Ekki er sú rósin best

Bókina er hægt að panta í netfanginu gsaem@hi.is. Hún kostar kr. 500.

Bókin hefur að geyma 36 ljóð. Þau eiga það öll sammerkt að fjalla á einhvern hátt um stjórnmál og baráttu fyrir réttlátara samfélagi.

Bókinni fylgir hljómdiskur með upplestri höfundar á öllum ljóðunum. Frumsömdu ljóðin eru 15, ort á ýmsum tímum. Þýddu ljóðin eru 21 og eftir ýmsa höfunda, m.a. Maó Tse-túng, Bob Dylan, Leonard Cohen, Inúítann Aqqaluk Lynge og norsku skáldin Frederik Fasting Torgersen, Sigbjörn Obstfelder, Rolf Jacobsen, Gunnar Lunde, Ingebjörg Kasin Sandsdalen, Tarjei Vesaas, Jens Björneboe og Kjersti Ericson.

Bókin er 64 bls. auk kápu. Útgefandi er Bláskógar. Prentun annaðist prentsmiðjan Samskipti hf. Hljómdiskur fylgir bókinni með upplestri höfundar á öllum ljóðunum. Hann er fjölfaldaður og áprentaður af Samskiptum hf. Bókin verður til sölu í öllum helstu bókaverslunum. Einnig er hægt að panta hana hér á heildsöluverði, kr. 500 fyrir bók og disk.

 

Ljóðin í bókinni fara hér á eftir:

Eitt land – mitt land

Eitt nakið land með logn í vík
og ljósan hatt á kolli
lagði af stað með léttan mal
í ljósaskiptum kvöldsins
Í hafið sökk það til að sjá og heyra
sanna visku neðan lands og eyra
Á hafsins botni hús á hverjum steini
harla dimmt og grimmdar slóð í felum
en landið mitt það hratt burt öllum hættum
og hjó sér leið að sjávarguðsins stalli
Komdu sæll, minn sjávarguð
þú sérð að ég er kominn
Gef mér bita af borði þín
og bjóddu mér í höllu
Ég vil nema fræðin fús og hlýðinn
fara með og varpa birtu á lýðinn
Reis þá sjávarguð af sínum tróni
Svo leið stund – hann horfði fast á landið
spýtti galli, glennti kjaft og sagði:
Gakk til sætis. Hér er krásafjöldi
Eitt sviðið land með logn í vík
Ljósin sýndust blása
Í höllu gekk með grænum lit
og gráma draums og písla
spurði: Á ég fræðin fús að læra?
Fólkið svarar: Dúlla-salla-væra
7
Þau gengu inn, mitt land og landsins drottinn
um langar stofur, kompur, búr og sali
Þau gengu að borðum, blöstu við þeim kjúkur
beinagrindur, kúpur, tær og mergur
Þá ældi land og spýju spjó
og spennti greipar frómar
Hljóp af stað og hentist út
og happi þóttist fagna
að losna svona létt og vel
frá lygum, svikum, hafsins vél
En gangar reyndust langir, salir luktir
og leiðin brott var hulin sjónum tærðum
Þá leit það upp af góðum vana og gömlum
en guðs þess loft var þakið allt með punktum …
8
Í landi hins fullkomna ljóðs
Í landi hins fullkomna ljóðs
er haldin hátíð í dag
Vinur
hví tekurðu ekki þátt
í hátíðahöldunum?
Hví samgleðstu ekki þjóð þinni
vegna afmælis
Íslandsbyggðar?
Finnst þér þjóðin
sem fagnar gjöfinni
hafa glatað henni?
Finnst þér bláminn í augunum
ekki jafn sannur og þá?
Finnst þér ást varanna
ekki jafn heit og þá?
Finnst þér orð leiðtoganna
ekki jafn hrein og þá?
Hefurðu lagt í vana þinn
að horfa um of aftur
af vörubílspalli lífsins?
Hefurðu fengið of stóran skammt
af elixír pólitíkusanna?
Hefurðu fengið of lítinn mat
fyrir aurana þína?
Vinur
hví tekurðu ekki þátt
í hátíðahöldunum?
9
Í landi hins fullkomna ljóðs
er haldin hátíð í dag
Ertu of lítill til að gleðjast
vegna hins smáa
sem er horfið?
Ertu of stór til að gleðjast
vegna hins smáa
sem þú hefur?
Vinur
hví tekurðu ekki þátt
í hátíðahöldunum?
Í landi hins fullkomna ljóðs
er haldin hátíð í dag.
10
Íslensk stjórnmál
Stjórnmál þjóðinni steypa
svo stingst á bólakaf
af græðgi í veg og völd
Svikin sálirnar gleypa
sælu breyta í draf.
Því tárast kinnin köld
Hégómleiki, fals og heimskuþankar
Höndin blauð í eigin pyngju sankar
Þjóðin seint af þrautasvefni rankar
Hún þykist sæl ef áfram hagnast bankar
Lýðræði kerfið sitt kalla
sem kunna að svíkja grið
með lygum og laumuspil
Veikustu vígin þá falla:
Von um sátt og frið
nú fokin er fjandans til
Flokksvél hafa fólin leitt til valda
fégirnd dýrka, smjaðri og bugti tjalda
Alþjóð fær með skorti og skömm að gjalda
Skrumskælt frelsi, grimmdin harða og kalda.
11
Óður til græðginnar
Græðgi
er öllum löstum verri
í samfélagi manna
Umhyggja fyrir heilsu og líðan Siggu litlu og Ólafs gamla
hefur vikið fyrir fjárhagslegum hagsmunum
Heilbrigðiskerfinu blæðir fólki til ólífis
Barnavernd víkur fyrir hagsmunavernd ríksbubba
Umönnun aldraðra er sett á sveittan klaka
Peningarnir þurfa að fara í annað
Sigurveig kennari er illa launuð
nær ekki endum saman
skólinn hennar berst í bökkum
menntun barnanna er komin í baksætið
ef ekki aftur í skott á samfélagsbílnum
fjárhagslegir hagsmunir segja ráðamenn
Unga parið Alla og Dóra fær ekki þak yfir höfuðið
né peninga til að safna sér fyrir útborgun
Leigumarkaðurinn heimtar hálf mánaðarlaun vinnandi
fólks
Bankarnir lána aðeins gegn okurvöxtum
Samfélagið skellir við skollaeyrum
Fjárhagslegur hagsmunir?
Græðgi
er öllum löstum verri
í samfélagi manna
12
Fátækt grasserar á Íslandi
Atvinnulaust fólk, öryrkjar, aldraðir, námsfólk
Láglaunafólk á varla fyrir mat og alls ekki fyrir húsnæði
né bíl til að komast leiðar sinnar
Samt þykir samfélaginu mikilvægara
að bankaguttarnir fái sína bónusa
og græði – jafnvel á meðan þeir sitja af sér dóma fyrir
glæpi
Ferðamenn kvarta undan okri og græðgi
Venjulegt fólk hefur ekki efni á að heimsækja Ísland
En það er víst allt í lagi
Við viljum aðeins ferðamenn sem eiga nóg af peningum
og eru nógu heimskir til að afhenda okkur þá
Gestrisni er ekki lengur til
Borga, borga, borga ...
Á meðan fólk á flótta kvelst um allan heim
hefur misst heimili sín og viðurværi
sitjum við hér á skerinu
og tökum við örfáum þeirra til gnægtalandsins okkar
Vasar okurlánaranna leyfa ekki meira
Þeir eiga svo bágt
Græðgi
er öllum löstum verri
í samfélagi manna
Hvenær auglýsir Þjóðkirkjan eftir biskupi
með menntun í markaðsfræðum
svo hægt verði að verðleggja huggunina sem
nákvæmast?
Hvenær mætir Sigurjón læknir í vinnunna með vasareikni
til að reikna út lífslíkur og fjárhagslegan ávinning af
sjúklingum sínum
áður en hann reynir að lækna þá?
Erum við ekki lengur manneskjur?
Hvenær urðum við að kassavélum?
13
Guð! Eru komin jól?
Bráðum koma blessuð jólin
blátt er í fjöllum
sagan segir jól, hátíð
kjötkveðjuhátíð
segir fórnarhátíð
Bubbi kaupmaður
segir viðskipti
segir verslunarhátíð
verslunarhelgi
kannski verslunarmannahelgi
jólahelgi
Helgi Jónsson
á Bræðraborgarstíg
á ekki krónu til jólanna
Engin jól koma til hans
Presturinn í sjónvarpinu
sagði að jólin kæmu ekki
Jesús kæmi
Jesús kemur ekki
til Helga Jónssonar
á Bræðraborgarstíg
Kátt er á jólunum
ég kannast við það
Ég var einu sinni lítill
Í Betlehem er barn oss fætt
börn fæðast
og deyja ekki nema úr sulti
sjúkdómum eða stríði
14
Barnið í Betlehem
átti góða daga
en fullorðni maðurinn
sonur hennar Maríu
var hálf vansæll
Ó Jesús bróðir besti
bræður eru bræðrum verstir
undantekningin sannar regluna
Heims um ból
liggja menn á maganum
og skjóta bræður sína
Jól ...
Langar börnin að verða stór?
Gleðileg jól
Lítið leggst fyrir kappana
Ég meina -
Hvað kemur mér það við?
Guð gaf – og Guð tók
Þetta al – eitthvað
sem við köllum Guð
sendi okkur jól
til að við gætum skilið sig
Við höfðum öll skilyrði til móttöku
í lagi sem börn
en skorti skilninginn
Nú – sem fullorðið fólk
er skilningurinn skárri
en móttökutækin
eru öll úr lagi gengin
Við erum ekki
á bylgjulengd við Guð. –
15
Í orðastað séra Friðriks
Hér áður var knattspyrnan göfug og glæst
og garpar á velli sem skoruðu hæst
Þeir voru hreinir í huga
vildu heiminum duga
Þeir voru hetjurnar sólunni næst
Þessir drengir svo fimlega léku sinn leik
af leikni og drengskap með höfuðin keik
Þeir sóluðu saman
og í sigri var gaman
sína samherja enginn þá sveik
En hvað er á seyði, hví brestur svo brátt?
Hví bilast og skekkist á ferlegan hátt
Er þetta íþróttin okkar?
Er það auðsvon sem lokkar?
Hví eyðist sú drengskapar sátt?
Nú eru veðmál og mútur og spilling og spé
sprettharðir vaða þeir leðju í hné
Flest í gróðavon glatast
og með græðginni fatast
í gulldansi um bónusa og fé
En víst eru flestir sem finnst þetta illt
þótt fátt geti aðhafst og engu um bylt
Því að forystan fína
með alla fjármuni sína
svo forrík kýs vera og spillt
16
En látum ei hugfallast hetjur og lið
hefjum upp fánann gegn útlenskum sið!
Ef stöndum við styrkir
bæði sterkir og virkir
Þá við stefnum á framtíðarmið.
17
Úr raunasögu vinstri flokka
I.
Þú þekkir ljónið í útlöndum
það veiðir bráð sína
en á eftir
meðan það sleikir út um
og flatmagar
undir stóru tré
fær gaupan sinn skammt.
II.
Bakvið ferkantaðan kassa er poki
Í pokanum er maður sem kallar sig prest
Hann er atvinnuprestur
2 tíma í viku
- 8 tíma á mánuði
96 tíma á ári –
kallar hann eldingar og þrumur
yfir söfnuð sinn ef ...
en hina tíma vikunnar
og mánaðarins
og ársins
er hann að framkvæma sjálfur
þetta ef ...
Og söfnuðurinn trúir honum
og tignar hann
á sunnudögum
en heldur samt áfram
hina daga vikunnar
að gera þetta ef ...
18
III.
Einu sinni var bíll
sem ætlaði að fá sér briddstón
undir sig
en þessi briddstón
vildi ekki þóknast bílnum
nema bíllinn þjónaði sér
Briddstóninn sagði:
- Á götunni eru oft holur ...
Og bíllinn sveigði hjá öllum holunum
og samkomulagið bleif.
IV.
Árið 17 hundruð og súrkál
sendi fátækur myllumaður
í landinu Mið-austur-Grútan
litla hvíta bréfdúfu
til veikrar dóttur sinnar
en litla hvíta bréfdúfan
flaug inn um opinn hallarskjá
og þáði víst
hjá aðalsmanni AUÐ
í búrinu lokkandi ljóta
og enn bíður fátæki myllumaðurinn
eftir dúfunni sinni
og veika dóttir hans er löngu dáin.
19
V.
Munið þið eftir SÍBS–kubbunum gömlu?
ég átti svoleiðis kubba
þegar ég var lítill
- ég man það svo vel –
en svo varð óhappið:
Ég missti UHU-lím í pakkann
með SÍBS-kubbunum mínum
og þeir límdust allir saman
í píramídanum mínum
sem ég hafði búið til daginn áður
svo bað ég pabba
að saga efsta kubbinn af
en þá urðu bara tveir þeir næstefstu efstir
og ég bað mömmu
að gefa mér nýja kubba í afmælisgjöf.
VI.
Ekki fæðist eitt barn
með gull í munni
en annað með saur
ekki er sú rósin best
sem flesta hefur broddana
Ekki er verra að kynda húsið
með skrautlausri eik
en prjáluðu jólatré
ekki er sá fuglinn hamingjusamastur
sem hæst tístir í búri
Ekki er það skáldið sælla
sem lokar augunum
heldur en það sem sér þjáningu heimsins
og hjálpar
Ekki er geirfuglinn happí
að vera útdauður
ekki fagnar krummi
við jarðarför lambsins
20
Ekki fær Jón bóndi kvef
af treflinum sínum um hálsinn
ekki drepur hásetinn vélstjórann
til að auka hlutinn sinn.
VII.
Ferðamaður –
undir háum kletti
áir þú eftir fárra tíma reið
og ég sé
að nú viltu gjarna hvílast
reisa tjald þitt
skríða í pokann þinn
og sofa ... sofa ...
En rís upp!
Áningarstaður
er bara áningarstaður
Mundu
að í töskunni þinni
er meðal
handa lömuðum syni
grátandi föður
handa máttvana stúlku
einmana móður
Rís upp!
Haltu áfram reið þinni
Renndu gæðingum þínum á skeið
Láttu grundirnar duna
og svellin gneista
Láttu fák þinn renna í hlað
á litla bænum
fyrir sólsetur í kvöld
21
Alþýðusvikarar
Alþýðuhetjur í argasta sinni
en aumustu vargar í geithafraskinni
Svo ötulir telja upp dygðir og dáðir
og drafla í svaðinu ríkir og fjáðir
En fólki sem treysti þeim fólum til verka
því fátækt er búin í vindinum sterka
skór þess svo skitnir og snjáðir
Of verkalýð drottnandi gylfar og gungur
sem gráðugar halda þeim lýðnum við hungur
Skjaldborg þeir byggja þar einn hver um annan
þeir einræði dýrka og fláttskapinn sannan
En fólki sem treystir þeim fólum til verka
því fátækt er búin í vindinum sterka
dauf er sú dúsfyllta kannan
Í stjórnmálum svikdraugar sveittir þar lafa
í samfó og vaffgé nú flykkt sér þau hafa
jóhönnur rétt eins og steingrímar storka
stingur þar hver sá sem betur má orka
En fólki sem treystir þeim fólum til verka
því fátækt er búin í vindinum sterka
Í svínsskapnum ferlegir forkar
Þannig má skoða um vígvöllinn víðan
í veröldu allri er samskonar líðan
pútínar fólkið sitt píslunum kvelja
og pípkanar vitgrannir trömpana velja
En fólki sem treystir þeim fólum til verka
því fátækt er búin í vindinum sterka
Þeir ömmur og afana selja.
22
Bitlingar
Illt er að lifa á annars brauði,
eins manns lán er hinum dauði
Mér eru boðnir bitlingar af borðum ríkra manna
„Nei takk,“ samt ég segi
og svangur höfuð reigi
Þótt ég yrði álfum gefinn
ekki réttast mundi hnefinn
móti blauðum bitlingum af borðum ríkra manna
því huglæg hungurvaka
er hálfu betri en kaka
Takist þér að tóra sjálfum
teljast saddir jafnt þér hálfum
þótt boðnir séu bitlingar af borðum ríkra manna
Ef skuldarðu engum eyri
þér auðnast gleðin meiri.
23
Á fyrsta degi skólans
Á fyrsta degi skólans
lærði 6 ára dóttir mín
að hlýða flautunni
Þegar kennslukonan
blés í flautuna
átti skarinn að hlaupa af stað
Þegar hún blés aftur
áttu allir að stansa
Úti í heimi
blása geðveikislegir herforingjar
í flautur
þá mega hermennirnir byrja
að slátra börnum og konum
Á fyrsta degi skólans
lærði 6 ára dóttir mín
að hlýða flautunni.
24
Landhelgissöngur
Bretarnir berjast
bölva og lemja
bítast við íslenska landhelgismenn
Víkingar verjast
en vargarnir emja
veiða ekki bröndu þeir örvitamenn
Áfram 50 mílur
áfram verjumst fantahríð
Rekum burtu Breta
á Ballarhafi geta
þjófar háð sitt þorskastríð.
Lag: Öxar við ána
25
Til þín, Kampútsja!
Þú lagtæka smáþjóð sem leikin ert grátt
af lævísum féndum sem rjúfa alla sátt
Í nábleikum heilunum hugsað er flátt
og herjum er skipað að myrða
Kampútsja – Kampútsja
Nú land þitt er lamið af Víetnams stríði
en leið þeirra er vörðuð af sovésku níði
Kampútsja – Kampútsja
þig kúga nú erlendar sveitir
Kampútsja – Kampútsja
þú kúguðum fordæmi veitir
Fyrir örfáum árum þú heimtir þín lönd
og ógnun sem frelsi þitt hneppti í bönd
þú lagðir að velli, þá létt var þín önd
og lokið var hörmungarstríði
Kampútsja – Kampútsja
Svo sannlega áttirðu harma að hefna
hrundi því bandarísk ofbeldisstefna
Kampútsja – Kampútsja
þig kúga nú erlendar sveitir
Kampútsja – Kampútsja
þú kúguðum fordæmi veitir
26
Þú byggðir upp afl þitt og alþýðuvöld
þú auðgaðir líf þitt og fáðir þinn skjöld
En utan að barst til þín andrænan köld:
Áróður lyga og svika
Kampútsja – Kampútsja
Afturhald heimsins í austri og vestri
yfir þig jós sínum rægjandi lestri
Kampútsja – Kampútsja
þig kúga nú erlendar sveitir
Kampútsja – Kampútsja
þú kúguðum fordæmi veitir
En lambið var étið og úlfurinn naut
afls síns og stærðar og hvarf svo á braut.
En hér verður hins vegar þyngri sú þraut
þjóðinni smáu að eyða
Kampútsja – Kampútsja
Þú stefnir á frelsi, á frið um þitt land
því fær enginn kúgari unnið þér grand
Kampútsja – Kampútsja
þig kúga nú erlendar sveitir
Kampútsja – Kampútsja
þú kúguðum fordæmi veitir.
Lag: Auður Haraldsdóttir
27
28
Til félaga Ermíasar í Eritreu
Gegn erlendu valdi og ofbeldisræði
af alhug þið berjist, gegn morðum og æði
Af fjandmönnum vinnið þið svæði eftir svæði
sækið í brattann, gegn hatri og bræði
Þú þjóð þína elskar og eggjar til dáða
æskuna brýnir og hughreystir smáða
Með frelsið sem markmið og friðinn í huga
þín fegursta óskin er þjóð þinni að duga
Félagi Ermías, félagi sæll
ég færi þér kveðjur að norðan
Félagi Ermías, félagi sæll
ég færi þér hugheilar kveðjur að norðan
Já, fagurt er verk þitt, þú félagi og vinur
og fjandinn er sterkur sem yfir þig dynur
En eþjópískt einræði undan þér stynur
og innrás frá Kúbu um sjálfa sig hrynur
Sú smáþjóð sem berst fyrir lífi og landi
launsátrum öllum hún verður að grandi
Þú sigra munt sovéska heimsvaldaseggi
þótt sjúkir af gróðafýsn sjálfa sig eggi
Félagi Ermías, félagi sæll
ég færi þér kveðjur að norðan
Félagi Ermías, félagi sæll
ég færi þér hugheilar kveðjur að norðan
Á Íslandi þekkjum við óvini þína:
Auðherra, kúgara, borgara „fína“
Útlenskur her treður móðurjörð mína
og Moskvuliðs ógnir um höfuð mér hvína
Berðu því bróðir til félaga þinna
baráttu- og kveðjuorð landsmanna minna
Við hlið þína stöndum og stuðning þér sýnum
og staðfestu lærum af afrekum þínum.
Lag: Auður Haraldsdóttir
29
ÞÝDD LJÓÐ
Óður til Bauna
(Um „aðsendistefnu“ Dana í Grænlandi)
Bölvaðar skepnurnar
nú veit ég það með vissu
– mistök fortíðarinnar
öflug útflutningsframleiðsla
nútímaþjóðfélag í Grænlandi
allir þessir opinberu bjartsýnu Grænlandsvinir
hver fyrir sig eru þeir fantar
og trúa ekki orði af þessu öllu
ríkisframlag er sama og atvinnulíf
raunveruleiki er raunveruleiki
hvílíkur loddaraskapur –
Nú veit ég það
Ég veit að dönsk nýlendustefna felur sig í
ráðuneytum (hvorki í hermála- né dómsmála
heldur Grænlandsráðuneytinu)
Ómannleg mannúðarfull heimsvaldastefna
kalt stríð við kuldann
Þegar heil svæði einhvers lands eru brotin undir
útlenda tungu, siði og stjórnháttu
þá birtast erfiðleikarnir
þá þarf mikla gæfu og óþrjótandi hæfileika til að
halda tökunum á þeim
Besta og áhrifaríkasta ráðið er að sigurvegarinn
setjist sjálfur að í nýja landinu
30
Biskupinn Hans Egede sagði: Vopn mitt er BIBLÍAN
Konungur Danaveldis sagði: Vopn mín eru PENINGAR
Annaðhvort er að vinna fólkið á sitt band
eða útrýma því
Grænland
öskutunna Bauna
gjörsamlega óseðjandi
af aðsendum svínum
aðsendum skordýrum
aðsendum skólprörum
aðsendri nýlendustefnu
– aðsendistefnu
Grænland
vér erum silfurkista aflátsprangaranna
Þegar hringlar í peningum í Grænlandi
er sál mín til reiðu að moka þeim burt frá
Grænlandi
Ég veit það
Thúleþjóðin hrakin og hrjáð
með lymskubrögðum
Qutdligssat
gefin upp á bátinn
ekki nógu arðsöm
Grænlenski þorskurinn
gefinn upp á bátinn
ekki nógu ábatasamur
Grænlenski Grænlendingurinn
gefinn upp á bátinn
ekki nógu fær
31
Grænlensk sál
grænlensk menntun
ekki til
ný sál
ný menntun
gefin upp á bátinn
öllu safnað í borgir
Grænland þú ert botnlaust
Grænlendingur þú fellur botnlaust
Þegar einhvern skal meiða
ber að gera það svo vandlega
að ekki sé hætta á hefndum
Kaladlit–nunat
þú með þitt lokkandi ósanna auknefni – Grænland
sauður í úlfagæru
botnfrosinn upp úr
botnlaus niður úr
gullæð aflátssalanna
tómstundagleði Bauna
Okkur er veitt sú ánægja
að fylla þig tóma
þú varst tóm
þú ert tóm
þú verður tóm.
Aqqaluk Lynge (1947 - )
32
33
Dauðinn
Dauðinn
hafði verið á hraðferð
í marga sólarhringa –
um leið og hann fékk skilaboðin
um lítil börnin
sem voru sprengd og brennd
uns þau voru ekkert annað
en eitt stórt vein
sem enginn gat stöðvað
hafði hann lagt
af stað
reykur og rústir
vísuðu veginn
sársaukaópin
komu í bylgjum
hann vaggaði þeim í svefn –
á heimleiðinni
var dauðinn boginn í baki.
Fredrik Fasting Torgersen (1934 - 2015)
Fyrir þá ríku – af hinum ríku
Lagagreinarnar voru þurrar eins og
hrossatað
og þær fuðruðu upp
í rauðglóandi bálinu
þegar Réttlætisgyðjan
fleygði þeim á eldinn
þetta er eins og að tína lýs
sagði gyðjan og gerði athugasemdir
við lögin um leið og hún
tíndi þau út
og lét þau detta í logana
þar sem þau sprungu
með viðbjóðslegum hljóðum
Lagasafnið varð sífellt þynnra
og Réttlætisgyðjan sífellt fölari –
allt þetta er aðeins sverð og skjöldur
hinna ríku, sagði hún
og reif út heila síðu
af kúgun
Þegar Réttlætisgyðjan stóð upp
var bakið beint –
af lagasafninu
voru aðeins blóðrauð kápuspjöldin
eftir.
Fredrik Fasting Torgersen (1934 - 2015)
34
35
Ruslahaugurinn
Á dvalarheimilunum
hímir
gamla fólkið
í stólum
eins og pottablóm
Umhyggja samfélagsins
í stað þess
að úða það skordýraeitri.
Fredrik Fasting Torgersen (1934 - 2015)
Ströng er lífsins leið
I
Eftir að hafa klifið fjöll og háa tinda
ætti þá hættan að vera meiri á sléttlendinu?
Í fjöllunum mætti ég tígrisdýri
en komst ósærður niður
Á sléttlendinu hitti ég mannverur
og var kastað í fangelsi
II
Ég er sendiboði víetnömsku þjóðarinnar
á leið til Kína
til að hitta háttsetta menn
Á stormurinn að gnauða yfir veginn
og mér að veitast sá heiður
að vera úthlutað fangelsisvist?
III
Ég er hreinskiptinn maður
og hef ekkert gert af mér
en ég er sakaður um njósnir gegn Kína
Að lifa sínu eigin lífi
er ekki ætíð svo einfalt
Það hefur sjaldan verið erfiðara en nú.
Hó Chí-Mính (1890 - 1969)
36
37
Tímarnir breytast
Safnist saman, gott fólk, hvar sem þið eruð á flakki,
og viðurkennið að vötnin umhverfis ykkur hafa vaxið.
Sættið ykkur við að brátt verðið þið holdvot. Sé ævi
ykkar þess virði að bjarga henni ættuð þið að leggjast til
sunds, annars sökkvið þið eins og steinar því að tímarnir
breytast.
Komið rithöfundar og gagnrýnendur sem spáið með
pennum ykkar. Haldið augunum galopnum, tækifærið
gefst ekki aftur. Takið ekki of fljótt til máls því að hjólið
snýst enn og enginn veit á hvers nafni það lendir. Vegna
þess að þeir sem tapa núna munu vinna síðar því að
tímarnir breytast.
Komið öldungadeildarmenn, þingmenn, sinnið kallinu.
Standið ekki í dyragættinni, fyllið ekki gangana. Því að sá
sem meiðist verður sá sem hindrar. Það er bardagi úti og
hann geysar enn. Brátt mun hann hrista glugga ykkar og
veggi því að tímarnir breytast.
Komið mæður og feður alls staðar frá. Gagnrýnið ekki
það sem þið getið ekki skilið. Synir ykkar og dætur taka
ekki lengur við skipunum ykkar. Gamli vegurinn ykkar
eldist hratt. Farið út af nýju vegunum ef þið getið ekki
rétt hjálparhönd því að tímarnir breytast.
Komið er að lokum, bölvunin hafin. Sá hægfara núna
verður hraðfara síðar rétt eins og nútíðin núna verður
síðar að fortíð. Reglan er á hröðu undanhaldi og þeir
fyrstu núna verða síðastir síðar því að tímarnir breytast.
Bob Dylan (1941 -)
Hitler – hin vitiborna moldvarpa
Hitler hin vitiborna moldvarpa horfir út um augu mín
Göring bræðir gullstengur í innyflum mínum
Barkakýlið í mér tútnar utan um hausinn á Göbbels
Það þýðir ekkert að segja við mann
að hann sé gyðingur
Ég er að búa til lampaskerm úr kossi þínum
Játaðu! játaðu!
er skipun þín
þótt þú haldir að þú gefir mér allt.
Leonard Cohen (1934 - 2016)
38
39
Ég sé ...
Ég horfi á þennan hvíta himin
ég horfi á þessi blágráu ský
ég horfi á þessa blóðugu sól
Þetta er semsagt heimurinn
þarna búa semsagt mennirnir
Regndropi!
Ég horfi á þessi háu hús
ég horfi á þessa þúsund glugga
ég horfi á þessa fjarlægu kirkjuturna
Þetta er semsagt jörðin
þarna býr semsagt mannfólkið
Blágráu skýin dragast saman
sólin horfin
Ég horfi á þessa vel klæddu menn
ég horfi á þessar brosmildu konur
ég horfi á þessa álútu hesta
En hve blágráu skýin dökkna!
Ég sé, ég sé ...
ég er víst kominn á rangan hnött!
hér er allt svo undarlegt ...
Sigbjørn Obstfelder (1866 - 1900)
Verslanahverfið
I.
Glerbúðin selur ósýnilegar vörur
þær klingja eins og slaghörputónar
og eru viðkvæmar eins og blöðrur á þangi
Það er hús geðklofanna sem eru
kólnaðir innvortis og eiga tilkomumikla drauma
hinna þunglamalegu sem eru hringaðir utan um sjálfa sig
Glermaðurinn lifir í ríki ljóssins
fullu fegurðar, en er geldur
eins og fagurfræðingur
Skrift á gleri
er eins og regn í augunum.
II.
Járnvöruhyllurnar eru skrúðhús
mannshugans
þar tóna hin heilögu ílát
þau sem ákvarða líf okkar.
Skaftpottarnir
bæði þeir glerjuðu og þeir sem leiftra
af gráu stáli
Þar eru hugmyndirnar úthugsaðar af vitringunum sjö
fyrir okkur.
Hamarinn til að reka þær inn
og töngin til að draga þær út aftur
og sandpappír
Flugeldaverslun til vinstri og skotvopn
beint á móti.
40
41
III.
Saumabúðin er lítið kaffihús
ástarævintýranna.
Þess vegna þjónar hún viðhaldi lífsins
Ýmis konar faðmlög geta verið fólgin
í gljáandi prjónum
og djúp ást
í prjónatreyju og grænum trefli
Þarna er verslað með leynilegar uppskriftir
og töfrarúnir handa sálunum
góð ull ilmar eins og ungur frjóangi
sef og vökvi hjartans.
IV.
Málningarvöruverslunin er betur við mitt hæfi
Hún afgreiðir hin leynilegu lyf jarðarinnar
gult okkur, terpentínu og leirblátt
angandi af úldnun og fæðingu
– apótek fyrir heilbrigðina í heiminum
Einu sinni var málningarsali
sem giftist saumasölukonu.
Þau urðu að göfugum glitvef og mjög gömul.
Ófu sig hvort að öðru
með björtum og dökkum þráðum í mynd af hjörtum
undir eikartrjám, og gránuðu saman
í silfri og grænku.
Rolf Jacobsen (1907 - 1994)
Í skógum verslananna
Gú-gú segir gaukurinn í peningakassanum
Girnilegt er vorið í skógum verslananna
ilmandi af leðri, berjum, sápulitum og ullarströngum
og fuglakliður er leikinn af segulbandi milli níu og sextán
og svín og pelsdýr eru stöðugt felld með hljóðlausum
skotum
Speglaðu þig í voru litla stöðuvatni
úr silki – Brostu við öllu
Því að önnur himnaríki eru ekki til en þessi
ævintýraströnd handan glersins sem snýr að öllum
strætum og engir aðrir skógar þar sem þú getur reikað
frá jólum til júlí í mýrinni svo glaður, örstutt andartak
á þessari jörð (Gú-gú)
sem er stjarna (Gú-gú)
og nú er vor.
Rolf Jacobsen (1907 - 1994)
42
43
En vér lifum
En vér lifum af stórmarkaðina og ostahillurnar
og við lifum undir þoturákunum í gylltum maímánuði
og í reykumleiknum borgum
og vér lifum með hósta bensíndælunnar
og skellum bílhurðanna
Vér lifum af sjónvarpskvöld gullinnar aldar
yfir steinsteypunni, bak við vikublöðin
og á bensínstöðvunum
Vér lifum í tölfræðiyfirlitunum og á kjörskránni á
kosningaári
Vér lifum með blóm í glugganum
Þrátt fyrir allt lifum vér í skugga
kjarnorkufræðilegra útrýmingarhótana
vetnissprengjunnar
Svefnleysi.
Vér lifum
við hlið þeirra soltnu
þeirra sem deyja í milljónatali,
lifum með þreytu í hugsun vorri
lifum ennþá
lifum óskýranlega dulrænt
lifum
lifum
á stjörnu
Rolf Jacobsen (1907 - 1994)
Apartheid
Hvítir í einum bás
Svartir í öðrum bás
Gulir í þriðja bás
Gyðingar
(þeir sem enn eru eftir)
í fjórða bás
Hinn góði í sér bás
Hinn slæmi í sér bás
Launaflokkur tólf
í bás númer níu
Launaflokkur tuttugu
í bás númer fimmtán
Gamla unga
létta og þunga
litla stóra
dólgar og hóra
morðingja lík
fátæk og rík
Gáfaða og drumba
daufa og dumba
föður og móður
systur og bróður
rammsterkan lás
á sinn eigin bás.
Gunnar Lunde (1944 - 1993)
44
45
Borg friðar
Ó, bið um frið
fyrir það sem við byggjum
það sem við ætlum að gróðursetja
þótt svo óvinur
gangi um akurinn
og illgresið vaxi
í sporum hans
Frið fyrir hina útreknu
til að rísa upp
og varpa af sér hlekkjunum
Frið til að taka fram
mælistikuna
og skipta niður landinu
áður en það verður um seinan
Frið til að setja upp
vogarskálarnar
og deila út réttlætinu
Það er nóg af gullskálum
fyrir alla
Frið til að stöðva
pyntingarnar
fingur djöfulsins
Frið til að kveikja eld
gegn frostinu
Byggja borg
friðar.
Ingebjörg Kasin Sandsdalen (1915 - 2003)
Regn í Hírósíma
Þegar hún lyfti hendinni
til að taka tekönnuna
kom glampandi ljós ...
... var ekki meir
allt var horfið
Þeir voru horfnir
ummyndaðir í gufu og ský
sem steig upp
leyndardómsfullt og hljótt
Hróp var ekki lengur hróp
en jörðin sló í tryllingi
krepptum hnefa hátt mót himni
í sjálfsvörn
... vegna þess sem allt lifandi líf veit
hvarvetna
en megnar ekki að skilja:
Hírósíma ...
Mílubreiðar slæður sem stigu upp
þeir voru þarna í þeim
endurgerðir í frummynd
Gufubólstrar
yfir kvalinni jörðunni:
Að vera ögn af þessu ...
46
47
Að vera í þessu sem hvarf
en ekki lengi
Glundroðinn varð brátt minni
slæðan þéttist í dropa – þétta dropa
með eilífum skapnaði dropans
án upphafs og endis
Þeir féllu niður
svalandi, óteljandi
í stríðu regni.
Tarjei Vesaas (1897 - 1970)
Af manndráparaætt
Við erum mörg
skyld
Manndráparanum
segir ættfræðingurinn
hann situr með gerðabókina
Einnig þú
fingurinn bendir
á mig
Einnig þú
ert af manndráparaætt
Ég?
Hlátur gamlingjans vellur fram
Vissirðu það ekki?
Hélstu að þú værir frjáls
eins og barn í móðurkviði?
Ég er með þig
í bókunum mínum
Fingurinn bendir
Einnig þú
ert af manndráparaætt.
Halvor J. Sandsdalen (1911 - 1998)
48
49
Á eftir
Á eftir förum við út á göturnar
við erum mörg hundruð
en við getum ekki tekið allt með okkur
Ég reyni að fá hugmynd að ljóði
til að túlka aðeins þetta
Ljóð hafa alltaf rétt fyrir sér
ljóð geta sagt hvað sé rangt
Sé í því svolítið blóð
svolítið dautt
og svolítið hold sem rotnar
er það rangt
Að drepa fólk er rangt
að drepa tíu manns er rangt
en að drepa tíu þúsund?
Það er hægt að yrkja um enn
mann sem deyr
það er hægt að yrkja um tíu
manns sem deyja
en að yrkja um tíu þúsund
manns sem deyja?
Sé rangt að drepa
tíu þúsund börn
hvað þá um
að drepa eitt barn?
Ég hef fengið hugmynd að
tíu þúsund ljóðum
Hver getur hjálpað mér að skrifa?
Þau eiga að fjalla um dautt
blóð og hold sem rotnar í sólinni
þau eiga að segja hvað sé rétt og hvað sé rangt.
Þolf Sagen (1940 - )
Á almennum fundi
Herra fundarstjóri
Ég er ekki vön því
að tala á fundum
Ég er ein þeirra sem aldrei biðja um orðið
því að mér tekst aldrei
að tala eins og þið
En mér finnst eindregið að það sé skylda mín
sem þegns í lýðræðisþjóðfélagi
að mitt álit komi líka fram
Ég vil þá segja að skoðun síðasta ræðumanns
stríðir á móti einhverju í mér
og ég lýsi því yfir að ég er mjög ósammála honum
án þess
að ég geti sagt
hvers vegna
eða bent á annan möguleika
Ég ætla að fá að skýra frá því þegar mér finnst
að álit mitt sé komið fram.
Olaug Rekdal (1939 - )
50
51
Innlegg í baráttu dagsins
Til hvers er að kveina og kvarta
þegar klögur og harmleikir
eru boðnir upp í heilum bílhlössum?
Hverjum kemur til hugar
að spyrja um brúðu barnsins
í grasinu
þar sem foreldrarnir voru skotnir niður fyrir hádegi?
Hverjum kemur til hugar
að spyrja um sannanir
eða hvort dómararnir séu hæfir
þegar hinir dæmdu eru stráfelldir
og brenndir
– heilar þjóðir í einu?
Hverjum kemur til hugar
að spyrja um hægri eða vinstri
þegar spurning dagsins er:
Ert þú einn af morðingjunum
eða eitt af fórnarlömbunum?
Ertu einn af dómurunum
eða einn hinna dæmdu?
Hvaða meining er í því
að börn sem fá að lifa
megi einnig eiga foreldra
þegar allt miðast við
að koma rússneskum eða amerískum hermanni
til tunglsins?
Jens Bjørneboe (1920 - 1976)
Fangelsi er ekki staður fyrir fólk
Í Portúgal var maður
hann barðist í þágu verkafólksins
þegar hann var látinn laus eftir 16 ár
sagði hann:
Ég iðrast ekki
því að málstaður minn var sá rétti
En meðan tíminn líður
verður hár ástvinarins
algjörlega grátt
Manstu að liturinn var annar áður?
Eftir 16 ár
er ekkert lengur eins og það var
Margir vinir eru látnir
og það er gróið yfir götuslóðana
Svartur maður í Jóhannesarborg
hélt hann væri manneskja
Þegar dómurinn um 12 ár var kveðinn upp
hrópaði konan hans:
Eiginmaður minn, ég er hreykin af þér!
En meðan tíminn líður
verður hár ástvinarins
algjörlega grátt
Manstu að liturinn var annar áður?
eftir 12 ár
er ekkert lengur eins og það var
Margir vinir eru látnir
og það er gróið yfir götuslóðana
52
53
Maður í Austur-Þýskalandi
og kona í Vestur-Þýskalandi
sátu í fangelsi fyrir styrjöldina miklu
í styrjöldinni miklu
eftir styrjöldina miklu.
Maður í Paragvæ
var ekki pyntaður alveg til dauða
Þau kvarta ekki enn
yfir heiðarleika sínum og hugrekkinu
En meðan tíminn líður
verður hár ástvinarins
algjörlega grátt
Manstu að liturinn var annar áður?
Eftir myrk ár
er ekkert lengur eins og það var
Margir vinir eru látnir
og það er gróið yfir götuslóðana.
Kjersti Ericson (1944 - )
Ákæra við múrinn
Við getum ekki hist
boðberarnir hrapa í myrkrið
Við getum ekki heyrt hvort í öðru
söngurinn hljóðnar inn í stein
Hví aðskildir þú okkur?
Ég sem við sólsetur
átti að þjóta til móts við hana
út á völlinn
bregða örmunum um mjúkt mittið
og dansa af gleði
Hví reistir þú múr að enni mínu
enni sem vildi halla sér
að ljósum öxlum?
Hví fléttaðir þú reipi
um hendurnar
hendur fullar af ást?
Hver ert þú, þú
sem mæltir til mín á kunnri tungu
og rakst mig burt
til lands án árstíða?
Ég sem sá fuglana fljúga í norður og suður
haglendin gróa undir grönum dádýranna
uppspretturnar streyma fram
Þú heldur mér föstum
með augu úr ís
og gætir útgönguleiðanna
með ofstækisstáli –
54
55
Ég sem er fæddur í hinum milda
sjöunda mánuði
þegar gróðurinn blómgast
og fyllir stað sinn
undir lögum þrárinnar
Í nafni lífsins: Hver ert þú
sem hlekkjar dag minn við múrinn
og lítillækkar mátt minn?
Eyðir mér upp til ösku og einskis?
Ég teygi mig í áttina til hins helga turns
í upphæðum –
Þetta er ofbeldi
Líttu á hinn stutta tíma vorn
og gef oss jörðina aftur
Unnusta mín er hinum megin
Ég get ekki náð henni –
Ég sem ætlaði að lyfta barninu í höndum mér
fagna: Ávöxtur ástar vorrar
Ætlaði að hrópa að hjarta mannsins:
Snú hvorki til austurs né vesturs
svo sannarlega ekki.
Einar Skjæraasen (1900 – 1966)
Barn
berjast tapa
stríð barn
hata sigra
stríð barn
finna
barn
hata
stríð
skapa
skjóta barn
skjóta
barn
sleppa skjóta
fullorðnir
Per Erik Solem (1944 -)
56
57
EFTIRMÁLI - FÉLAGSLJÓÐ
Fyrra ljóðið í þessum hluta er ort veturinn 1975-1976 í
Björgvin undir dulnefninu Stefán úr Vík en á bak við það
leyndust ég, Trausti Jónsson og mikið ef ekki Helgi Þorláksson
líka en heiðurinn af nafngiftinni á fyrirmyndi okkar
allra, Stefán Stefánsson. - Síðara ljóðið er ort um það að
íslenskir námsmenn í Ósló unnu ötullega að hagsmunum
Íslands í landhelgisdeilunni 1972-73, héldu ræður, skrifuðu
dreifibréf, ferðuðust um Noreg og hittu sjómenn,
stjórnmálamenn og fleiri. Um þá varð ég að yrkja brag
vorið 1973.
1101 árs afmæli Íslandsbyggðar
Indæla íslenska Frón, ástkæra fornaldar móðir,
þínum að fótum ég fell, því fölskvað er land vort og þjóð.
Frá Björgvinjar skúrsælu borg mitt bragarfull dýrkvætt ég
færi
því heimþrá og hretviðrabálin huga minn bera til þín.
Ó, þín tindóttu tún og taumlausu jöklar og klungur,
blómlegu eldfjöllin bláu og brimsorfnar strandir og sker.
Hraunin þótt harðlynd brenni og húsin þau leggi í rústir,
þá fegurð vér festum á mynd, hún færir oss glaðninginn
heim.
Og undan söndunum sælu er seglið að húni dregið,
því Ingólfur Arnarbur albúinn stefnir til lands.
Þeir Íslands farsælu fiskmenn færa oss þorska og ýsur
og Bretana burtu þeir reka til Ballarhafs vestan um sæ.
Ó, þú feðranna fold,
sem fóstraðir skáldin:
Steingrím, Jónas og Stein,
Styrmi, Hjálmar og Jón.
Úr Norðvegi námu þeir landið, Naddoður, Garðar og hinir,
þær lyddur frá landvættum Íslands lögðu á flótta í nauð.
En austur á Öræfasöndum, hvar Ingólfshöfði nú gnæfir,
fóstbræður flutu að landi, frelsisunnandi menn.
Með hugprúðu hetjulyndi þeir hrjóstrin sigruðu – og
græddu.
Þótt morðingjar Hjörleif myrtu, þess minnumst vér
frjálsræðisdrótt
– að Ingólfur bar þá birtu sem blessar hans niðjagnótt.
Svo komu kapparnir fræknu, sem körpuðu af Lögbergi
tíðum,
þeir huguðu að hinu og þessu og hjuggu hver annan í
spað.
Útlendu kónganna klækir með kaupmennsku réðust á
landið,
bévítans baunverska drjóla vér bölsyngjum enn í dag.
Loks birti í lofti og laufgaðist vonanna smári,
því skáldin þær hugsjónir hófu, sem heilsuðu vaknandi
þjóð.
Og mæringur arnfirskur mælti: „Vér mótmælum allir
þeim kóngi,
sem grætti vorn gamla Árna“, í grösugum Kópavogsreit.
Og svo var það síðla að hausti, fyr sjö og fimmtíu árum,
að íslenski fullveldisfáninn í frosti var dreginn að hún.
58
59
Ó, þú feðranna fold,
sem fóstraðir hetjur:
Heljarskinn, Hannes og Jón,
Hannibal og Bjarni frá Vogi.
Þú konunga kynborna þjóð, sem kaghýddist langt fram í
ættir,
hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin best?
þér gaulið úr glymskröttum elskið og gruggugan landa
drekkið,
og lyngið á Lögbergi helga er leiksoppur skelja hvert ár.
Og Geysir er hættur að gjósa, og Gullfoss skal virkja á
morgun,
og traktorar blómin troða og töðunni spýta í hús.
Að Mývatni verður hver maður af mýbiti bólginn og
sollinn,
og bændurnir bækur kaupa um byltingar, morð og víf.
Við Öxará einmana stendur alþingismaður og dætur,
þær drukkna ekki í drekkingarhyl, þótt dátum þær ylji um
nótt.
Ó, þú feðranna fold,
sem fóstrar nú gungur:
Einar, Gunnar og Geir,
Gretti, Vilhjálm og Trausta,
Jóhann, Ómar og Albert,
Eggert, Pétur og Pál,
Ellert og Andrés Gæs,
Ingólf, Lúðvík og Geir.
Hvar er nú feðranna frægð?
Er hún fallin í gleymsku og dá?
Nei, því árroðans eldur, æskunnar svífandi þróttur,
í niðjum þess nagla býr, sem níðstöngu reisti við vog.
Rís upp, þú ótamdi kraftur, vér eggjum til dáða og víga,
kennið framsóknarkallið, kastið burt duglausum lýð.
Þá munu eldar og ísar aftur um fjarðvoga glitra,
uns Geysir fer aftur að gjósa, og Gullfoss hrekkur í lag.
Þá mun frelsisins fáni yfir fólkvangi blakta
og landvættir loksins skilja að lokið er hungri og kvöl.
Ó, þú feðranna fold,
sem fóstra MUN hetjur,
sem fóstra mun HETJUR!
Stefán úr Vík
60
61
Landhelgisaksjónistarnir í Ósló
1972-1973
Það gerast stundum ævintýri enn að gömlum sið
Hérna sitja kommar og kratar hlið við hlið.
Þeir telja það sitt takmark að frelsa allan heim
Það þætti kannski hæfa að flytja kynningu á þeim.
En tími minn er skammur og skáldastélið stutt
svo lýsingu á öllum get ég ómögulega flutt.
Ég ætla því að dvelja við það dularfulla lið
sem í allan vetur hefur verndað íslensk mið.
Með óskaplegum krafti og æðislegum dug
þeir anda sínum lyftu á 50 mílna flug.
Og núna er það útséð hvað af ofsa þessum hlýst
því Lúðvík ekkert ráðskast nema ræða við þá fyrst.
Fræga fyrst má telja þá Albert Stalínsson
og Ara Trausta Lenín Engels Guðmundsson
Þeirra stærsta afrek – og það var svo sem nóg
var að fá hann Maó til að styðja Óla Jó.
Næstur kemur Kristján Grundafjarðarsveinn
með fingurna í skegginu, fattur, smár og beinn.
Hans verkefni var vægast sagt voðalega smátt
Það var að hringja í Norðmenn og hlæja létt og kátt.
En þetta var til góða fyrir þjóðar vorrar hag:
hann hló sig inn á „Klassekamp“ einn góðan vetrardag.
Til að passa Didda og til að brosa með
var sendur Snævar Guðjónsson með sitt ljúfa geð.
En í viðtölum við Nygaard stundum við það bar
að Snæi gleymdi að brosa og gleymdi hvar hann var.
Og með einu handarviki og hraðar en fuglinn fer
gat Nygaard snúið Snævari og Didda um fingur sér.
Svo gerðist það um daginn að depurð sótti heim
og brosin ljúfu önduðust á andlitinu á þeim.
Því dýrlingurinn Nygaard dreif sig út í lönd
þá brustu þessi sælublöndnu sterku sálarbönd.
Og núna Diddi og Snævar, þessir snjöllu, litlu menn
bíða eftir Nygaard og vona að hann komi senn.
Ein nefndin hér er taunefnd og naumast er það tjón
þótt ekki náist pláss í henni nema fyrir Jón.
Þar vikustarfið felst í að vakna klukkan tvö
og muldra inn í símtól: „Merkjaþúsund sjö.“
En Jón er ekki bara í einum svona hóp
því stress- og pressunefndina með prakt og veldi hann
skóp.
Þeir settust niður saman Jón og Gvendur Sæm
og þýddu ræðuþvælu eftir Lúðvík „á nó tæm“.
Og þegar það var búið voru brúkuð skæri smá
og þvælan klippt í þvælubúta tvö hundruð og þrjá.
Og svo var þessum ræðubútum raðað hér og þar
á óteljandi vegu eins og vera bar.
Og upp úr þessu fengu þeir feiknarlanga röð
af Faktaefni og pressuskrifi í flestöll Noregs blöð.
Nú ganga þeir um strætin grobbnir upp í hár
og segjast hafa samið þetta mikla greinafár.
Svo skrifar Gvendur pistla um pressunefndarstand
og sendir þennan samsetning í Moggann og Nýtt land.
Fjármálunum stjórna Trausti og Tóta fús
þeirra takmark er að safna í sextán hæða hús.
Þau selja merki og sníkja úr Íslands ríkissjóð
og safna og safna peningum í öflugt auraflóð.
Og þegar einhver kemur til að biðja þau um fé
fær hann ekki eyri nema krjúpa bljúgt á kné.
Með íhaldshugarfari með gróðann númer eitt
skima þau í allar áttir, komast vilja í feitt.
62
63
Og ef svo heldur áfram sem undangengið er
þá er alveg auðséð hvernig þetta fer:
Þá fara allir Norðmenn á bæinn smátt og smátt
en Trausti og Tóta hringla í krónum sælt og kátt.
í bílanefnd hjá aksjóninni Hafþór skipar sess
inn og út úr bílnum má hlaupa og segja: „Bless!“
Því Hafþór er á flugi og ferð um allan bæ
með blöð og merki og áróður um Íslands kalda sæ.
Og allir segja: „Auminginn er eins og útspýtt skinn“ –
en það er létt að leiðrétta þann ranga skilning þinn.
Því Hafþór selur sápu eins og sölumanni ber
svo hann þarf út um bæinn að atast hvort sem er.
En Sirrí líka í reddið sinn lætur vélargand
en hún gerir það um leið og hún ekur Jóni á stand.
Og öll þau feikn af stoffi sem pressunefnd hefur gjört
fékk Sirrí strax að vélrita á stenslablöðin svört.
Og að kenna í brjósti um Sirrí fyrir þetta svitaverk
er svo sem indæl hugsun og ákaflega merk.
En það er alveg óþarft, ég get borið vitni um það
því það er hennar eftirlæti að pikka orð á blað.
Því þegar hún er að vélrita vex upp hennar þrá
hún fer í kapp við sjálfa sig með sælusvip á brá.
Og gæti hún ekki djöflast svona dag og nótt og kvöld
væri hún hrygg og geðvond og glær og fúl og köld.
En yfir öllu trónir formaður í FÍSN
en honum þykja ósköp þessi alltof mikil býsn.
En félagshagur ræður og framavonin sterk
þau lifa í Íslandssögunni þessi landans verk.
Og það sem aldrei gleymist og sagan geymir traust
er hver hafi verið formaður þetta frægðarhaust.
Og þess má gjarnan vænta að eftir tvö-þrjú ár
þeir berjist um sæti á framboðslista Logi og Diddi smár.
Já þannig endar sagan eða svona hér um bil
en að þið skulið dá þetta ég ómögulega skil.
En þótt þeir séu lélegir og landhelgin sé kröpp
legg ég til við færum þeim fáein lítil klöpp.
Gvendur Smali
64