Í sjöunda himni býr sólin

Bókina er hægt að panta í gsaem@hi.is

Bókin hefur að geyma 42 ljóð. Bókinni fylgir hljómdiskur með upplestri höfundar á öllum ljóðunum.  Frumsömdu ljóðin eru ort á ýmsum tímum. Þýddu ljóð eru eftir ýmsa höfunda, m.a. Maó Tse-túng, Bob Dylan, Leonard Cohen, Andrej Voznesenskij og norsku skáldin Sigbjörn Obstfelder, Rolf Jacobsen, Marie Takvam, Stein Mehren og Magli Elster.

Bókin er 64 bls. auk kápu. Óinnbundin. Hún er til sölu hér á þessari síðu og kostar kr. 500.

Útgefandi er Bláskógar ehf. Prentun annaðist Prentsmiðjan Litróf. Hljómdiskur er fjölfaldaður og áprentaður af MBV – Hljóðrita.

Ljóðin í bókinni:

Loforð

  Í sjöunda himni býr sólin

og sendir geisla sína á mig

Ég er mannfólkið og minnist þess

hve margt býr í þoku hins ókomna

 

Vorum eins og tvær töfrum slegnar sálir

tvíburar á jörð ókunnugleikans

Enginn veit hvaða hjörtu hittir fyrir

hárfín sending bogastrengsins

 

Lengi blésu stormar á ströndinni vænu

stöðug hljóð gnauðuðu um vanga

Lengi rann svalt vatnið um vegleysur fjallanna

og vonin þóttist brenna upp eins og kerti

 

Þegar frækornin fjúka úr öllum áttum

og flýta sér öll á sama áfangastað

lítur Guð upp frá guðlegri sýslan sinni

og gefur upp á nýtt í póker mannlífsins

 

Í sjöunda himni býr sólin

og sendir geisla sína á mig

Ég er mannfólkið og minnist þess

hve margt býr í þoku hins ókomna

 

Framundan er fullur haldapoki af glóð

framrás orkunnar sem býr í lífsblóminu

Gagnagrunnur vissunnar gengur í endurnýjun

og grátklökk söngröddin þenur brjóst sitt

 

Allt vort líf er dásamlegt dirrindí

dísir kyrja söngva sína um nætur

Ljóð flæða lausbeisluð um tungur okkar

og lokkar eru greiddir fyrir norðan

 

Í sjöunda himni býr sólin

og sendir geisla sína á mig

Ég er mannfólkið og minnist þess

hve margt býr í þoku hins ókomna

            ­- hvers vegna að þegja yfir því sem ég sé?

 

Ort á Degi íslenskrar tungu

í tilefni trúlofunar okkar hjóna.

(Lag: Atli Sævar Guðmundsson)

  

Ástin hefur hýrar brár

Líkami án sálar?

Sál án líkama?

Býr ástin í sálinni eða líkamanum?

 

Vissulega býr ást mín

í sálinni

í hugsuninni

í tilfinningunum

Hvernig væri annars hægt

að finna hlýju í huga og væntumþykju

virðingu og gleði?

Hvernig væri annars hægt að elska?

 

En ég elska líka með skrokknum

ég finn hitann í brjósti mér

hjartsláttinn

stjörnurnar í augunum

 

Mér líður alltaf betur í hnjánum

þegar ég elska.

Sonnetta um yndislega eiginkonu mína fjörutíu og tveggja ára unga

Þá fæddist snót á Snæfellsnesi vestur

snjöll og fögur hnáta í Bjarnarhöfn

Ársins fyrsti og fallegasti gestur

hvar fýkur alda og bylgjast sjávardröfn

 

En heim til Hóla fluttist mögnuð mærin

til mennta sótti í Akureyrarbæ

Jafnt hún mundar sleifarsköft sem skærin

skörp og fær við blóma- og grasafræ

 

Svo bókafróð fór blómarós að kenna

blíð í huga, ákveðin og sterk

Um ungdóm náði umhyggju að spenna

 

Ingibjörg nú kannar fræðin merk

En ég var heppinn hrundið þýtt að finna

því hún er yndi vonardrauma minna.

 

Í tilefni af 42 ára afmæli eiginkonu minnar.

 

Sjötíu ára ástarsaga

 Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda er ég bara gamall guðmundur

úr kleppsholtinu

getinn af Sæmundi pabba sínum

sem elskaði konuna sína

fæddur af Guðrúnu mömmu sinni

sem þótti undurvænt um Sæma sinn

ólst upp á dögum Bjarna Ben eldri sem borgarstjóra

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda gekk strákstaulinn í Langholtsskóla

og kastaði óvart snjókúlu í Gísla skólastjóra og faldi sig

lærði að lesa og reikna hjá Elínu kennara

en enginn gat kennt honum fallega rithönd

fór svo í Vogaskóla

þar sem hann varð frægur fyrir að þykja íslenska

skemmtilegasta námsgreinin

sérstaklega málfræðin

fyrir að dá Ívar íslenskukennara

og vera ljómandi góður í stærðfræðinni

hjá Lýði Björnssyni sagnfræðingi

Feiminn og hjárænulegur

en varð þó skotinn í stelpu

og fór með henni í langar gönguferðir um Vogahverfið

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda innritaðist slöttólfurinn í Menntaskólann í Reykjavík

fékk mínus 9 í stafsetningu

í fyrstu stafsetningarprófunum

hjá Jóni Gúmm

varð leikinn í að svara Bodil Sahn

án þess að þéra

Hætti eftir fyrsta árið og fór í járnabindingar

Lítill tími í stelpustand en heilmikill töffaraskapur

á eigin bíl og hvaðeina

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda var töffarinn sendur austur fyrir fjall

í Menntaskólann að Laugarvatni

Hitti þar ofjarla sína í áfengisneyslu

reykti eins og strompur og varð antisportisti

Diskúteraði endalaust við Óla Briem um Völuspá

og við Jóhann skólameistara um heimspeki

við Þóri Ólafsson um gagnsleysi efnavísinda

Eignaðist kærustu og rauðhærðan son

alveg yndislegan

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda fór gáfnaljósið nú í háskóla

gerðist virkur í stjórnmálum

varð Hannibalisti

en þóttist alltaf vera á móti Hannibal

vann og drakk og duflaði

og lærði lítið

en lauk þó því skólanámi sem ljúka þurfti

eignaðist dóttur og kvæntist

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda lá leiðin næst til Noregs

með konu og dóttur

þar sem safnað var hári og barist gegn Bretum

Pólitík tók meiri tíma en námið

sem sat á hakanum

Flúði til Bergen fráskilinn

í hið ljúfa rigningarlíf

eignaðist son

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda fer ekki fleiri sögum af gaurnum

hann þvældist til Reykjavíkur

Akureyrar

Grafarvogs

Hann eignaðist þrjá fagra syni í viðbót

kvæntist öðru sinni

og skildi – öðru sinni

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

gerðist útlagi skuldum vafinn

í Skógum undir Eyjafjöllum

varpaði af sér byrðinni

á Laugarvatni

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

enda varð karlinn ástfanginn á ný

kominn hátt á sextugsaldurinn

kvæntist í þriðja sinn

lífið er yndislegt

 

Það er ekki eins og ég viti neitt

um ástina

en ósköp hefur þó ástarsaga mín verið skemmtileg

Ég bý nú á Seltjarnarnesi

á níu barnabörn og meira að segja tvö barnabarnabörn ...

og ég elska konuna mína af öllu hjarta

  

Ástin er skemmtilegur barnaskapur

 Kær bróðir

 sagðist líta á ástina

sem skemmtilegan barnaskap

... og stundum óskemmtilegan

 

Góð skilgreining

líti menn á bernskuna í sjálfum sér

sem eftirsóknarverðan eiginleika

sem öllum beri að finna á ný

 

Skemmtileg er hún

satt er það

Ég veit fátt skemmtilegra

 

Óskemmtileg?

Nei, þá er það eitthvað annað

sem truflar:

Samviskubit

Lemstruð fortíð

Skilningsleysi

...

 

Já já kæri bróðir

ástin er skemmtilegur barnaskapur

ef ekki er skortur á bernsku

  

Ljóðið sem ekki varð til

Eins og allir vita sem hér eru inni - eða a.m.k. flestir - hef ég alla ævi gengið með skáldadrauma í maganum.

Ég ætlaði því að yrkja ljóð um yndislegu konuna mína, þar sem ég faðmaði hana með fallegum orðum, dásamaði hana fyrir allt sem hún er og sýndi henni hvað mér væri annt um hana.

Því það er mér svo sannarlega.

En þá bregður svo við að mig brestur orð.

Sjálfur tjáningarkennarinn kemur ekki orðum að hugsun sinni.

Sjálfu ljóðskáldinu tekst ekki að tjá sig.

Sem betur fer held ég að þetta komi allt síðar og þá mun ég yrkja svo mörg ljóð til hennar að henni verður nóg um. 

Þessi kona á ekki bara skilið eitt ljóð eða tvö, heldur öll þau ljóð sem ég næ að semja.

Ég er þegar farinn að hugsa um ljóðabókina sem ég fylli af ljóðum til hennar. 

Eða ljóðum sem ég get tileinkað henni á einhvern hátt.

En í dag - því miður - varð ekkert ljóð til.

Nema ein stutt setning sem fær vængi og flýgur út úr hjarta mínu.

Ein setning sem mér tekst með erfiðismunum að stynja upp:

 

Ástin mín, ég þakka þér fyrir að vera komin inn í líf mitt!

 

Í tilefni brúðkaups okkar hjóna.

 

Meira en allt

Ég á yndislega konu

sem er mér allt

 

Stundum er ekkert meira um það að segja.

  

Það vildi ég

Ég vildi ég að ég væri hinn fullkomni eiginmaður

þá væri ég verðugur fullkominnar eiginkonu

 

Ég vildi að ég hefði kynnst þér fyrr

þá ætti ég enn fleiri minningar með þér

hefði hvíslað að þér fleiri ástarorðum

og haldist oftar í hendur við þig

 

Ég vildi að ég væri opnari en ég er

þá hefði ég örugglega sagt þér oftar

hve vænt mér þykir um þig

hversu mikils virði þú ert mér

hve heitt ég elska þig

 

Ég vildi ég væri örlítið fjáðari en ég er

þá gæti ég fært þér fleiri gjafir

farið með þér í fleiri ferðalög

búið með þér í rúmbetri íbúð

og ekið um í traustari bíl með mér

Frúin hlær í betri bíl – frá bílasölu Guðfinns!

 

Ég vildi að ég væri yngri en ég er

þá ætti ég sjáfsagt eftir að eiga lengri framtíð með þér

En ...

af eintómri löngum til að upplifa sem mest af þér

og missa ekki af neinu

verð ég kannski allra karla elstur

  

Gull

Þú ert gull

þú ert gimsteinn

gull í huga og hári

Fingurgull

gaf ég þér

því elska ég gull sem glóir

 

Þú ert gull

gull hið ytra

þú gullbrydd ert að innan

gyllt er brá

og gullinn svipur

ég gullna brosið elska

 

Þú ert gull

gullinn rómur

orðin gjörð af gulli

hjartað gull

og gull í tá

gullslegið allt þitt eðli

 

Þú ert gull

gullið fagra

lífsgull dags og drauma

Lokkar gull

seiðir gull

af gulli lífið ljómar

  

Frá ýmsum hliðum

Auðvitað elska ég

alla þá kosti

minni sem meiri

og magnaðar dygðir

Hreyfingar hlýjar

hugljúfar kveðjur

færni og fegurð

fljóðsins míns eina

 

En meira er að marka

og miklu betra

að gallana góðu

ég gjarnan dái

Fáir þó finnast

og fljóðið ei skemma

litlir og leyndir

þeir lífsanda krydda

 

Fegnastur fira

finnst mér þó vera

að mey sú hin mæta

mig skuli elska

þvermóðsku þola

þumbara unna

Mest gæfa er gefin

að eg gefin var henni

 

Ástarbréf

           Seltjarnarnesi 11. ágúst 2016

 

Elsku kona. Ég skrifa þér þetta bréf til að segja þér hve heitt ég elska þig. Það var svo skrítið að þegar ég sá þig fyrst sumardag einn vissi ég að nú væri leitinni lokið. Ég varð heitur inni í mér og blóðþrýstingurinn fór upp í 180/100 í nokkrar vikur þrátt fyrir blóðþrýstingslyfin. Í mörg ár áður en við hittumst þarna hafði ég verið dapur í sinni og þungur, vonlítill og þreyttur. Sumum fannst ég nánast þunglyndur þótt ég yrði þess ekki var sjálfur. En þarna breyttist allt og sérstaklega eftir að þú réðst þig til starfa á sama vinnustað og ég. Skyndilega varð svo undurgaman að lifa, hver dagur varð ævintýri. Auðvitað urðum við ekki par með það sama. Það þurfti að yfirstíga ýmsar hindranir og  leyfa tilfinningunum að þróast. Við unnum mikið saman, hjálpuðum hvort öðru, ræddum um starfið og lífið og tilveruna og fundum smátt og smátt samstillingu huganna. Við urðum vinir. Það var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Fólk sem fylgdist með okkur þessa mánuði sagði mér síðar að margir hefðu vitað það mun betur en við hvernig þetta mundi enda. Við urðum par, trúlofuðumst, keyptum okkur sælureit og hófum búskap saman með yngsta syni mínum sem þá var á mínum vegum. Síðan hefur tíminn liðið og nú er eins og við höfum alltaf verið saman. Ég er þér ævinlega þakklátur fyrir að faðma svo vel að þér fortíð mína og hjálpa mér að samræma hana nýju lífi með þér. Við giftum okkur svo, Guð hvað þú varst falleg og yndisleg brúður! Ég gekk um með stjörnur í augum og ástarroða í kinnum. Ég elskaði þig þá og elska þig jafnheitt nú. Heimilið okkar á nýjum stað er þrengra en þröngt mega sáttir sitja – veggir og víðátta ráða litlu um ástina. Elsku, hjartans kona, ég á þér svo margt að þakka og elska þig svo heitt að ég get ekki einu sinni komið orðum að því. Þú ert heilladísin mín, ástarstjarnan undir Hraundröngum. Ég skrifa þér þetta bréf í tilefni af brúðkaupsafmælinu okkar sem er nýliðið. Við eigum eftir að rækta ást okkar í mörg ár enn. Fyrirgefðu gallana mína, ég veit þeir eru ýmsir. Þeir koma úr fortíðinni. Með ástarkveðju.

 

Þinn Guðmundur

Hugsanir í tilefni ljóðs

  

Að þú gætir verið þú

var ekki erfitt að skilja

en að ég væri ég

stóð ekki heima

 

Maður með hugsjónir

og ég

sem undanfarin ár

hef ekki vitað upp né niður

í mínum eigin skoðunum

marxisti án þess að hafa lesið Marx

lenínisti án þess að þekkja merkingu orðsins

maóisti án þess að hafa hugmynd um neitt kínverskt

nema ljóð Maós

stalínisti án þess að vita nokkuð um sögu Rússlands

kommúnisti án kommúnískra vísinda

sósíalisti án sósíalískra lifnaðarhátta

 

Líkamlegur þróttur

og ég

sem fyrir einu ári

missti allt sem ég átti þá

og meira til

vegna skorts á líkamlegum þrótti

vegna skorts á líkamlegri innlifun

vegna skorts á líkamlegri fullnægju

                        hlutaðeigandi –

 

Vina

samt veit ég

að þú meinar allt sem þú sagðir

þetta kvöld

að þú meinar allt sem þú ortir

í ljóðinu þínu

þess vegna

leið mér svo vel hjá þér

þess vegna

leið okkur svo vel saman

þess vegna

kom ég ekki aftur til þín

 

Þessa nótt

var ég ríkari

en nokkurn tíma fyrr

þessa nótt

veittir þú mér

af auðæfum líkama þíns

og sálar þinnar

þessa nótt

hefði heimurinn getað farist

án þess að mér kæmi það nokkuð við

 

Vina

ég er hræddur

ég er hræddur við ástina

ég er hræddur við yndislega nótt

sem heldur áfram –

ljúf minning er dýrmæt

en ást sem dvínar

er svo hræðilega sársaukafull

 

Ef til vill

verð ég ekki alltaf hræddur

en ugglaust

frelsast hugur minn of seint

fyrir okkur –

 

Vina –

með þökk

fyrir yndislegt ljóð

  

Það er sama hvað ég reyni

 Þegar landið var svart

spenntu klakar lófum sínum

um ungt hjarta mitt

samt kom yfir mig undarleg værð

líkt og ilmandi rósasveigur

væri færður á höfuð mitt

það var þá

 

Ofan af jöklinum

renndi ég mér á hrosaleggjum

beitti fyrir mig reglustikum

og þaut um loftin

líkt og fuglinn fljúgandi

án viðkomu

án snertingar

fann ég

og finn enn

hraðann ólga í blóði mínu

hraðann lemja kinnar mínar

hraðann sprengja loft mitt

ég flýg –

 

Um götuna geng ég

gamall maður með skegg

finn sprengjuna byltast í enni mér

líkt og hún vilji segja mér eitthvað

ég vík fyrir gangandi ljósaskiltum

klóra mér á bakinu

fer heim og legg mig

 

Er furða þótt ég blási

og hvási

og spýti rauðu á hélaða götuna?

hún sem þoldi ekki blöðin mín

og gerði úr mér mann

 

Eitt augnabliks andartak

sá ég sjálfan mig

og greip mig

ég vildi ekki láta mig hverfa

út í ókunnugleikann

og andapollinn

ég ætlaði að reyna að varðveita mig

og setja á mig lykla

 

Góða kona

þú hefur bjargað mér

sál mín er hólpin

því að þú komst í veg fyrir

að ég gerði útaf við sjálfan mig

með lyklum

sem ég var of veikburða til að bera

þú fannst aftur blöðin mín

 

Ekki veit ég hvernig

og ekki veit ég hvers vegna

því síður hvar

en það er einhvern veginn svona

sem mig langaði að segja við þig

en það er eins og blaðið sé of hvítt

 

Ég hef drukkið of mikið af víni

annarra manna

til að geta gefið öðrum að dekka

þess vegna er sopinn aðeins ljúfur

ef þú andar vel að þér

tekur fyrir nefið

og svelgur hann

– ef til vill væri best að búa til úr honum pillu.

 

 

Erum við öll hinsegin?

Að aflokinni gleðigöngu spurði gamall vinur:

Erum við ekki öll hinsegin eins og forsetinn sagði?

Ekki til að draga úr vægi dagsins

heldur einmitt til að sýna fram á nauðsyn hans.

Hann fengi okkur til að hugsa.

Og skilja.

 

Þetta snýst ekki um að geta skipað sjálfum sér

í einhvern viðurkenndra flokka hinsegin fólks:

hómó-

trans-

pan-

pólý-

streit-

eða hvað sem er

 

Ég er einstakur

við erum öll einstök

og ást mín er ekki bundin eigin kynhneigð

eða kynhneigð annarra

heldur þeim yndislegu persónum

sem ég elska

 

Ég er hinsegin

 

Allt er eitt

Fagur og ljúfur er lögur

í lyndi blása vindar

skýlaus er himinn heima

hlý er sól að nýju

Morgunsins fegurð fjörgar

full er leið af gulli

Fljúga þar flugur snarar

fagnar óðum gróður

 

Eins er með ást í brjósti

ann ef kona manni

geðin af glóðum tendrast

gefin er birta í sefa

Leika um hugann logar

ljúfir sem dúfur flögra

Gaman er glaums að njóta

gleðin er með í hjarta

 

Lát oss nú lífið kyssa

laufum í hjartanu skarta

logandi fegurð fugla

finna brjóstin ljósta

sólina í sálu skína

syngja öll með fjöllum

eiga með fríðu fljóði

fullkomna stund í lundi

 

 

Víst er þér margt til lista lagt

Allt kanntu

Þú ert meistari í matargerð

Þú ert meistari í bakstri

Þú ert meistari í ræktun

 

Allt kanntu

Þú ert meistari í föndri

Þú ert meistari í hannyrðum

Þú ert meistari í ritun

 

Allt kanntu

Þú ert meistari í bókmenntum

Þú ert meistari í kennslu

Þú ert meistari í skapandi skrifum

 

Allt kanntu

Þú ert meistari í mannþekkingu

Þú ert meistari í að umgangast börn

Þú ert meistari í að vera með öðruvísi fólki

 

Allt kanntu

Þú ert meistari í að elska

Þú ert meistari í að vera elskuð

 

Í hverju ætlarðu að taka doktorspróf?

 

            – Þú ert mikill lánsmaður, Guðmundur ...

 

Taktu mig aftur í sátt

 Ja-ja-já-já-ja-ja-já

Ja-ja-já-já-ja-ja-já

 

Ég er aleinn og aumur og þú ert betri en tár

og í sorg minni hlæ ég því himinninn hann er svo grár

 

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

 

Með þér eru stundirnar styttri því þú ert svo heit

Þú ert heilög og töff, ég er hrifnari en dagurinn veit

 

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

 

Ja-ja-já-já-ja-ja-já

Ja-ja-já-já-ja-ja-já

Ja-ja-já-já-ja-ja-já

Ja-ja-já-já-ja-ja-já

 

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

Taktu mig aftur í sátt því að sólin er betri en ég

 

Eftir laginu Take Me Away

  

 

Ástarsorg

Ne-ne-nei-nei-ne-ne-nei

Ne-ne-nei-nei-ne-ne-nei

 

Ég er aleinn og aumur og yfirgefinn af þér

og í sorg minni græt ég og vorkenni sjálfum mér.

 

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

 

Með þér voru stundirnar góðar og ástin svo heit

Þú ert fegursta stelpa sem nokkurn tíma ég leit

 

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

 

Ne-ne-nei-nei-ne-ne-nei

Ne-ne-nei-nei-ne-ne-nei

 

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

Taktu mig aftur í sátt því að ég er vesæll og smár

 

 

Eftir laginu Take Me Away.

  

Það eitt skiptir máli

Svo fjarri er fólskuprett og tál,

fegurðin lýsir upp mína sál

Í ástinni eyðist sérhvert prjál

það eitt skiptir máli

 

Í ástinni opna ég minn hug

við eigum í hjarta voru dug

Orðin þín eggja mig á flug

það eitt skiptir máli

 

Ég leita og loksins finn í þér

sem leitaði ég hjá sjálfum mér

Önd mín um auðug háloft fer

það eitt skiptir máli.

 

Engu skipti skyn og trú

Engu skiptu börn og bú

Fyrr en nú

 

Svo fjarri er fólskuprett og tál,

fegurðin lýsir upp mína sál

Í ástinni eyðist sérhvert prjál

það eitt skiptir máli

 

Engu skipti skyn og trú

Engu skiptu börn og bú

Fyrr en nú

 

Í ástinni opna ég minn hug

við eigum í hjarta voru dug

Orðin þín eggja mig á flug

það eitt skiptir máli

 

Ég leita og loksins finn í þér

sem leitaði ég hjá sjálfum mér

Önd mín um auðug háloft fer

það eitt skiptir máli.

 

Engu skiptu skálksins völd

Engu skiptu ráðin köld

Engu skipti skyn og trú

Engu skiptu börn og bú

Fyrr en nú

 

Svo fjarri er fólskuprett og tál,

fegurðin lýsir upp mína sál

Í ástinni eyðist sérhvert prjál

það eitt skiptir máli

 

(Eftir laginu Nothing Else Matters með Metallica)

 

Þú ert farin

Elsku fagra yndisljúfan

órafjarlægð milli ber

á milli þín og mín

Þú ert horfin heim frá mér

hryggur sit ég einn og sér

hryggur sit ég einn og sér

 

Manstu ekki er við mættumst

á móti uppi í sveit

af öllu og engu kættumst

þá ástin var svo heit

 

Elsku fagra yndisljúfan

órafjarlægð milli ber

á milli þín og mín

Þú vildir ekki eiga mig

einn ég sit og þrái þig

einn ég sit og þrái þig

 

Eftir laginu Dominique.

  

Þýdd ljóð

 

Það er allt

En hve hún flöktir angurvært!

sængin hefur dregist niður

gaslugtin teygir úr sér og starir á axlir konunnar minnar

 

Ég skal breiða yfir þig, mín sofandi eiginkona

og ég skal draga rúllugardínuna niður

gaslugtin fær ekki að sjá

þetta bjarta sem ég á

 

Ég ætla að þrýsta tveimur kossum á spékoppana þína

– sem brosa í svefni –

og á fingur þína

og á trúlofunarhringinn

og á silfurkrossinn um hálsinn

 

Ég ætla að læðast upp í til þín

og hlýja mér hjá þér

og gleyma

að stundum erum við ekki eins og við ættum að vera

hvort við annað

Sigbjørn Obstfelder (1866 - 1900)

 

Kvæði um ást

Tölum um ást:

hvernig þú heldur á bolla

hvernig þú ræðir stjórnmál

hvernig þú gengur að glugganum

 

Jú þegar við tölum um ást:

hárið á þér liðast þegar þú svitnar

pilsið strengist yfir lærin á þér

þú þarft svo litla hanska á hönd þína

 

Víst vil ég tala um ást:

þú staðnæmist og lætur útsýnið streyma að þér

þú opnar bók og leggur hana flata í höndina

þú teygir úr fótunum undir borðinu þegar þú borðar hádegismatinn

 

Svo sannarlega vil ég tala um ást:

þú klæðir þig úr kjólnum á svo eðlilegan hátt

þú kaupir blaðið og tekur með þér heim þegar þú hefur verið úti

þú ekur aðeins of hratt þegar þú notar bílinn

 

Ég skal ekki tala meira um ást, bara þetta:

þú veist nákvæmlega hvernig á að fara með þvottavélina

þú veist hvað þú gerir þegar þú stingur nöktu læri fram undan sænginni

þú hefur þitt eigið handbragð þegar þú festir á tölu.

 

                        Simen Skjönsberg (1920 - 1993)

 

 

Elskendurnir sönnu

Þetta eru elskendurnir

þau eru nafnlaus

- saga þeirra aðeins til fyrir hvort annað

 og þetta er herbergið, rúmið og glugginn

Láttu eins og þetta sé helgiathöfn

losaðu um rúmfötin, feldu elskendurna

myrkvaðu gluggana

leyfðu þeim að dvelja í þessu húsi

í einn eða tvo mannsaldra

Enginn vogar sér að trufla þau

Gestir á ganginum tipla á tám

framhjá löngu læstum dyrunum

hlusta eftir hljóði, eftir andvarpi eða söng

Ekkert heyrist - ekki einu sinni andardráttur

Þú veist að þau eru ekki dáin

þú finnur návist ákafrar ástar þeirra

Börn þín vaxa úr grasi, flytja burt frá þér

þau eru orðin hermenn, orðin knapar

Maki þinn deyr eftir ævilanga dygð

Hver þekkir þig? Hver minnist þin?

En í húsi þínu fer helgiathöfn fram

Henni er ekki lokið. Það vantar fleira fólk

Dag einn er dyrunum lokið upp

að herbergi elskendanna

það er orðið að þéttgrónum garði

fullum lita, ilms og hljóða sem þú hefur aldrei kynnst

rúmið er slétt eins og obláta sólskins

og stendur eitt í garðinum miðjum

Í rúminu elskast elskendurnir og njóta ástar sinnar

hægt, úthugsað, hljóðlega

augu þeirra eru lokuð

eins þétt og ef þungar kjöttöflur lægju á þeim

varir þeirra eru marðar - marið er gamalt og nýtt

hár hennar og skegg hans eru rammflækt saman

Þegar hann ber varir sínar að öælum hennar

er hún ekki viss um hvort aælir hennar

kysstu eða voru kysstar

allt hold hennar er eins og munnur

hann strýkur fingrum sínum um mitti hennar

og finnur að gælt er við hans eigið mitti

hún dregur hann að sér

og armar hans sjálfs taka fastar um hana

hún kyssir höndina sem liggur við munn hennar

hvort höndin er hans eöa hennar skiptir litlu

kossarnir eru svo margir eftir

Þú stendur við rúmið grátandi af hamingju

þú flettir rúmfötunum varlega

af líkömunum sem hreyfast svo hægt

augu þín eru full af tárum, þú rétt grillir í elskendurna

Meðan þú afklæðist syngurðu

og rödd þín er magnþrungin

því að nú trúir þú því

að hún sé fyrsta mannlega röddin

sem heyrist i þessu herbergi

fötin sem þú lætur falla breytast í vínvið

Þú skríður upp í rúmið og endurheimtir hold þitt

þú lokar augunum og leyfir þeim að límast aftur

þú býrð til faðmlag sem þú sekkur í

Þú finnur aðeins eitt andartak sársauka eða vafa

þegar þú brýtur heilann um hve margar mergðir fólks

liggi við hlið þér

en munnur kyssir

og huggandi hönd strýkur þetta andartak á brott

 

                        Leonard Cohen (1934 - )

Að elska

Afgerandi

brosa líkamar okkar

hlýlega hvor upp við annan

þrýsta holdi að holdi

 

Ómerkjanleg

köld óró

í öllu því hlýja

sem við viljum veita hvort öðru

 

Net

bannsettra áreitinna augna

fjarlægra óþekktra lífvera

leggst yfir nautn okkar

 

Eistu mín

hanga að aflokinni girndinni

eins og nýdauðir barnsfætur

úr nýdauðu móðurlífi

í undarlegri veröld

hinum megin á hnettinum

 

Gunnar Lunde (1944 - 1993)

 

 

Svar til Lí Sjújí

Ég missti mína stoltu Jang

þú misstir þinn Líú

Bæði gengu þau beint

inn í þann hæsta

hinna níu himna

Þau spyrja Vú Kang

hvað hann hafi á boðstólum

og Vú Kang gefur þeim kassíavín

 

Mánagyðjan

hin einmana Tsjang Ó

breiðir út víðar ermar sínar

hún dansar fyrir hina tryggu

í voldugu andrúminu

Allt í einu

berast þær fréttir frá jörðu

að tígrisdýrið sé fallið

Sem þétt regn

falla þá gleðitár þeirra

 

Maó Tse-túng - Ort í maí 1957. Lí Sjújí er kennari í Tsjangsja. Hún er ekkja eftir Líú Tsíhsún, fornvin Maós. Eiginkona Maós, Jang Kæhúí hafði ver­ið góð vinkona Lí en Kúó­míntang-liðar tóku Lí af lífi af árið 1930. Vú Kang er vera úr kín­verskri goðafræði. Kassíavin var mjöður hinna ódauðlegu. Tsjang Ó stal víninu og komst undan með það til mánans. Vistin þar varð henni óþolandi einmanaleg, segir goðsögnin. Tigrisdýrið er hér tákn fyrir þá sem börðust gegn Rauða hernum.

 


 

Þú þarft ekki

Þú þarft ekki að elska mig

bara af því

að þú ert allar konurnar

sem ég hef þráð

Ég fæddist til að elta þig

hverja nótt

þar sem ég er enn

mennirnir mörgu sem elska þig

Ég hitti þig við borðið

ég tek um hönd þína

í virðingarverðum leigubíl

Ég vakna einn

hönd mín hvílir á fjarveru þinni

í Hótel Röð og reglu

 

Ég skrifaði alla þessa söngva fyrir þig

ég brenndi rauð og svört kerti

í laginu eins og maður og kona

Ég giftist reyknum

úr tveimur pýramidum úr sandelvið

Ég bað fyrir þér

ég bað þess að þú elskaðir mig

og að þú elskaðir mig ekki

 

                        Leonard Cohen (1934 - )

 

 

Fjallalind

Pínulitlir hælar tifa

eins og skeifur

Stúlka hleypur

            að lindinni

til að svala þorstanum!

 

Mjótt mitti, geislandi

eins og höggormur

Kjóllinn flaksandi –

skvettur úr garðslöngu

 

Stúlkan hlær

og dýfir hugdjörf

heitu enninu

niður í svala lindina!

 

Ó undarlegu lindir:

Hvor var hver?

Hvor var stúlka?

Hvor var lind?

 

            Andrej Voznesenskij (1933-2010)

 

 

Boðið upp í dans

Ég hef horft lengi á þig

þú veist það

þú sýnir mér fallegan líkama þinn

barmur þinn veifar til mín

og segir flýttu þér hingað!

læri þín brosa hlýlega

ég sagði ég vil sjá mjaðmir þínar dansa

þú biður mig að kyssa þig

ég segi þú sért falleg

þig er ég lengi búinn að þrá

segir þú

þú ert með falleg augu segir ég

þú hefur fallega rödd segir þú

ég segi lengi hefur mig dreymt um

að strjúka hár þitt með höndunum

þú segir ekkert en brosir

komdu segi ég

við hittumst

ég bauð þér upp í dans.

 

Arvid Torgeir Lie (1938 - )

 

 

Æ níd jú darling

Æ dónt níd jú nómór

bakvið tvöföld gluggatjöld

við skríðum lengra inn í sjálf okkur

brynjum okkur gegn áhyggjum sjónvarpsins

brynjum okkur gegn óvæntum augnablikum

 

Þegar myrkrið kemur

og bílarnir aka í ljósgeislanum

stöndum við við gluggann eins og styttur

upplýst aftan frá

með gula kafbátinn í eyrunum

og ókunnar hugsanir í höfðinu

 

Síðan er skipt um plötu

hléð er að falla niður í sprungu

hæ læt and grín grass

verður þú herra atburðarásarinnar

er veggurinn nógu stöðugur

er myrkrið nógu dimmt

ó bigg hitts of Rollíng Stones

kuldinn leggst yfir í nótt

að morgni verður dagurinn rauður

eins og hitasóttarsjúklingur

 

Simen Skjönsberg (1920 - 1993)


 

Hlýja kona

Hlýja kona

undarlegt

 

að flota okkar

rak saman

í ólgandi sænum

 

að flotar okkar

sigldu saman

að kyrrlátri höfninni

þar sem við byggðum hús okkar

úr vatnsósa leifum flotanna

 

undarlegt

 

að hinir flotarnir

á ólgandi sænum

rákust á með þungum dynkjum

og trufluðu svefn okkar

 

hlýja kona

 

að löðurtoppar sjávarins

fossuðu í gegnum vegginn

svo að við lágum snöktandi

og snerum baki hvort að öðru

meðan við heyrðum

flotana mölva hver annan

 

þarna langt úti í dimmri nóttinni

fundum kuldann steypast yfir líkama okkar

án þess að geta flutt okkur um set

 

kona

 

Gunnar Lunde (1944 - 1993)

 

 

Dýpst kropið á kné

Ég vil dansa

ég vil dansa fyrir þig

í skini náttlampans

kjólinn losar þú af mér

og hárið fær að falla frjálst

 

Ég vil dansa ungan dans

eftir söngnum inni í mér

og eftir tónum spenntra strengja

 

Þú skalt vera nálægt

þú skalt falla á kné

við fætur mér

þú skalt liggja á hnjánum

í hálfbirtunni

lengi

 

Karlmaður á hnjánum

frammi fyrir dansandi konu

dýpst kropið á kné

og eftirvæntingarfyllst

 

Marie Takvam (1926 - 2008)


 

Gamlar konur

Ungu fótlipru konurnar – hvað verður af þeim?

þær hafa hné eins og litla kossa og sofandi hár

Löngu síðar þegar þær eru orðnar hljóðlátar

gamlar konur með grannar hendur og ganga hægt um tröppurnar

með stóra lykla í veskinu og líta í kringum sig

og tala við lítil börn við kirkjugarðshliðin

í ókunnu stóru landi, þar sem veturnir eru langir

og enginn skilur lengur mál þeirra

Hneigðu þig djúpt og heilsaðu þeim af virðingu

því að ennþá bera þær það með sér eins og angan

Leyndur herpingur í kinn, titrandi taug einhvers staðar í lófa – kemur upp um þær

 

Rolf Jacobsen (1907 – 1994)


 

Allt sköpunarverkið stynur

Allt sköpunarverkið stynur

Nötrandi spyr það

bylgjandi hvíslar það

 

Fuglarnir þyrpast saman

lesa í augu hver annars

 

Og að vestan

rær vindurinn svo þungt

og að austan

niðar æðasláttur sjávarins

 

Sköpunarverkið þjáist

 

Blómin við rætur furunnar

skilja það ekki

 

Lækir og elfur

þjóta – hvert?

 

Maður mætir manni:

Hver ert þú?

 

Konur fæða

og deyja

 

Þar sem leiðir skerast

stendur hvítur kross

yfir honum er slæða

úr blóðdropum

 

Þar krýpur kona á kné

Hvíti kross!

Hvað er það að elska?

 

Ég hef spurt frjóvegu Jónsmessublómsins

þegar sólin rann

Ég hef spurt gárur tjarnarinnar

 

Ég hef setið undir aski gauksins

um miðnæturbil

hann söng um angurværðina og flaug burt

 

Og ég kom langt inn í stóran skóg

til fjörgamals spámanns

 

Hann var svo vitur

skegg hans var svo hvítt

 

„Ást – hana þekkir enginn.

Þrá – hana þekkja allir.“

 

Fætur mínir eru sárir

augu mín eru þreytt

hjarta mitt svo þungt

 

Hvíti kross

hví grætur þú blóði?

Er ástin dauði?

 

Þá draup aldinfrjó af blóðdropaþyrpingunni

þá skutu blómmunnarnir blómum

þá var muldrað ástúðlega í földum lindum

þá hríslaði og freyddi í lækjum og elfum

þá sáldraðist, fossaði, kyssti og blossaði:

„Þar til nú, þar til nú, þar til nú!“

 

Og að vestan

kemur þjótandi vængjatak stormsins

og að austan

kemur freyðandi andardráttur hafsins

í glóandi geislum!

 

Allt sköpunarverkið fagnar!

því að jörðin er þunguð!

og ástin, hún kemur

kemur

með sumar

með glóandi geisla

kemur með sársauka

með veraldaryndi!

 

Sigbjørn Obstfelder (1866 – 1900)

Ég held höfði þínu

 Ég held höfði þínu

í höndum mér eins og þú heldur á

hjarta mínu með veiklyndi þínu

eins og allt heldur og er haldið

af einhverju öðru en sjálfu sér

eins og hafið lyftir steini

til strandarinnar – eins og tréð

heldur þroskuðum ávöxtum haustsins eins og

hnettinum er lyft upp í gegnum hnattrúmið

þannig heldur eitthvað á okkur báðum

og lyftir okkur þangað sem vandamálið heldur

á vandamálinu í hendi sér.

 

Stein Mehren (1935 - )


 

Frá þollausum stundum

Hnakki minn hrópar

á koss –

– koss frá þér –

– í dag

það eru annars ekki svo margir staðir

sem þú hefur hlaupið yfir

en hnakki minn harmar

að þér kom ekki í hug

að kyssa hann

                        að kyssa hann

einmitt í dag.

 

Magli Elster (1912 – 1993)

 

 

Við skulum leika okkur

Taktu við gerfiblómunum mínum

og fjölrituðu ástarjátningunni

– lýsingarorðin í henni eru verk sérfræðinga –

taktu við sykurhúðuðu hjarta mínu

og segðu já

 

Svo getum við farið

og látið segulband vígja okkur

til eilífrar tryggðar

í verkamannablokkunum

 

Farðu í bestu fötin þín

og settu upp nýjasta brosið

við skulum þykjast vera

                                               fólk.

 

Bjørn Nilsen (1934 - )

 

 

Maginn

– Kyrktu mig, er hvíslað.

Eins og heitur suðaustanvindurinn frá svörtu hyldýpinu.

Síðan er þögn, langt slen og myrkur sem linast og augun tvö, augun tvö með nýja augnaráðið.

Allt í einu stekkur hún fram úr. Hún dregur gluggatjöldin frá, stekkur upp í gluggann. Hún er nakin.

– Sérðu mig?

Þarna inni nóttin. Þarna úti dagurinn.

Bleikir geislar morgunsins falla á þrútinn maga konunnar.

Þetta háa, hvíta á milli næturinnar og dagsins, var þetta eiginkona hans?

– Sérðu mig?

- - - Og hann dragnast af stað í kaldri grábirtunni í átt til hafnarinnar. Ólyktina leggur af fiskúrganginum. Í grágrænu vatninu mætir hann sínu eigin andliti, heimskulegu, dauðu.

Mókir upphafið að barni hans þarna inni í þrútnum, sjóðandi maganum?

 

Sigbjørn Obstfelder (1866 – 1900)

 

 

Tvö erfiljóð

 Kveðja frá syni

 

Guðrún Árný Guðmundsdóttir

f. 27. febrúar 1920 – d. 23. nóvember 1965

 

Ó, móðir mín kæra, ég kveðju til þín ber,

með kærleiksfullum huga þér þakkir senda ber.

Mig þú hefur annast með ást frá fyrstu tíð

unga drenginn styrkti móðurhöndin blíð.

Núna ertu horfin en hlustar samt á mig

er hryggur nú ég reyni að yrkja ljóð um þig.

 

Þú fæddir litla Hreiðar sem hvarf á braut svo skjótt.

Þú harmi þínum leyndir þótt dimmdi skjótt af nótt.

Svo eignaðist þú stúlkur þær sem til sín drottinn tók,

það táraflóði olli og sálarharminn jók.

En hreysti þín og orka, hún græddi sárin gljúp,

þú gekkst á ný til lífsins þótt sorgin væri djúp.

 

Þú eignaðist drengi fjóra, Hreiðar Þór og hinn

sem hripar þessar línur og Matta og Sigga þinn.

Og syni þína litlu, þá ólstu upp með dug

og elsku þeim þú kenndir með þínum blíða hug.

Því hugdirfð þín og kraftur kenndi drengjum vel

og kjarkur þinn til lífsins efldi hugarþel.

 

Þótt börnum þínum gefa þú mættir mjólk og brauð

þá miklar sorgir kvöldu, þú leystist ei frá nauð

því heilsan þín hún laskaðist í lífsins kalda snjó.

Samt lamaðist ei sálin þín því inni fyrir bjó

þrek og dirfð mót kvölum og kjarkur, harður, stór,

og kveinstöfum þú gleymdir þótt þrengdi dauðans skór.

 

Og trúin þín á Drottin var dæmalaus og sterk

þótt dagsins kvalir píndu með særindum og verk,

þú elskaðir það sem lifir og lífið móti skein

þótt linuðust þínir fætur og veiktust öll þín bein

því sálin þín var heiðrík og hugur þinn var knár

og hjarta þitt var blíðlynt þótt ýfðust gömul sár.

 

Við vitum öll að launin sem ljúfa hjartað fær

er líðan betri er syni og dætrum sín er nær.

Þú ert ætíð nærri og hjálpar okkar hug,

herðir okkar sálu og gefur kjark og dug.

Nú stríði þínu er lokið og kinnin þín er köld.

Ég kveð þig svo mín móðir, við hittumst seinna í kvöld.

 

 

Kveðja frá sonum

Sæmundur Bergmann Elimundarson

f. 6. október 1915 – d. 17. desember 2002

 

Lítillátur, vænn og viðmótsgóður

með vinarhug hann okkur gaf sín ráð.

Réttsýnn, sannur, friðsamur og fróður,

fyrirmyndin hvar sem að var gáð.

Þú komst og fórst en vísaðir til vega

með vinsemd þinni, þakkir eilíflega.

 

Að vinna heill og vera stéttarprýði

er vegsemd manns ein mesta á jörðu hér.

Þótt heimför pabba í hjarta voru svíði

og hryggir söknum þess sem horfinn er

frá sjúkdómskvölum fékk hann líkn að launum.

Lífið hans var blanda af gleði og raunum.

 

Hans andlát hægt á hlýjum vetrardegi

er hljóðlátt tákn frá Drottins háa sal:

Vor góði faðir gengur nýja vegi

í gróðursælum, himinbjörtum dal.

Í sál okkar er hryggð og hnípinn tregi

en – hittumst aftur, pabbi, á efsta degi!

 

 

Eftirmáli um Bob Dylan

Fyrir mörgum árum þýddi ég ýmis ljóð eftir Bob Dylan (1941 –). Ég reyndi að fá leyfi umboðsmanns hans til að gefa út þýðingar á ljóðum hans og stutt æviágrip. Eftir langar stundir án svara var beiðninni loks hafnað. Ég vona að mér verði fyrirgefið þótt ég birti hér smávegis úr þessum þýðingum, þrjú ástarljóð.

 Stúlka að norðan

 Ef þú átt leið um fegurðina fyrir norðan, þar sem vindarnir blása við landamærin, mundu eftir að skila kveðju til einnar sem þar á heima. Hún var eitt sinn mín sanna ást.

 

Ef þú ferð þar þegar snjókornin lemjast, þegar árnar frjósa og sumri lýkur, gáðu hvort hún er í nógu hlýrri úlpu til að verjast ýlfrandi vindunum.

 

Gáðu fyrir mig hvort hár hennar er slegið, hvort það bylgist niður yfir brjóstin. Gáðu fyrir mig hvort hár hennar er slegið, því þannig man ég hana best.

 

Ég velti því fyrir mér hvort hún muni nokkuð eftir mér. Oft hef ég beðið þess í myrkri næturinnar og birtu dagsins.

 

Svo að ef þú átt leið um fegurðina fyrir norðan, þar sem vindarnir blása við landamærin, mundu eftir að skila kveðju til einnar sem þar á heima. Hún var eitt sinn mín sanna ást.

 


 

Ég fleygði því öllu frá mér

 Eitt sinn hélt ég henni í örmum mér, hún sagðist alltaf verða hjá mér. En ég var grimmur, ég fór með hana eins og bjáni. Ég fleygði því öllu frá mér.

 

Eitt sinn hélt ég á fjöllum í lófa mér og og ám sem runnu um sérhvern dal. Ég hlýt að hafa verið óður. Ég vissi ekki hvað ég átti fyrr en ég hafði fleygt því öllu frá mér.

 

Ástin er það eina sem skiptir máli. Af hennar völdum gengur heimurinn sinn gang. Ást og aðeins ást, því berður ekki neitað. Það er sama hvað þú heldur, þú getur ekki án hennar verið. Hlustaðu á ráð þess sem hefur reynt.

 

Svo að ef þú finnur einhverja sem gefur þér alla ást sína, varðveittu hana þá í hjarta þér. Láttu hana ekki líða hjá því eitt er víst - þú munt örugglega særa einhvern ef þú fleygir því öllu frá þér.

 

 

 

Stígvél úr spænsku leðri

Ó, nú sigli ég burtu, mín eina sanna ást. Ég sigli burt í fyrramálið. Er eitthvað sem ég get sent þér handan hafsins? Frá staðnum þar sem ég lendi?

 

Nei, það er ekkert sem þú getur sent mér, mín eina sanna ást, það er ekkert sem mig langar til að eiga. Flyttu sjálfa þig aðeins heila heim frá staðnum handan hafsins.

 

Ó, en ég hélt bara að þig kynni að langa í eitthvað fallegt, gert af silfri eða gulli, annaðhvort frá fjöllum Madridar eða af ströndu Barcelónu.

 

Ó, ef ég ætti stjörnur dimmra nátta og demanta sjávarins djúpa gæfi ég þá fyrir sætan koss frá þér því hann þrái ég meira en nokkuð annað.

 

Kannski verð ég lengi í burtu svo ég bið þig aðeins um eitt. Get ég sent þér eitthvað sem minnir þig á mig og léttir þér þannig biðina?

 

Ó, hvernig í ósköpunum geturðu spurt mig enn á ný? Það færir mér aðeins sorg. Á morgun þrái ég hið sama og ég þrái mest frá þér í dag.

 

Ég fékk bréf einn einmanalegan dag. Það barst af skipinu sem hún sigldi burtu með. Í bréfinu stóð: Ég veit ekki hvenær ég sný aftur. Það ræðst af líðan minni.

 

Jæja, ástin mín, fyrst þú hugsar þannig er hugur þinn á reiki. Hjarta þitt er ekki  lengur hjá mér heldur landinu handan hafsins.

 

Gefðu því gaum, gefðu gaum að vestanvindinum, gefðu gaum að óveðrinu. Og raunar, það er eitt sem þú gætir sent mér, spænsk stígvél úr spænsku leðri.