Fangelsisdagbók Hós Chi Mínhs

Ljóð þessi voru gefin út árið 1975 af Októberforlaginu í Reykjavík en prentuð í Duplotryk AS í Ósló, Noregi. Útgáfan var helguð sigri þjóðfrelsisaflanna í Vietnam í stríði þeirra við bandaríska heimsvaldastefnu. Ljóðin þýddi ég eftir norskum, enskum og frönskum átgáfum.

 

Ljóðin fara hér á eftir:

 

Á FYRSTU SÍÐU Í DAGBÓKINNI

Ég er ekki vanur að yrkja ljóð

en hvað get ég annað gert

í fangelsinu?

Fangavistina

ætla ég að nota til að semja ljóð

og syngja þau

Fá færist dagur lausnarinnar nær

 

HANDTEKINN Á GÖTUNNI

Á Ofgnóttar- og Ærugötu

mætti ég smáninni

og ferð min tafðist

Ég hef góða samvisku

ég er heiðarlegur maður

En þeir

saka mig um að vera njósnara

 

KOMIÐ TIL HÉRAÐSFANGELSISINS Í TSÍNG-SÍ

Þeir sem lengi hafa setið inni

bjóða nýja fanga velkomna

Á himni veita hvít ský

hinum svörtu eftirför

þar reika skýin frjáls um og hverfa

Hér niðri er frjálsum mönnum

fleygt í dýflissuna

 

STRÖNG ER LÍFSINS LEIÐ

I

Eftir að hafa klifið fjöll

og háa tinda

ætti þá hættan að vera meiri

á sléttlendinu?

Í fjöllunum mætti ég tígrisdýri

en komst niður ósærður

á sléttlendinu hitti ég mannverur

og var kastað i fangelsi

 

II

Ég er sendiboði víetnömsku þjóðarinnar

á leið til Kína

til að hitta háttsetta menn

Á stormurinn að gnauða yfir veginn

og mér að veitast sá heiður

að vera úthlutað

fangelsisvist?

 

III

Ég er hreinskiptinn maður

og hef ekkert gert af mér

en ég er sakaður um njósnir

gegn Kína

Að lifa sínu eigin lífi

er ekki ætíð svo einfalt

Það hefur sjaldan verið erfiðara en nú

MORGUNN

I

Hvern morgunn

sleppur sólin yfir múrinn

varpar geislum sínum á hliðið

en það er læst

Í fangelsinu er dimmt

en vér vitum

- fyrir utan skín hækkandi sól

 

II

Fyrsta verk dagsins

er að reka burt lýsnar

Klukkan átta

klingir morgunverðarbjallan

Komum

seðjum hungur vort

Vér höfum allir liðið nauð

en betri timar

munu koma

 

HÁDEGI

Indælt að dotta

í klefanum

Tímunum saman

hrifinn burt af svefni

dreymi um að ríða dreka

til himna

- en vakna svo

í fangelsi

SÍÐDEGI

Klukkan tvö

ljúkast klefadyrnar upp

þeir ætla að lofta út

Við lyftum allir höfði

- skyldi sjá glitta í himininn ?

Frjálsar hugsanir

dragast að frelsi himinsins

- en veit hann

að við erum að rotna í fangelsinu?

 

 

KVÖLD

Að lokinni máltíðinni

sigur sólin til viðar

í vestri

Allt í einu

alls staðar að

söngur og tónlist

Allt í einu

er dimmt Tsíng-sí-fangelsið

orðið að óperuhúsi

 


 

FANGELSISMATURINN

Í hverja máltlð

er aðeins einn bolli

af rauðum hrís

ekkert grænmeti

ekkert salt

jafnvel ekkert til að renna því niður með

Þeir sem fá sendan mat

geta stundum étið sig sadda

Vér hjálparlausir

stynjum af hungri

 

FÓTJÁRN

I

Nótt eftir nótt

naga illir andar leggina

með hungruðum kjöftum sinum

Hlekkirnir lykja um hægri fót

aðeins sá vinstri

getur rétt úr sér og leikið laus

 

II

Enn undarlegra

getur það orðið -

fólk sem kemur hlaupandi inn

til að fá á sig hlekki

Með hlekkjunum öðlast það öryggið

Öðruvísi

hefði það engan stað

til að halla höfði sínu að

 

SAMFANGI LEIKUR Á FLAUTU

Flaututónn allt í einu

- heimþrá

tónlistin hækkar

tónarnir gráta

Yfir fjöll og ár

meira en þúsund lí[1] í burtu

fer sorgin

þar langt fjarri

klífur kona upp í turn

hún bíður þess

að maður hennar snúi heim

 

VIÐ TAFL[2]

I

Við lærum að tefla

þá líður tíminn hraðar

riddarar og fótgöngulið

ráðast hver gegn öðrum

eldskörp árás

snöggt undanhald

Með glöggskyggni og tíðum fótaburði

náum við yfirhöndinni

 


 

II

Sjá fram

og íhuga vel

vera djarfur og vægðarlaus

í stöðugri sókn

Rangt herboð

- tveir hervagnar úr leik

Fótgönguliði fram á réttum stað

- ef til vill sigur

 

III

Bæði liðin eru jafn sterk

en aðeins annað

getur sigrað

Beittu gallalausri stjórnlist

í sókn og í vörn

- þá áttu skilið nafnið

herforinginn mikli

 

 

VATNSSKAMMTURINN

Skammturinn á mann

er hálft fat af vatni

með honum má þvo sér

eða

laga te

Viljirðu þvo þér

geturðu ekki eldað þér te

Viljirðu drekka te

geturðu ekki þvegið þér í framan

 

TUNGLSLJÓS

Fangar

eiga hvorki vín né blóm

en nóttin er svo fögur

- hvernig er þá unnt að fagna henni?

Ég geng að loftopinu

horfi á mánann

og í gegnum þetta op

brosir máninn til skáldsins

 

 

HAUSTJAFNDÆGUR

I

Haustmáninn

er sem hringlaga spegill

sólhvítir geislar hans

falla til jarðar

Þú sem fagnar miðhausti

gleymdu ekki þeim

sem í fangelsi

drekka beiskar dreggjar eymdarinnar

 


 

II

Einnig í fangelsinu

fögnum við

hátíð miðhaustsins

en fyrir okkur

bera haustmáninn

og vindurinn

með sér keim sorgar

Hjarta mitt er ófrjálst

og getur ekki glaðst

yfir ferðalagi haustmánans

um himininn

 

 

FJÁRHÆTTUSPIL

 

Þeir sem spila fjárhættuspil

eru handteknir

en í fangelsinu

geta þeir spilað að vild

Við heyrum þá því oft kveina

hvern upp í annan

- þessum stað

hefðum við þurft að vita af áður –

 


 

FANGELSAÐIR FYRIR FJÁRHÆTTUSPIL

Ríkið

heldur þeim ekki uppi á mat

sem eru teknir fyrir fjárhættuspil

Því fremur

ættu þeir að læra af mistökum sinum

Hvern dag

snæða hinir auðugu

stórar máltíðir

hinir fátæku gráta

og hungrið fyllir munn þeirra

 

 

SENDUR TIL TÍAN PÁ Á „TVISVAR TÍU“-DEGINUM[3]

Blóm og Ijósker

hvert hús hátíðarbúið

allt landið gleðst

á þjóðhátíðardeginum

 en þann sama dag

var ég settur í hlekki

og sendur áfram

Örninn hefur vindinn sífellt í fangið

 


 

Á LEIÐINNI

Þú verður að fara af stað

til að finna

hvaða erfiðleikum sé að mæta

Þú klífur yfir eitt fjall

þá skagar annað upp í loftið

En hafirðu sigrað erfiðleikana

og komist upp á hásléttuna

sérðu út yfir

meira en tíu þúsund lí

 

 

LÍÐUR AÐ KVÖLDI

Þreyttir fuglar

leita sér hvíldar í skóginum

yfir heiðan himininn

færist einmana ský

Í fjallaþorpinu

mylur ung stúlka maís

Þegar allt er mulið

logar eldurinn í ofninum

 


 

NÆTURGREIÐI Í LONG TSÚEN

Allan daginn

hafa hestarnir mínir tveir[4]

öslað áfram

Að kvöldi fæ ég "fimmvafinn kjúkling"[5]

ofurseldur árás sængurlúsanna

og frostsins

Velkominn sé gulþrösturinn

sem boðar komu nýs dags

 

 

TÍAN-TÚNG

Hver máltíð

er einn bolli af hrísgrjónum

nótt og dag

verkjar í soltnum maganum

Hrís fyrir þrjú júan

seður engan

þegar viðurinn í eldinn

kostar jafn mikið og kanill

og hrís kostar jafn mikið og perlur

 


 

KOMIÐ TIL TÍAN PÁ

Í dag

hef ég gengið

fimmtíu og þrjá kílómetra

gegndrepa

í gauðrifnum skóm

Ég finn engan stað til að sofa

Alla nóttina

bíð ég komu dagsins

sitjandi

á kamarbekknum

 

 

KONA HEIMSÆKIR MANN SINN Í FANGELSIÐ

Hann

stendur á bak við járnrimlana

hún

fyrir framan þá

svo nærri - aðeins þumlungur á milli

svo fjarri - eins og himinn og haf

Það sem orð geta ekki tjáð

segja þau með augunum

Áður en nokkuð er sagt

fljóta augun í tárum

Hver getur horft á þetta

án þess að klökkna?


 

WILLKIE[6] FÆR HÁTÍÐLEGAR MÓTTÖKUR

(Tilkynnt I blöðunum)

 

Báðir erum við vinir Kína

báðir erum við sendimenn

á leið til Tsjúngkíng

Þú færð að sitja í heiðurssæti

en ég er fangi

fleygt niður tröppurnar

Hví svo ólíkar móttökur?

Slíkur er háttur heimsins

kuldi við einn

hlýja við annan

vatnið rennur ætíð til sjávarins

 

 

HEILRÆÐI HANDA SJÁLFUM MÉR

Án kuldans

án hins eyðilega vetrar

væri ekki ylurinn

og auðæfi vorsins

óhamingjan

hefur gert mig þolinn

og sterkan

og viljinn er hertur til stáls

BYGGÐ Í SVEIT

Er við komum hér

voru hrisplönturnar grænar og bjartar

Nú er haust

uppskeran er hálfnuð

hvarvetna brosa bændurnir

Hrísekrurnar

óma af söng og gleði

 

 

„SÆLUHÚS“

Við vegkantinn

í svölum skugga stórs trés

er hálmi þakinn kofi

„sæluhús“ fyrir ferðamenn

En gestum hér

er ekki borið sætt vín

aðeins köld hrísgrjón

og hvítt salt

 

 

 

 

FANGELSIÐ Í KÚÓ ÞE

Undarlegt fangelsi

hér er aðbúðin eins og heima

- við kaupum eldivið

hrís

olíu

salt

Fyrir framan hvern klefa

er lítill ofn

þar ilmar allan daginn

af súpu og hrísgrjónum

 

 

 

BROTTFÖR FYRIR DÖGUN

I

Haninn gól einu sinni

nóttin er ekki á enda

Hægt klífur máninn upp haustásana

ásamt stjörnunum

en ferðalangurinn

á langan veg fyrir höndum

og er þegar kominn af stað

Ísvindar

bíta andlitið


 

II

Blikið í austri

er orðið rósrautt

náttskuggarnir

feykjast burt

varmur andardráttur

breiðist yfir heiminn

og ferðalangurinn finnur

að skáldið hefur tendrast

 

 

FRÁ LÚNG-AN TIL FANGELSISINS Í TÚNG TSJÚNG

Jörðin í þessu héraði

er víðfeðm en léleg

þess vegna er alþýðan iðin

og sparsöm

Okkur er sagt

að í vor hafi orðið miklir þurrkar

það sé ekki hægt að sá í

nema tvo eða þrjá

tíundu hluta jarðarinnar

 


 

Á LEIÐINNI

Þótt þeir hafi bundið hendur mínar

og fætur

heyri ég fuglana syngja

yfir öllu fjallinu

Skógurinn

angar af vorblómunum

Hver getur hindrað mig í

að vera glaður

og finnast ég örlitlu minna einmana

á þessari endalausu ferð?

 

 

TÚNG TSJÚNG

(2. nóvember)

 

Túng Tsjúng-fangelsið

er líkt fangelsinu í Píng Ma -

skál af köldum hrísgrjónum

í hverja máltið

alltaf tómur magi

En það er nóg af vatni og birtu

loftað er út úr klefanum

tvisvar á dag

 


 

PAPPÍRSLAK SAMFANGANS

Blaðsíður

gamalla og nýrra bóka

límdar saman

Pappirslak er betra en ekkert lak

Þið sem sofið í silkirúmfötum

með forhengi úr brókaði

- í fangelsinu eru margir

sem ekki kemur dúr á auga

 

 

KÖLD NÓTT

Kalda haustnóttina

án dýnu

án teppis

með hniprað bak og kreppta fætur

reyni ég að sofna

En það er til einskis

Tunglið skín á bananatrén

kuldinn er nístandi

Áhimninum

- milli rimlanna –

horfir Stóri Björn inn til min

 


 

REIPIÐ

Langur dreki

hefur fléttað sig um hendur mínar og fætur

Ég gæti verið erlendur herforingi

með axlaskúfa

en herforingjaskúfar

eru ofnir af gullþræði

mínir

eru annar endi hampreipisins

 

 

KVEÐJA TIL TANNAR

Þú ert hörð og stolt

vinkona

ekki löng og mjúk

eins og tungan

saman höfum við þolað allt

bæði súrt og sætt

en nú ferð þú i vestur

ég i austur

 


 

KONA LIÐHLAUPANS[7]

Dag einn fórstu á brott

og komst ekki aftur

ég varð eftir ein

í sorg

Stjórnvöld

sýndu mér miskunn

- þau buðu mér húsnæði og mat

um tíma

í fangelsinu

 

 

GAMANMÁL

Ríkið elur mig á hrísi

ég dvel i höllum Ríkisins

verðir Ríkisins vinna á vöktum

við að þóknast mér

mér er leyft að horfa á fjöll

og ár Ríkisins

að vild

Ég er fullur yfirlætis

af öllum þessum forréttindum

 


 

Á LEIÐ TIL NANNÍNG

Nú hef ég fengið járnhlekki

í stað reipanna

þeir hringla eins og skrauthringir[8]

þegar ég geng um

Þótt ég sé fangi

grunaður um njósnir

geng ég virðulega

eins og fornfánlegur embættismaður

 

 

VERÐIRNIR HALDA á GRÍSUM

I

Á leiðinni

halda verðirnir á grísum

Grísir á herðum

menn í járnum

Missi mannvera frelsi sitt

er hún minna virði

en grís

 


 

II

Margt er biturt í þessum heimi

og margt bjátar á

en ekkert er þó verra

en að missa frelsi sitt

Ekki eitt orð

ekki ein hreyfing

er lengur réttur vor

Eins og búfé

erum við reknir áfram

 

HRÖSUN

Það er myrkur

en við erum reknir af stað

leiðin er krókótt

hörð og óslétt

ég hrasa

ligg flatur í gryfju

Nú er ég hætt kominn

en ég skal upp úr

 

 

Í BÁT TIL NANNÍNG

Bátinn ber fyrir straumi

í átt til Nanníng

fæturnir hlekkjaðir við mastrið

eins og á galeiðum fornaldarinnar

Á árbökkunum eru lífleg þorp

fiskibátarnir

renna sér lipurt í straumnum

 

FANGELSIÐ Í NANNÍNG

Fullkomlega nýtískulegt fangelsi –

alla nóttina flæðir rafmagnsljósið

yfir svæðið

En þar sem skammturinn er aðeins

einn bolli af hrísgrjónum

er maginn stöðugt

haldinn sársaukafullum skjálfta

 

SORG

Heimurinn logar í stríði

menn keppast um

að verða fyrstir að víglínunni

Í fangelsinu

fær athafnaleysið þungt á okkur

Göfugar hugsjónir okkar

eru ekki einseyringsvirði

 

HANINN GALAR

Þú ert aðeins venjulegur hani

en hvern morgun

boðar þú komu roðans

Gaggalagó -

þú vekur þá sem sofa

Sannarlega

er starf þitt

ekki þýðingarlaust

 

FANGELSAÐUR FJÁRHÆTTUSPILARI DEYR

Ekkert eftir

nema skinn og bein

ógæfa

kuldi

hungur

bundu enda á líf hans

Það er ekki lengra síðan

en í fyrrinótt

sem við sváfum hlið við hlið

en þegar dagaði

var hann horfinn

til Lands hinna níu vora

 

EINN Í VIÐBÓT ... 

Pó Jí og Tsjú Tsí[9]

vildu ekki éta hrís

Tsjó-keisaraættarinnar

Þessi maður

vildi ekki éta hrísgrjón

ríkisstjórnarinnar

Pó Jí og Tsjú Tsí

dóu á Sújang-fjalli

Fjárhættuspilarinn

svalt í hel í klefanum sínum

 

 

 

REYKINGAR BANNAÐAR

Reykingar stranglega bannaðar!

Tóbak þitt hverfur

í vasa varðarins

Hann treður því í pípu sína

- það er sjálfsagður réttur hans

og ef þú reynir það aftur

er alltaf nóg til af handjárnum

 

 

Í LJÓSASKIPTUNUM

Stormurinn æsist á klettunum

Spjót kuldans

borast inn í greinarnar

Klukknaslögin

frá hofunum langt fjarri

reka ferðalanginn áfram

Drengir leika á flautur

og reka nautgripina heim

í ljósaskiptunum

 

VERÐLAG

60 sent fyrir að elda hrísgrjónapott

1 júan fyrir fat af heitu vatni

1 júan fyrir það sem er hálfs júans virði

En það er til einskis fyrir fanga

að prútta

 

SVEENLAUS NÓTT

Fyrsti vörður kemur ...

annar ... þriðji –

ég bylti mér

svefninn kemur ekki

fjórði ...

fimmti vörðurinn –

augun ljúkast aftur

og fimmgeislastjarnan tindrar

 

 

HUGSAÐ TIL VINAR

Þann dag

fórstu með mér niður að á

-        hvenær kemurðu aftur?

spurðir þú

-        um uppskeruleytið

svaraði ég

Sú uppskera er löngu komin í hús

en mér dvelst enn

ég er fangi

í framandi landi

 

SKRIFA UMSÓKN FYRIR SAMFANGA

Allir erum við

undir sömu sök seldir

við getum ekki neitað

að hjálpa hver öðrum

Ég skrifa þessa umsókn fyrir þig

og byrja á orðum

sem álitin eru rétt:

"Þess vegna í samræmi við

yðar göfugu fyrirskipanir ...“

Slíkt orðbragð

læri ég nú í fyrsta sinn

Og hve þú ert mér þakklátur!

 

 

KLÁÐI

Rauðir og bláir

eins og klæddir brókaði

Allt þetta klór

er eins og við séum að leika á gítar

- klæddir brókaði?

o sei sei

hér erum við

virtir gestir

og tölum sama máli

og aðrir tónsnillingar

 

HLUSTAÐ Á HRÍS MULINN

En hve hrísinn má kveljast

að vera mulinn í steytli –

Eftir höggin

kemur hann út eins og bómull

Þannig er það oft með mannfólkið

ógæfusmiðirnir

slípa okkur

og breyta okkur í slétt silki

 

 

11. NÓVEMBER

I

Eitt sinn

var ellefti nóvember

hátíð í Evrópu

þá var undirritað vopnahléð

eftir heimsstyrjöldina fyrri

Í dag

eru háðar blóðugar orrustur

í fimm heimsálfum

og nasistar

eru verstu glæpamennirnir

 


 

II

Í Kína

hefur varnarstríðið

staðið í nær sex ár

Hetjudáðir Kínverja

eru þekktar um víða veröld

Sigurinn er í nánd

með auknu afli

mun gagnárásin heppnast

 

III

Um alla Asíu

blakta andjapönsk flögg

stór flögg og lítil flögg

þau eru ekki öll jafn stór

Auðvitað þörfnumst við stóru flagganna

en litlu flöggin

eru líka nauðsynleg

 

 

LOFTVARNARFLAUTA 12. NÓVEMBER

Óvinaflugvélar

drynja í lofti

fólk leitar hlés

torgin verða tóm

við erum teknir út

úr fangelsinu

og þess vegna gleðjumst við

þótt flautan gjalli

 

„SÆLUHÚS“

Samkvæmt reglunum

eiga hinir nýju

að sofa nær kamarbekknum

Sá sem vill tryggja sér nætursvefn

verður að greiða fyrirfram

og út í hönd

 

 

MORGUNSÓL

Nú þrengir morgunsólin sér

inn í fangelsið

sópar burt gufunni

brennir burt þokuna

Lífsglóðin fyllir veröldina

og fangarnir ljóma í brosi

 

 


 

LEIKUR AÐ ORÐTÁKNUM

Fólk sem kemur úr fangelsi

getur byggt upp landið

óhamingja er mælikvarði

á hreysti mannfólksins

Þeir sem hyggja að hag allra

eru hinir hæfu

Þegar dyr fangelsisins eru opnaðar

flýgur hinn sanni dreki út[10]

 

 

HERBLÁSTUR Í VÍETNAM

(Símskeyti frá fréttastofunni Tsé-tá i Nanníng-blöðunum)

 

Heldur dauður en þræll -

Um allt land mitt

blakta á ný rauðir fánar

ó að vera fangi núna -

Hvenær kemst ég út

til að taka þátt í baráttunni ?

 


 

BRESK SENDINEFND Í KÍNA

Bandaríkjamennirnir eru farnir

nú koma Bretar

Ég er einnig sendimaður í Kína

ég hef einnig fengið hlýlegar móttökur –

 

 

ENDURSENDUR TIL ÚMÍNG

Þeir senda mig til Nanníng

þeir senda mig aftur til Úmíng

flutningar eftir flutninga

ferð mín ætlar að verða löng

Ég er búinn að fá NÓG!

 

 

VEGAVINNUMAÐURINN

Gegndrepa af regni

laminn af vindunum

hvíldarlaus

leggur þú veginn

Hvílík vinnuaðstaða

En hversu margir þeirra

sem ganga

ríða

eða aka veginn

hugsa til þín með þakklæti?

 

HUNDAKJÖT Í PÁ SÍANG

Í Kúó-té er étinn hrár fiskur

í Pá Síang er étið hundakjöt

Jafnvel fangaverðirnir

fá stundum sjaldgæfa rétti -

 

VÖRÐURINN STAL STAFNUM MÍNUM

Allt lífið hefurðu verið sterkur og beinn

saman ferðuðumst við gegnum árstíðirnar

gegnum snjóa og þoku

Megi fjandinn hirða þjófinn

sem skildi okkur að -

Við verðum báðir ætíð einmana og óhuggandi

 

VARÐAN

Ekki há

ekki neitt sérstakt

ekki keisari - ekki konungur

bara lítil varða

við vegkantinn

Fólki

vísarðu veginn

svo að það villist ekki

Þú segir þvi

hversu langt sé eftir

af leiðinni

Þjónusta þín er ekki smá

Vér munum ætíð minnast þín

SMÁBARNIÐ Í PÍNJANG-FANGELSINU

Ó ó ó

pabbi flúði

pabbi þorir ekki að vera hermaður

þess vegna er ég í fangelsi

Ég kom með mömmu

 

 

FANGALÍF

Allir eiga sinn eigin ofn

og fáeina leirpotta

við eldum hrís og grænmeti

og sjóðum te

Frá morgni til kvölds

er hér þykk reykjarsvæla

 

 

BIRTUSKATTURINN

Þegar þú ert kominn

verðurðu að greiða fyrir birtuna

sex Kvangsí-júan á mann

Í þessu aðsetri myrkursins

er birtan

sex júana virði

 


 

HERRA KÚÓ

Gleðifundir -

eins og þegar tvö fljótandi blöð

berast saman í straumnum

ó herra Kúó

hve vinsemd þín

var mér mikilvæg -

eins og að fá örlítinn kolamola

í svartasta skammdeginu

var að fá að vita

að fólk eins og þú er enn til –

 

 

HERRA MÓ VAKTSTJÓRI

Vaktstjórinn í Pínjang

hefur göfugt hjarta

hann kaupir hrís handa föngunum

fyrir eigin peninga

Á næturnar

tekur hann af okkur hlekkina

svo að við getum sofið

Hann

styðst ekki við valdið

heldur vinsemdina

 

 

 

 

Í LESTINNI TIL LÆ-PÍNG

Eftir margra vikna göngu

komum við í dag

í lest

og þótt við verðum að sitja

á steinkolapokum

þá er það að minnsta kosti betra

en að ganga

 

 

HANN REYNIR AÐ FLÝJA

Aðeins ein hugsun

rekur hann áfram

- frelsi -

Hann stekkur út úr lestinni á ferð

hann hættir lífi sínu

og hleypur

Hann er varla komin hálfa lí

þegar verðirnir ná honum

og flytja hann til baka

 


 

LÆ-PÍNG[11]

Hér spilar vaktstjórinn á spil

hvern dag

Lögreglustjórinn þvingar peninga

út úr hverjum fanga

sem vill láta flytja sig

Héraðsstjórinn vinnur slælega

i birtu lampans

Ekkert hefur breyst í Læ-píng

Hér ríkir Friðurinn mikli

 

 

TIL LÍÚTSJÓ

Einhvern tíma

hlýtur þó hinu sára og illa

að ljúka

Þann níunda

þegar ég kom til Líútsjó

átti ég að baki

meira en hundrað daga martröð

og þegar ég vaknaði

var andlit mitt enn markað sorg

 


 

INNILOKUN ÁN YFIRHEYRSLU

Drykkurinn verður því beiskari

sem nær kemur dreggjunum

Alltaf eru síðustu dyrnar

lang erfiðastar

Mandarín-höllin

er aðeins eina lí héðan

En hví halda þeir mér enn?

 

MIÐNÆTTI

Í svefni

eru öll andlit heiðarleg

Aðeins þegar þau vakna

birtist hið góða

eða hið illa

Enginn er fæddur

með góðsemi eða illsku

Við lærum þetta yfirleitt smám saman

 

Í MANDARÍN-HÖLLINNI

Loksins –

hugsaði ég

- síðasti þröskuldurinn!

Ég hélt að nú rynni upp

dagur frelsisins

Hver gat ímyndað sér

enn eina hindrun?

Nú eigum við að fara til Kveilín

VIÐ LOK FJÓRÐA MÁNAÐAR Í FANGELSI

„Einn dagur í fangelsi

er eins og þúsund ár utan þess ...“

hinir gömlu

höfðu rétt fyrir sér

er þeir mæltu svo

Á þessum fjórum mánuðum

af ómennsku lífi

hef ég elst um meira en tíu ár

Í fjóra mánuði

hef ég aldrei étið mig mettan

aldrei átt væran svefn

aldrei skipt um föt

aldrei baðast

Þess vegna hef ég misst eina tönn

hár mitt hefur gránað

ég er magur og svartur

eins og hungraður púki

alsettur kaunum

Það er hamingja mín

að andinn heldur velli

hann er þrjóskur og langþolinn

og víkur ekki þumlung

þrátt fyrir líkamlegar þjáningarnar

 

 

 

ALVARLEGA VEIKUR

Líkaminn er niðurbrotinn

af umhleypingasamri veðráttunni

í Kína

Hjarta mitt er kvalið

af ógæfunni í Víetnam

Það er bitur reynsla

að verða sjúkur í fangelsi

Ég syng í stað þess að gráta

 

 

KOMIÐ TIL KVEILÍN – „KANILSKÓGARINS“

Það er hvorki kanill né skógur í Kveilín

Há fjöll

djúpar elfur

Í skugga hávaxins bananatrés

er fangelsið hræðilegt

svart á daginn

eyðilegt um nætur

 

INNGÖNGUSKATTUR

Þegar við erum komnir til fangelsisins

verðum við að greiða skatt

minnst fimmtíu júan

En séu engir peningar til

er að sjálfsögðu greitt út í hönd

með þjáningu og þrautum

? !

Fjörutíu dagar glataðir

til einskis

fjörutíu dagar

af ólýsanlegri kvöl

0g nú er ég aftur sendur til Líútsjó

nýtt friðleysi

eilíft kvalræði

 

 

? !

Líútsjó - Kveilín –

og svo aftur Líútsjó

sparkað fram og aftur

eins og knetti

Ég er saklaus

en mér er þvælt um alla Kvangsí

Hvenær lýkur

þessu endalausa hringsóli ?

 


 

HJÁ STJÓRNVÖLDUM Á FJÓRÐA ANDSPYRNUSVÆÐI

Ég hef ferðast

um öll hin þrettán héruð Kvangsí

Ég hef bragðað unaðssemdir

átján fangelsa

Enn held ég áfram að spyrja

- Hvað hef ég gert af mér ?

er það afbrot mitt

að mér er annt um

mína eigin þjóð?

 

 

AÐ MORGNI

Morgunn

sólin klífur upp fyrir fjallstindana

og baðar fjallshlíðarnar

rósrauðri birtu

Aðeins við fangelsið

eru enn myrkir skuggar

og geislar sólarinnar

komast ekki inn í klefann minn

 


 

TSÍNGMÍNG-HÁTÍÐIN[12]

Það er Tsíngmíng-hátíð

og regnið fellur strítt

og tilbreytingarlaust

Í fangelsinu

finnum við skyndilega

til okkar eigin sorgar

- Hvar bíður frelsið? spyrjum við

Vörðurinn

bendir á ríkisstjórnarhöllina

úti við sjóndeildarhring

 

 

AÐ KVÖLDI

Rósin opnast að kvöldi

síðan fölnar hún

breiðir úr sér og visnar

án þess að nokkur taki eftir

En rósailminn

leggur inn í afkima fangelsisins

þar segir hann föngunum

frá óréttlæti lífsins og sorgum

 


 

HÖFT

Líf án frelsis

er svo sannarlega skítt

Jafnvel kamarinn er bundinn reglum

Þegar dyrnar eru opnar

er maginn ekki reiðubúinn

Þegar maginn krefst síns

eru dyrnar læstar

 

SVEFNLAUSAR NÆTUR

Endalausar nætur

og svefninn neitar að koma

Ég yrki  fleiri en hundrað ljóð

um fangavistina

Þegar ein vísa er búin

legg ég frá mér pennann

og horfi til hins frjálsa himins

á milli rimlanna

 

ENDALAUST REGN

Níu regndagar

á móti einum góðum

Himinninn hlýtur

svo sannarlega að vera vægðarlaus

Skórnir eru tættir

leðjan á vegunum óhreinkar fætur mína

en hvað um það

Ég verð að halda áfram

GLATAÐUR TÍMI

Blámi himinsins

veldur mér leiðindum

Átta mánuðir glataðir í hlekkjum

Hver dagur er gulls verður

Hvenær

sé ég aftur frjálsan dag ?

 

 

HAUSTHRIF

I

Klukkan tíu

stendur Karlsvagninn á fjallinu

Hljómur trjásöngvunnar rís og hnígur

og boðar haustið

Hverju skiptir fangann

þótt árstíðahvörf verði ?

Hann

hugsar aðeins um ein hvörf

 

II

Eitt ár er liðið

í fyrrahaust var ég frjáls

en nú í haust

ligg ég í fangabæli

Ég get því  vel sagt

um þjónustu mína við land mitt:

- Þetta haust

hefur það gefið jafn mikið af sér

og haustið í fyrra ?

 

LEYFI TIL AÐ GANGA UM Í FANGELSISGARÐINUM

Fætur mínir

eru eins og bómull

eftir kyrrsetuna

ég reyni að ganga eitt skref

en hrasa og dett

Um leið öskrar vaktstjórinn:

Hættu þessu - komdu inn aftur

nú er nóg komið af hangsi -

 

HAUSTNÓTT

Fyrir framan hliðið

stendur vörðurinn með riffil

Hvassbrydd ský færa mánann á brott

Rúmdýrin sveima um

eins og skriðdrekar á æfingu

Moskitó-flugurnar

mynda árásarfylkingar

og gera áhlaup eins og orrustuflugvélar

Hjarta mitt

færist þúsund líum nær fósturjörðinni

Sorgin fléttar drauminn

í flóka þúsund  þráða

Saklaus

hef ég verið heilt ár í fangelsi

Ég nota tárin sem blek

og yrki Ijóð

úr hugsunum mínum

ÞEGAR EG LES „SÝNISBÓK HINNA ÞÚSUND SKÁLDA“

Hinir gömlu

sungu um fegurð náttúrunnar

snjó

blóm

mána

vinda

þokuna, fjöllin og árnar

Á vorum dögum

verður að stálbrydda ljóðin

og skáldin

verða að geta barist

 

 

LANDSLAG

Greinar mynda málverk

af Tsjang Fei

Hin eilífa sól

skín á dygðir Kúan Jú[13]

Í heilt ár

hef ég ekkert heyrt

að heiman

Hvern dag bíð ég frétta

 

FAGURT VEÐUR

Allt umhverfist

það er lögmál náttúrunnar

Eftir regndagana kemur uppstyttan

og dagurinn hristir í einu vetfangi

af sér vot klæðin

fjöllin breiða úr brókaðiteppum sínum

í hlýrri sól

og léttum blæ

blika blómin

Í voldugum trjám

milli hreinþveginna greina

syngur fuglakórinn

Hjörtum vorum hlýnar

lífið vaknar

hið sára víkur fyrir því milda

Þannig

er náttúran

 

 

 

 

GANGA Í FJALLINU EFTIR FANGAVISTINA

Skýin faðma tindana

tindarnir faðma skýin

Elfurnar blika

eins og flekklausir speglar

Við rætur Vesturfjalla[14]

slær hjarta mitt hraðar á göngunni

Ég lít til suðurhimins

og læt mig dreyma[1] Lí er kinversk lengdareining, tæplega 600 metrar.

[2] Í kinverskri skák eru notuð heiti úr hinum forna kínverska her. Peðin nefnast (óbreyttir) hermenn eða fótgönguliðar; kóngurinn er kallaður yfirmaður eða hershöfðingi en drottning og hrókar heita hervagnar. Þessum kínversku heitum er haldið hér efnissamhengis vegna.

[3] Tvisvar tíu-dagurinn: 10. október (10.10.), þjóðhátiðardagur Kína í tíð Kúómíntang.

[4] „Hestarnir mínir“: (grín) fætur minir.

[5] „Fimmvafinn kjúklingur“: (grín) vísar til þess að fæturnir eru hlekkjaðir alla nóttina,eins og kjúklingar eru fótreyrðir þegar undirbúinn er rétturinn „fimmvafinn kjúklingur“ á veitingahúsum.

[6] Willkie var foringi amerískrar sendinefndar er heimsótti Kína árið 1942.

[7] Þegar hermaður gerðist liðhlaupi setti Kúómíntang konu hans og börn í fangelsi.

[8] Þegar embættismenn og vitringar veittu áheyrn fyrr á tímum voru þeir vanir að bera belti, prýdd eðalsteinum. Í þessum beltum hringlaði þegar þau komust á hreyfingu.

[9] Pó Ji og Tsjú Tsi eru tvær hálfgerðar goðsagnapersónur (tákn tryggðar og skoðanafestu) sem ekki vildu ganga á vald Tsjó og lifðu sem jurtaætur og einbúar i skógunum þar til þeir sultu i hel.

[10] Ráðning: Tak burt táknið maður frá tákninu fangelsi. Bætið við líkindi, þá fáum við orðið þjóð. Takið burt efsta hluta táknsins óhamingja, þá verður til orðið hreysti. Bætið tákninu standandi maður, við táknið áhyggjur, það gefur orðið hæfni. Takið burt slá, sem er efsti hluti táknsins fangelsi, þá fáum við dreki.

[11] Læ-píng : Friðurinn mikli - þ.e. Pax Romana hins kínverska heimsveldis - friður mandarínanna.

[12] Tsíngmíng er tímabil í hinu forna kínverska tímatali, sem svarar til fyrstu fjórtán daganna í apríl. Í hefðbundnum skáldskap Kinverja er það ímynd vorsins, tímabilsins þegar ávaxtatrén og skrautrunnarnir blómstra. En í Suður-Kína er allajafna regn á þessum árstima.

[13] Tsjang Fei og Kúan Jú voru tvær hetjur á 3. öld e. Kr. sem börðust fyrir réttlætinu. Tsjang Fei var hinn ákafi og tryggi. Dygðir Kúan Jús voru réttvisi, hugrekki og sálarstyrkur.

[14] Vesturfjöll eru fjallakeðja, þaðan sem sjá má Líó Tsjó þar sem Hó Chi Mính var leystur úr haldi.- Þetta ljóð var ekki með í elstu útgáfunni af dagbók Hós. Hann losnaði úr haldi vorið 1943. Um þær mundir gengu þær sögusagnir í Víetnam, að hann væri látinn. „Stuttu  síðar“, segir Vó Ngúén Gíap hershöfðingi frá, "fengum við sent dagblað frá Kína.  Á umslagið var þessi vísa rituð og við þekktum aftur rithöndina.“