilfinningar, áhugamál og skoðanir á svo mörgu

Þið voruð eins og sköpuð hvort fyrir annað

 

Þú varst og ert enn gagntekinn af ást og hrifningu

Hún er í þínum augum fegursta kona á Íslandi

og þótt víðar væri leitað

Augu hennar sem tindrandi stjörnur

röddin sem blíðasta hljóðfæri

Svo veit hún allt

og kann allt

sem þú kannt ekki sjálfur

en vildir kunna.

 

 

Í trúlofunarstandi

 

Það var stór ákvörðun fyrir ykkur bæði

og stór stund

þegar þið hétuð hvort öðru trú

og síðar hjónabandi

Hringarnir voru fallegustu hringar í heimi

veislan full af gleði og ást

og þú ortir henni þitt besta ljóð

Í sjöunda himni býr sólin

og veit ekki að ég er til

Hvílík ást

Hvílík hrifning

Þetta kom þér fullkomlega á óvart

skemmtilega

yndislega á óvart.

 

 

Gifting aldarinnar

 

Já, svo kom að því að þið giftuð ykkur

Yndisleg stund

og söguleg

Brúðaraðstoðin mætti of seint

Brúðarbíllinn fastur í umferðinni

Presturinn spurði brúðgumann

hvort brúðurin væri hætt við

Einsöngur varð að tvísöng söngvara og klerks

Myndatakan úti í skógi full af glensi og gríni

Þú varst stoltari en hani á haug

og brúðurinn var fegurri en allar heimsins konur

Veislan fjallmyndarleg

Einn veislugesta skilgreindi ætt þína

með eyrnasneplunum

Brúðguminn flutti ljóð sem ekki var ljóð

og allir klöppuðu fyrir

Þeir klöppuð þó enn meira fyrir ljóði brúðarinnar

sem var alvöru ljóð

Þetta var dagur allra daga.

 

 

Sambúðin

 

Að sumu leyti eruð þið lík

en ólíkara fólk en ykkur tvö er þó vart að finna

Kannski er það þess vegna

sem sambúðin er svo hnökralítil

Þú með alla þína galla

og nokkra kosti

hún með alla sína kosti

Ískaldan húmor og sjóðheitt bros

Augu sem sjá í gegnum veggi og múra

Eyru sem heyra þögnina

Hug sem skilur hið óskiljanlega

og greinir þrívídd í tvívíðum texta

Hendur sem leika við matseld og bakstur

Þú ert lánsmaður

 

Saman ætlið þið að eldast

sigrast á mótbárum lífsins

og berast áfram í meðbyr áranna

Þið elskið hvort annað

Á betra verður ekki kosið.

 

 

Ævintýraárin ykkar

 

Árin ykkar hafa verið stanslaust ævintýri

aldrei nein lognmolla

en heldur ekkert fárviðri

Saman kennduð þið í menntaskóla

meira að segja sömu námsgreinina

Saman keyptuð þið ykkur fallegt hús

Saman hafið þið búið í útlöndum og tekist á við peningaleysi og endalausa flutninga

Saman hafið þið tekist á við erfiðleika og áföll

sem verða að engu í hamingju ástarinnar

 

Saman fluttuð þið suður

Nú búið þið í ævintýraíbúð í Reykjavík

njótið sólar á sólpalli

og sólar í sinni

Vonandi mun nýja hreiðrið ykkar

verða ykkur til gleði og hamingju

Nema þið leitið ykkur að nýju hreiðurstæði ...

 

 

Sólargeislinn ykkar

 

Kraftaverkið í lífi þínu er litla lífsblómið ykkar

Hún kom til ykkar síðsumars á sólríkum degi

og síðan er alltaf sólskin í lífi ykkar

líka í dimmviðri og hreti

 

Hún á yndislegt bros eins og móðir hennar

Hefur hátt og er stjórnsöm

eins og aðrar konur í báðum ættum

Hefur fallegt, rauðglóandi hár

og stór einlæg möndluaugu í óræðum lit

djúp eins og hafið

full af trúnaðartrausti

og sjá lengra en litla nefið nær

 

Þú sem ekkert getur sungið nema jólalög

og hefur aldrei getað lært á hljóðfæri

syngur fyrir hana barnalög alla daga

og ferð með henni á tónlistarnámskeið

 

Þú þykir of aldurhniginn til að fá fæðingarorlof

og færð ekki leikskólagjöld niðurgreidd

eins og aðrir sem ekki eru aðilar vinnumarkaðarins

Er ekki heimska kerfisins fyndin?

Nú fyrst er lífið að byrja!

 

Sumar nætur eru kannski svefnlitlar

og sumir dagar annasamir

Þér verður ekki mikið úr verki

En þú ýtir öllum öðrum verkefnum til hliðar

til að geta sinnt þessu mikla hlutverki.

Þetta er yndislegt líf!

EFRIÁRAMAÐUR

 

 

Andlát litla bróður

 

Bróðir þinn lést fyrir stuttu

langt suður í löndum

þar sem hann hafði búið í mörg ár

með konu, syni og stjúpdóttur

Þú trúir því raunar varla að hann sé dáinn

 

Hann var fimm árum yngri en þú

listrænn og atorkusamur

Smiðsaugað í fjölskyldunni

Ljúfur og barngóður

tryggur og trúfastur

 

Þú gættir hans oft í æsku

og áttir hann að vini á fullorðinsárum

Nú saknarðu hans sárt

 

Það deyja ansi margir

jafngamlir þér og jafnvel yngri

svo ekki sé nú talað um þá sem eru örlítið eldri

Þú ert kominn á þann aldur

að fylgjast vel með dánartilkynningum

Skrítið samt

því að þér finnst þú alltaf vera 26 ára.

 

 

Sannur bróðir

 

Þú átt einn bróður eftir

upphaflega voruð þið sjö

En þessi eini bróðir er á við átta

Ungur drengur var hann afburða myndlistarmaður

síðar sanngjarnasti fornkaupmaður landsins

en lét þó enga stráka komast upp með neitt múður

og leiddi þá út á eyrunum

Hjálpsamari maður er ekki til

greiðviknari né skapbetri

Ljúfur bróðir sem þér þykir vænt um

Þið eruð ekki alltaf sammála

en getið rætt endalaust saman

um landsins gagn og nauðsynjar

eða landsins skrum og skaðsemi

Hugsaði vel um föður ykkar

meðan hann lifði

Hann er ljúfur faðir

og vinur vina sinna.

 

 

 

Von

 

Með árunum hefurðu aftur orðið róttækur

bjartsýnn og vongóður

Þér virðist spillingin á undanhaldi

erfiðara að kaupa sér fylgi

á öllum sviðum

Þú varðst ótrúlegar glaður

þegar bæði sósíalistar og Flokkur fólksins

náðu manni í borgarstjórn

Nú hafa stærstu verkalýðsfélögin

kosið sér róttæklinga til forystu

og lýsa vantrausti á forystu ASÍ

Öðru vísi mér áður brá.

 

 

Framtíðarsýn

 

Þú átt gott líf framundan

og hefur ekki undan neinu að kvarta

Það veistu sjálfur

Átt yndislega konu

sem gaman verður að elska

öll árin sem framundan eru

Þú átt óviðjafnanlega dóttur

sem vex upp og dafnar í skjóli ykkar

Þú átt mörg börn sem þykir vænt um þig

og skemmtilegum barnabörnum og barnabarnabörnum

á bara eftir að fjölga

Sjálfur ertu við góða heilsu

andlega sem líkamlega

Þegar þú varðst sextugur

lofaðirðu sjálfum þér

og fólkinu þínu

að eftir það mundirðu aðeins yngjast

Þú stendur auðvitað við það.

 

 

Að loknu þessu lífi

 

Að sjálfsögðu er framhaldslíf þitt nokkuð óráðið

en þú ert viss um það

Þú ert líka staðráðinn í að gera það

eins skemmtilegt og hægt er

Ekki ætlar þú að fara að dúsa í gröfinni

til dómsdags

Þú ætlar þess í stað að njóta framhaldsins

halda áfram að læra og mennta sál þína

hitta og umgangast gott framliðið fólk

sé það viðlátið

 

Í framhaldslífinu

verðurðu áreiðanlega heilagur um stund

þar til þú verður sendur í annað líf

til að bæta fyrir mistök þín í þeim fyrri

eða taka við verðlaunum fyrir vel unnin störf

Bara að nefna það.

 

 

 

 

 

MAÐUR AÐ MEIRI

 

 

Þínir menn

 

Á hverju lífsskeiði

hefurðu gagnrýnt næsta skeið á undan

-          Ég skil ekkert í hvað ég gat verið vitlaus!

eða montað þig af enn fyrri skeiðum

-          Ansi var ég glúrinn!

 

En er það  til nokkurs?

Varla ertu margir menn

sem lifðu hver á eftir öðrum í líkama þínum

Er til einhvers að spyrja svona?

Allir lifa þeir áfram

í minningum þínum og annarra

og eiga sinn stað í þessum heimi

meðal manna

 

Við nánari umhugsun

þykir þér dálítið vænt um þá alla

Þetta eru þínir menn!

 

 

Ein sál

 

Jú, víst hefurðu verið misjöfn persóna

á ýmsum tímabilum

En er ekki eðlilegt að breytast og þroskast?

Hlýtur sál þín þá ekki að vera ein?

 

Svo er hitt sem ekki er hægt að vita

aðeins trúa:

Er sál þín sá innsti kjarni

sem fylgdi þér inn í þetta líf

öðlaðist þar nýja reynslu

og fylgir þér svo út úr því aftur?

Lifandi bergmál

frá fyrra lífi eða lífum og í gegnum þetta líf

og inn í þau næstu?

 

 

Mál er að linni

 

Þú hefur lært margt

sem þú getur nýtt þér strax

og sál þín getur nýtt sér síðar

Þetta jarðlíf er fyrirtaks háskóli

og lærdómurinn margs konar

boðorðin þín eru miklu fleiri en tíu

 

Allt er þér mögulegt ef viljinn er fyrir hendi

óháð uppruna þínum, stétt og aldri

Þú þarft ekki að láta neitt stöðva þig

 

Ást þín er sterkasta og hreinasta aflið

sem þú ræður yfir

aðeins ástin getur bjargað mannkyninu

ekki fræðikenningar

 

Guð er þér nauðsynlegur til að vera til

því er engin ástæða fyrir þig til að hafna honum

þótt þjónar hans séu kannski misvitrir

 

Maki þinn, börn og afkomendur

skipta þig þó mestu

meira máli en starfsframi

fjármunir

eða skoðanir annarra á þér.