Gangan mikla

Hér birtast þýðingar mínar á ljóðum Maós formanns, gerðar árið 1977 og birtar í bókinni GANGAN MIKLA sem gefin var út af Prenthúsinu og mér í afar fallegu umbroti Árna M. Björns­sonar. Hér hef ég endurskoðað þýðingarnar og uppsetningu þeirra.

Ljóðin fara hér á eftir:

Tsjangsja

Aleinn

í haustnæðingnum við Appelsínuey

þar sem Hsíang-fljótið rennur norður á bóginn

- stend ég og virði fyrir mér rauð fjöllin

haustliti mjórra skógarbelta

báta í hundraðatali sem þokast áfram

yfir tært vatnið

Erni ber við himin

Fiskar smjúga djúp vötnin

Undir hausthimni berst allt sem lifir

fyrir frelsi sínu

Og ég spyr þrúgaður af óendanleikanum:

- Hver er það sem ræður

örlögum þessarar jarðar?

 

 

Eitt sinn gekk ég hér með vinum mínum

hönd i hönd

Ég man þá tíð

og hve dagarnir voru annasamir

Við vorum skólafélagar

svo ungir

svo þyrstir í þekkingu

svo fullir af hrifningu nemandans

Alla hnúta skárum við á án þess að depla augum

létum hugann reika að fjarlægum markmiðum

tendruðum glóð í hugum alþýðu með orðum okkar

- Hve við fyrirlitum valdhafana!

munið þið heitin

þegar við ýttum bátunum út í strauminn

og þutum af stað á móti bylgjunum?[1]


Sumarskáli gulu trönunnar

Voldug

voldug

eru Fljótin níu sem renna yfir Kína

Óendanleg

óendanleg

er línan sem sameinar suðrið og norðrið

Þoka og regn fela himin

En Slöngufjall og Skjaldbökufjall spenna greipar

um Fljótið mikla

Hvert er gula tranan flogin?

Aðeins ferðalangar eiga hér afdrep

Ég helli drykkjarfórn í löðrandi vatnið

og í sál minni rís einnig bylgja.[2]

 

 


Tsíngkang-fjöll

Við rætur fjallsins stirnir á fána

við tind bess gjalla lúðrar

Eins og naglbítur

þrengir óvinaherinn að oss

en vér stöndumst

Vér hörfum ekki

 

Vér höfum reist virkismúra

viljinn er virki vort

Frá Húangjangtséh þrumar fallbyssa

þá vitum vér það -

Fjandmaður vor lagði á flótta

út í myrkur næturinnar.[3]

 

 


Barátta Tsjang Kæsjeks og Kvangsí-óaldarflokksins

Vindar gnauða

ský þjóta yfir himin

Enn hafa hershöfðingjarnir komið af stað stríði

Eymd og volæði breiðast út um landið

„Eftir drauminn vakna ég til hirsisins“

 

En Rauði fáninn

er kominn yfir Ting-fljótið

Lúngen og Sjanghang eru frelsuð

Enn einn hluti Gullvasans er endurbættur

Vér skiptum niður eignum

og deilum út jörð! [4]

 

 


Tsjúngjang-hátíðin

Mannfólkið eldist svo hratt

svo hratt -

en náttúran er síung

Ár eftir ár

er Tsjungjang-hátíðin haldin

nú er aftur komið að henni

Torgin anga af krýsantemómum

 

Hvert ár

á sína bitru haustvinda

Þeir eru ekki eins og vorbirtan

sem gleymist þegar haustvindar hvína á ný

Himinn og fljót leggjast hrími.[5]

 

 


Nýársdagur

Nínghúa, Tsínglíú, Kveihúa

stígarnir eru þröngir

skógarnir djúpir

mosinn sleipur

Hvert skal halda i dag?

Sjá!

við rætur Vúji-fjallsins

við fjallið

við rætur fjallsins

Þar blakta rauðir fánar tignarlega í golunni.[6]

 

 


Á leið til Kvangtsjang

Öll víðáttan er hvít

her vor þrammar áfram í snjónum

fjallstindar gnæfa yfir oss

Stórt skarðið leggjum vér að baki

rauðir fánar blakta í vindi

Hvert ætlum vér?

- Að snævi þöktu Kan-fljóti

út í árfarveginn

Í gær hljómaði skipunin:

Hundrað þúsund verkamenn og bændur –

Til Kían! [7]

 

 

 

 


Frá Tíngtsjó til Tsjangsja

Júní -

Hersveitir himins

ráðast til atlögu gegn spillingu og rotnun

Með þúsund mílna reipi

tjóðra þær óvættir láðs og lagar

Hins vegar Kan-fljóts

er jörð þegar orðin rauð -

Húang Kúnglúeh er kominn yfir!

 

Milljónir verkamanna og bænda

í hrifningu

Eins og dregill

leggst Kíangsí að fótum þeirra

Þeir stefna til Húnan og Húpei

með Alþjóðasönginn á vörunum

þann volduga söng

Og villtir stormar

falla af himnum ofan

oss til hjálpar.[8]


Gegn fyrstu útrýmingarherferðinni

Trén eru skínandi rauð

undir frosthimninum

Reiði himnahersveitar

slær ljóma á skýin

Í móðunni

sem hylur þúsund tinda Drekafjalls

hrópa allir einum rómi:

- Framvarðasveitin

hefur tekið Tsjang Húítsang til fanga!

 

Á ný

hafa tvö hundruð þúsundir óvinanna

farið inn í Kíangsí

Reykský fellur af himni

það er uppreisnartáknið

- Milljónir verkamanna og bænda sameinast í baráttu

undir rauðri fánaborg við rætur Pútsjó-fjalls.[9]

 

 


Gegn annarri útrýmingarherferðinni

Tindur Hvítskýjafjalls er hulinn skýjum

við rót þess færast angistarópin í aukana

Þurrar greinar og gamlir kvistir

safnast saman

Heill skógur vopna geysist fram

Hershöfðinginn fljúgandi

kemur þjótandi niður úr skýjunum

 

Sjö hundruð lí

höfum vér lagt að baki á fimmtán dögum

víðáttumikil vötn Kan-fljóts

græn fjöll Fúkéns

Vér höfum þurrkað út þúsund herdeildir

vafið þeim saman eins og mottum

Einhver kjökrar –

en nú er of seint að gráta ranga stjórnlist.[10]


Tapótí

Rautt, rauðgult, gult

grænt, blátt, fjólublátt, fjólurautt!

Hver er það sem dansar

og veifar litborðum sínum að himni?

Eftir regnið

kemur kvöldsólin fram

Blámi ása og fjalla dýpkar

 

Eitt sinn var hér háður trylltur bardagi

Í þorpsmúrunum eru kúlnagöt

en í dag

prýða þau ásana og fjöllin

Hér er fegurra en nokkru sinni fyrr.[11]

 

 


Húítsjang

Í austri roðar af degi

Segið ekki að vér höfum lagt of snemma af stað

Enginn eldist við að reika

yfir þessa grænu ása

Aðeins hér

er hin raunverulega fegurð

 

Fjöllin rísa bak múranna í Húítsjang

tindur af tindi

allt til hafsins í austri

Hermennirnir benda suður á bóginn

í átt til Kvangtúng

- Þar er enn grænna og frjósamara[12]

 

 


 Lósjan-skarð

Bítandi vestanvindar

frosthiminn

morgunmáni

Langt fjarri –

garg villigæsa

hófatak dunar

lúðraköll hljóðna

 

skarðið kann að vera gjört af járni

en í dag

komumst vér upp fyrir alla tinda

Vér stígum rakleiðis yfir þá

Bylgjandi hæðirnar

eru grænskærar sem hafið

Sökkvandi sólin

er rauð sem blóð[13]

 

 


Þrjú smáljóð

Fjöll!

Ég keyri hestinn

sný mér í söðli

undrast :

- þrjú fet og þrjá þumlunga frá himni !

 

Fjöll!

Þér eruð sem rísandi bylgjur

eins og þúsund trylltir hestar

sem vaða áfram

í iðu bardagans

 

Fjöll!

Þér rjúfið bláma himins

en eggjar yðar slævast ekki

Án stuðnings yðar

mundi himinninn hrynja.[14]

 


Gangan mikla

Rauði herinn

óttast ekki langar göngur

Fyrir hann

eru þúsund fjöll

og tíu þúsund fljót ekkert

Fjallgarðarnir fimm aðeins ójöfnur á vatni

hið risastóra Vúmeng-fjallabákn

aðeins moldarköggull

undir fótum!

 

 

Heitar

eru fægðar klappirnar

sem Fljót hins gullna sands skolar

Kaldir

eru járnhlekkirnir

sem spenna brú yfir Tatú-fljót

Meiri var þó gleðin

í fannbreiðum Mínsjans -

Er herirnir þrír voru komnir yfir

ljómaði hvert andlit

í brosi.[15]

 


Kúnlún

Hátt

eins og þú sért ekki af þessum heimi

stendur þú risavaxna Kúnlún

Fegurðina í lífi alheims þekkir þú –

þrjár milljónir silkidreka

á þyrlandi flótta –

loftið mettast frosti –

En á sumrin

bráðna ís og snjór

ár flæða yfir bakka sína

fólk verður að fiskum og skjaldbökum

Óteljandi

eru dáðir þínar og illvirki

Hver getur nokkru sinni dæmt þig?

 

 

En nú segi ég þér

Kúnlún

þú þarft ekki alla þessa hæð

ekki allan þennan snjó

Gæti ég aðeins dregið úr slíðrum Sverðið mikla

sem hallast að himni

skæri ég þig í þrennt –

einn hluta gæfi ég Evrópu

einn hluta gæfi ég Ameríku

einn hluta hefðum við hér í Austrinu

- þá tæki Friðurinn mikli völdin

þá ættu allir jafnan hlut

í hlýju þinni

og kulda þínum.[16]

 


Ljúpan-fjall

Hár himinn

björt ský

Vér sjáum villigæsir

hverfa til suðurs

Þeir sem ekki komast til Múrsins mikla

eiga ekki skilið að kallast menn

Ef allt er saman tekið

höfum vér gengið

tuttugu þúsund lí

 

Á tindi Ljúpan-fjalls

blaktir rauður fáni vor í vestanvindi

Í dag

höfum vér langt reipið í höndum vorum

Hvenær auðnast oss að binda Drekann græna?[17]

 


Snjór

Landið i norðri:

Vindur og birta

þúsund lí umlukin ís

tíu þúsund lí undir snjóbreiðu

Norðan og sunnan

Múrsins mikla

eru aðeins auðar víðáttur

Í Gulafljóti

hafa hringiðurnar kyrrst

Fjöllin

eru dansandi silfurslöngur

víðátturnar

stökkvandi vaxfílar

þeir mæla hæð sína við himin

Í veðursældinni sérð þú hana

jörð vora

prýdda rauðu slöri

yfir hvítum kjól

Meira tælandi fegurð

er ekki til!

 

 

þessi fljót og þessi fjöll

eru fögur

óteljandi hetjur hafa þau lokkað til sín

Það var leitt

að keisararnir af Tsín og Han

voru svo fátækir í anda

að keisararnir af Tang og Súng

höfðu svo litlar mætur a ljóðlist

og að Djengis-khan

sem eitt sinn var eftirlæti guðanna

gat aðeins spennt boga sinn

gegn örnum loftsins –

Allir eru þeir horfnir

en mennirnir

sem eru prýddir göfgi

og geta sigrað

eru hér og nú.[18]


Þjóðfrelsisherinn hertekur Nankíng

Við Tsjúng-fjall hvín stomur

Ein milljón hraustra hermanna

hefur farið yfir Fljótið mikla

Borgin –

sitjandi tígrisdýrið

samanhnipraði drekinn –

er tignarlegri en nokkru sinni fyrr

Himinninn er á hvolfi

jörðin er umturnuð

reiði hetjanna byltir öllu

 

En vér verðum að vera árvökul

vér verðum að elta uppi

þessa örmagna glæpamenn

Vér skulum ekki

geta oss frægðar

af því sama og einvaldurinn af Tsjú

Hefði himinninn tilfinningar

væri hann einnig orðinn aldraður

Í heimi fólksins

verða nú aðeins róttækar breytingar[19]


Svar til Líú Jatsú

Ég gleymi ekki tedrykkjunni

sem við áttum saman i Kantón

Þú baðst um ljóð

er laufin gulnuðu i Tsjúngkíng

Þrjátíu og eitt ár er liðið

ég kem aftur

til vorrar fornu höfuðborgar

 

Ég les fögur ljóð þin

Árstíð fölnaðra blóma

hefur hafið innreið sína

 

Áhyggjur þínar eru of miklar

lát þær ei yfirbuga þig

Líttu fremur á atburðina úr nokkurri fjarlægð

Segðu ekki að Kúnmíng-vatn sé of grunnt

það er auðveldara að sjá fiskinn þar

en í Fútsjún-fljóti.[20]


Svarljóð til Líú Jatsú

Það var ekki auðvelt

að tendra himin Kína

Í heila öld

dönsuðu djöflar og óvættir óáreittar

darraðardans sinn

Alþýðan

var fimm hundruð sundraðar milljónir

 

Þá gól haninn

það birti

hljómlist hvarvetna

Allar þjóðir vorar syngja og dansa

einnig í Jútén

Aldrei hafa skáldin fengið slíkan innblástur.[21]

 


Peitæhó

Regnstormar æða yfir Jújen

hvítar bylgjur rísa til himins

Fiskibátarnir frá Tsínhúangtá

sem sigldu um hafið

eru horfnir –

Hvar eru þeir nú?

 

Fyrir nærri tvö þúund árum

sveiflaði keisarinn Vei Vú svipu sinni hér:

„Austur til Tséhsjíh!“

Enn í dag er ljóð hans lesið

þá sem nú blésu „haustvindar kaldir og einmana“

en

heimurinn er annar![22]


Sundsprettur

Ég er nýbúinn að fá mér vatn að drekka

úr Tsjangsja

og snæða fisk úr Vútsjang

Nú syndi ég yfir hina breiðu Jangtsekíang

og sé inn í víðan Tsjú-himininn

Hvað gerir til þótt vindar gnauði

og bylgjur risi?

Þetta er betra

en að reika aðgerðarlaus um lystigarð

Loks er ég frjáls

„Vitringurinn sagði

er hann stóð á bakka fljótsins:

„Þannig gengur allt mannlíf“„

 

 

 

Möstur svigna i vindinum

en Skjaldbakan og Slangan hreyfast ekki

Mikil áætlun verður til

- svífandi brúarbogi skal tengja suðrið og norðrið

djúpt gil verður alfaraleið

Á vesturbakkanum

verða byggðir steinmúrar

sem halda aftur af regnskýjum Tröllkonufjalls

Djúpur dalur breytist í kyrrt stöðuvatn

Komi Fjallgyðjan til að svara kveðju vorri

mun hún undrandi fá að sjá

að heimurinn er orðinn allur annar.[23]

 


Svar til Lí Sjújí

Ég missti mína stoltu Jang

þú misstir þinn Líú

Bæði gengu þau beint

inn í þann hæsta hinna níu himna

Þau spyrja Vú Kang

hvað hann hafi á boðstólum

og Vú Kang gefur þeim kassía-vín

 

Mánagyðjan

hin einmana Tsjang Ó

breiðir út víðar ermar sínar

hún dansar fyrir hina tryggu

í voldugu andrúminu

Allt í einu

berast þær fréttir frá jörðu

að tígrisdýrið sé fallið

Sem þétt regn falla þá gleðitár þeirra.[24]

 


Fyrsta kveðja til farsóttarguðsins

(Í Dagblaði Alþýðunnar 30. júni 1958 las ég að tekist hefði að útrýma Schístósómíasis-sýklinum í Júkíang-fylki. Ég varð svo hrærður yfir þessu að ég gat með engu móti sofnað. Þegar morgun­vindarnir feyktu burt þungu loftinu og sólin skein á gluggann minn, virti ég fyrir mér suður­himininn og skrifaði í gleði minni þessar línur:)

 

Grænn litur vatnanna

og blámi fjallanna

voru til einskis

jafnvel hinn mikli Húa Tó

gat ekkert aðhafst

gegn einni lirfu

þúsund þorp

gróin yfir grasi

yfirgefin

Tíu þúsund heimili

- aðeins draugar og djöflar bjuggu þar

 

 

Vér getum setið róleg

- en færst með jörðu áttatíu þúsund lí

hvern dag

vér getum rannsakað stjörnuþokur

á ferð vorri

Spyrji Smalinn eftir Farsóttarguðinum

svaraðu þá:

-- sömu áhyggjur ber að höndum sem fyrr.[25]

 


Önnur kveðja til farsóttarguðsins

Milljónir pílviðargreina

í vorblænum

Hinar sex hundruð milljónir

í Ríkinu mikla

eru orðnar jafnvígar Sjún og Já

Ekrurnar hafa umskapast í rauðar bylgjur

að vorri ósk

Græn fjöllin lúta vilja vorum

og breytast í brýr

 

Á Tindunum fimm

blika skörðin sem silfur

Fljótin þrjú

sem létu jörð vora skjálfa

tæma úr sér járnormum

Vér spyrjum

Farsóttarguðinn:

Hvert er ferð þinni heitið?

Vér skulum brenna þér pappírsbáta og kerti

að skilnaði.[26]

 

 


 Aftur til Sjásjan

(Hinn 25. júni 1959 fór ég í ferð til Sjásjan. Ég hafði farið þaðan úr þorpinu 32 árum áður.)

 

Tærar myndir frá brottförinni

og frá þorpinu í þá tíð

Ég syrgi rás tímans

- síðan þá eru liðin þrjátíu og tvö ár

Rauði fáninn

blakti á spjótum leiguliða

svartur hnefi harðstjórans

lyfti svipunni til höggs

 

Þeirra vegna sem vildu fórna sér

fylltumst vér öll nægu hugrekki

til að skipa sólu og tungli

að gefa oss nýjan dag!

Hrísekrur og grænmetisakrar

skína í þúsund bylgjum

Hetjurnar

snúa heim af ökrunum í kvöldmóðunni.[27]


Lúsjan

Tignarlegt fjallið

rís við Fljótið mikla

Ég hef gengið fjögur hundruð hringi upp á við

til að komast að grænum tindinum

Af ástríðufullri athygli

gaumgæfi ég heiminn handan hafsins

Hlýr vindur blæs regndropum

af himni og fjalli

 

Ský drjúpa yfir Fljótunum níu

og Sumarskála gulu trönunnar

Bylgjur skvetta hvítu löðri

að gömlu Vú-bæjunum

Heimspekingurinn Tá er farinn sína leið

- enginn veit hvert –

skyldi hann einmitt núna

vera að yrkja jörðina í Fíkjublómalandi?[28]


 Konurnar í Alþýðuhernum

(Áritun á ljósmynd)

 

Lifandi sem blærinn!

Hraustar og glæsilegar

með langar byssur sínar

þegar fyrstu logar morguns

varpa birtu sinni á æfingasvæðið

 

Þessar dætur Kína

hafa þúsund ný markmið

Þær elska ekki lengur

rauð stássklæðin

Þær elska búninga sína.[29]

 

 


Svar til vinar

Hvít ský

berast yfir Tsíú-Jí-fjall

Prinsessur

ríða vindi til Grænufjalla

Bambusinn

er markaður þúsund stöðum

eftir tár þeirra

Þúsundir rósrauðra skýja

eru klæðnaður þeirra

 

Bylgjutoppar Túng-Tíng-vatns

þyrlast að himni eins og snjófjúk

Alþýðan á Appelsínuey syngur

svo að jörðin bifast

Ég læt mig dreyma um hið óendanlega:

um morgunsólina

sem að eilífu

mun skína yfir land Híbískus-blómanna.[30]


Áritun á ljósmynd félaga Lí Tsín af helli hinna ódauðlegu á Lúsjan-fjalli

Í hálfbirtu rökkursins

stendur traustvaxin fura

Rytjulegt ský

læðist hægt framhjá

Hellir hinna ódauðlegu

er verk náttúrunnar

Fegurðin

í endalausri fjölbreytni sinni

á sér bústað

hér

meðal þessara villtu tinda.[31]

 

 


Svar til félaga Kúó Mójó

Vindar og þrumur riðu á jörðu

um leið steig Afturgangan

upp af bleikum beinahaug

Þótt Munkurinn sé einfaldur

má samt breyta honum

en Afturgöngunni

hinum illa anda

verður að eyða

 

Gullapinn

hefur sveiflað voldugum staf sínum

silkihiminninn

er nú hreinn af ryki

Í dag skulum vér bjóða velkominn

vitringinn Sún Vúkúng

því að þoka andans

hefur birst á ný.[32]


Vetrarplómutréð

Vindur og regn kveðja vorið

snjóflygsur bjóða það velkomið

brattur kletturinn er ísi þakinn

En

þarna er ein blómstrandi grein!

 

Hún er falleg

samt vill hún ekki vera sjálft vorið

aðeins boðberi þess

Þegar fjallablómin glóa

eins og silkitraf

mun hun brosa meðal þeirra.[33]


Vetrarský

Vetrarský

þung af snjó

hvít snjófiðrildi þyrlast um

þúsund blóm visna og deyja

ísvindar

þjóta yfir himininn

en af jörðu stígur samt

heitur

óskynjanlegur

andardráttur hennar

 

Aðeins hetja

megnar að reka Tígrisdýrið

og Hlébarðann

á flótta

Enginn hugrakkur maður

hræðist Björninn

Nú blómstrar plómutréð

undir snæhimninum

- Til hvers er þá að hafa áhyggjur

af helfrosnum flugum?[34]


Svarljóð til félaga Kúó Mójó

Á þessum örlitla hnetti

ráðast flugur á veggi

þær suða án afláts

hræddar

örvinglaðar

Á jóhannesarbrauðstrénu

gortar einn mauranna:

- Við eigum stórt land

og ekkert er auðveldara

en að grafa undan risatrénu

Vestanvindar

feykja laufi yfir Tsjangan

Örvar

þjóta suðandi hjá

 

 

Svo margri dáð

ætti að vera lokið

hvert andartak krefst skipulags

jörðin snýst

himinninn hverfist

- Bíða í árþúsundir?

Það er of lengi –

MÆTUM DEGI!

Höfin fjögur skulu mylja hlekkina

ský og bylgjur

skulu settar af stað

meginlöndin fimm skulu skjálfa

vindar og þrumur skulu öskra:

- Afl vort er ósigrandi

sópum burt öllum meindýrum![35]

 

 

 


Gengið á ný á Tsíngkang-fjöll

Löngum hef ég þráð

að snerta skýin –

ganga á Tsíngkang enn einu sinni

Ég hef ferðast þúsund lí

Gamall svipur þess

er nú markaður nýjum dráttum

 

Gulþröstur syngur

svölur dansa

vatn seitlar fram víðsvegar

há tré rjúfa þokuna með krónum sínum

Eftir að hafa farið framhjá hyldýpunum

í Húangjangtséh

- hættulegum þverhnípunum –

þarf ekki að skoða neitt meir.

 

 

Þá voru vindar og þrumur í lofti

svo að small í fánum og flöggum

Landið

endurheimti friðinn

Þrjátíu og átta ár

eru liðin

- fingurbjargarfylli af elfi tímans­ -

Það er hægt að klífa

upp í Níunda himin

til að hernema mánann

Það er hægt að stíga

niður í Höfin fimm

til að veiða skjaldbökur

Þá heilsa okkur sigursöngvar

og gleðihlátrar

Í þessum heimi er ekkert ómögulegt

hafirðu aðeins viljann

til að rísa upp.[36]

 


Tveir fuglar ræðast við

Risafuglinn

blakar vængjum sínum

eins og blævængjum

svífur níutíu þúsund lí

vekur upp æðisgengna hvirfilvinda

Handan hans er heiðblár himinn

Hann lítur niður

til að virða fyrir sér heim mannsins

borgir og bæi

Vopnaleiftur lýsa upp himin

sprengikúlur tæta upp jörðina

Spörfugl í runni stirðnar af ótta

„Hvílíkur glundroði –

hvílíkar hörmungar!

Nei

nú flýg ég á braut“

 

 

„Hvert

ef ég má spyrja?“

Og spörfuglinn svarar:

„Í höll búna gimsteinum

á hæðum huldulanda

(Veistu ekki

að undir björtum hausthimni

fyrir tveimur árum

var þríhliða samningur undirritaður?)

Þar verður nóg til matar

funheitar kartöflur

glóðarsteikt naut“

„Hættu -

þetta er innantómt blaður!

Líttu á -

hér er allt á hvolfi

heimurinn umturnaður!“[37][1] Bragarháttur: „Vor í Tsín-garði“. Ljóðið er ort 1925. Tsjangsja er borg við Hsíang-fljótið. Appelsínuey er í fljótinu beint á móti borginni. Maó gekk í skóla í Tsjangsja á árunum 1911 til 1918 og synti oft með skólafélögum sínum úti við eyna.

 

[2] Bragarhátttur: „Pú Sa-barbararnir“. Ljóðið er ort vorið 1927. Sumarskáli gulu trönunnar er á hæð einni utan við Vúhan. Við rót hæðarinnar rennur Jangtsekíang (Fljótið mikla) en þar rennur í hana fjöldi hliðarfljóta, hin svonefndu Fljótin níu. Samkvæmt gamalli þjóðtrú átti sá sem vildi synda eða sigla yfir Fljótið mikla að færa drykkjarfórn til að þvinga fljótið á tákn­ræn­an hátt undir vilja sinn.

 

[3] Bragarháttur: „Máninn i Vesturfljóti“. Ljóðið er ort haustið 1928. Í ágúst 1927 setti Maó á stofn fyrstu herstöð byltingarinnar í Tsíngkang-fjalla­bákninu. Í ágúst 1928 réðist herlið þjóðernissinna á varnarstöðvar komm­únista í fjallagilinu Húangjangtséh en varð frá að hverfa eftir mikið afhroð.

 

[4] Bragarháttur: „Gleði hins hreina friðar”. Ljóðið er ort haustið 1929. f mars 1929 tóku hershöfðingj­arnir á ný upp baráttu sína. Kvangsi-óaldarflokk­urinn réðst gegn Tsjang Kæsjek sem á sama tíma var önnum kafinn við að reyna að halda kommún­istum niðri. Friðurinn var sem sé aðeins draumur. Skamkvæmt sígildri kínverskri goðsögn hitti maður að nafni Lú Sjeng ódauð­legan landa sinn, Lú Veng, á gistihúsi og kvartaði yfir hlutskipti sínu i lífinu. Lu Veng lánaði Lú Sjeng kodda. Lú Sjeng hafði ekki fyrr lagt höfuðið á koddann en hann sofnaði. Hann dreymdi að hann væri hamingjusamastur allra dauðlegra manna. En þegar hann vaknaði var hirsið sem veitinga­maðurinn hafði sett yfir til að hafa í mat handa þeim enn ekki tilbúið. - Það er hefð frá gamalli tíð að líkja Kína við Gullvasa. Frelsisherinn reynir nú brot eftir brot að setja saman hlutana.

[5] Bragarháttur: „Stúlkan sem tínir multuberja­blöð“. Ljóðið er ort í október 1929. Tsjúngjang-hátíðin er hausthátíð, níundi dagur níunda mánaðar skv. fornu kínversku tímatali. Árið 1929 lenti hátíðin á 11. október, afmæl­isdegi misheppnuðu byltingarinnar 1911.

[6] Bragarháttur: „Eins og í draumi“. Ljóðið er ort í janúar 1930. Nínghúa, Tsínglíú og Kveihúa eru svæði í Fúkén-fylki.

[7] Bragarháttur: „Magnolíublómið”. Ort í febrúar 1930. Kían er bær i Kíangsí-fylki. Árið 1930 reyndi Rauði herinn, sem hafði bækistöð í fjalla­svæðinu Kvangtsjang, níu sinnum að her­nema bæinn, í fyrsta sinn í febrúar.

[8] Bragarháttur: „Fiðrildið elskar blóm“. Ljóðið er ort í júlí 1930. Herlið himins var nafnið sem uppreisnargjarnir bændur i Tæ-píng höfðu gefið sjálfum sér einni öld áður. - Húang Kúnglúeh (1898-1931) var foringi hægra armsins i framvarðaveit Rauða hers­ins. – Óvætt­ir láðs og lagar beina huganum að fornri kínverskri þjóðsögn: Risafugl (hvalur í álögum) sem aðeins gat hafst við í storminum flutti með sér ógæfu. Væri hægt að „sigra“ vindinn var vætturin þar með sigruð. - Frá fornu fari hafa Kínverjar álitið að júní-stormar flyttu með sér farsóttir.

[9] Bragarháttur: „Fiskimaðurinn er stoltur“. Ort vorið 1931. Í lok árs 1930 ákvað Tsjang Kæ­sjek sem farinn var að óttast baráttuþol kommún­ista að útrýma uppreisnarhernum og eyða herstöðv­um hans. Tsjang Húítsang var foringi framvarða­sveita Tsjangs. Fimm slikar útrýmingaratlögur voru gerðar að kommúnistum sem tókst að brjóta fjórar þeirra a bak aftur. Við þá fimmtu urðu þeir að leggja á flótta. Þá hófst Gangan mikla sumarið 1934.

[10] Bragarháttur: „Fiskimaðurinn er stoltur“. Ljóðið er ort sumarið 1931. Í þessari atlögu var aðstaða enn verri fyrir Rauða herinn en í þeirri fyrstu. -Þurrar greinar og gamlir kvistir: Kúómintang­her, her Tsjangs Kæsjeks. - Fljúgandi hershöfð­inginn var auknefni á herforingja i gamalli tíð, Lí Kúang, sem var þekktur fyrir snarræði. Maó notar hér nafnið sem heiðursnafn á Tsjú Téh, hernaðarlegum yfirforingja rauðu skæruliðasveit­anna.

[11] Bragarháttur: „Pú Sa-barbararnir“ Ort sumarið 1933. Við Tapótí í Kíangsí-fylki barðist Rauði herinn árið 1930 við lið Tsjangs og vann mikinn sigur. Á árunum 1930 til 1933 umkringdi Tsjang þorp þetta fjórum sinnum án þess að ná því á sitt vald. - Í Kína eru vissir dansar dansaðir um leið og sveiflað er löngum litborðum.

[12] Bragarháttur: „Gleði hins hreina friðar“. Ljóðið er ort sumarið 1934. Húítsjang liggur á mótum Fúkén og Kvangtúng. Í janúar 1930 höfðu komm­únistar náð Húítsjang-svæðinu og sett þar upp herstöð.

 

[13] Bragarháttur: „Ég minnist Tsín Ó“. Ljóðið er ort i febrúar 1935. Þetta er fyrsta ljóð Maós úr Göngunni miklu, ort eftir ráðstefnuna í Tsúnjí þar sem Maó var kosinn formaður Stjórnmála­nefndar Kommúnistaflokks Kína. - Lósjan-skarð er í Kveitsjó-fylki, ekki langt frá Szetsjúan. Sagt er að skarðið sé svo þröngt að þar geti einn maður varist tíu þúsundum. Rauði herinn tók skarðið fyrst í janúar 1935, í annað sinn í febrúar sama ár.

[14] Bragarháttur: „Söngurinn um Kíang Hú“. Ljóðin eru ort 1934-35. Hvert ljóð samanstendur á frummálinu af 16 rittáknum. Ljóðin eru ort í Göngunni miklu. Fyrsta ljóðið vísar til gamals þjóðkvæðis:

 

Þar uppi er Hauskúpufjall

þar niðri er Fjall hinna átta fjarsjóða

Þú ert þrjú fet og þrjá þumlunga frá himni

Til að komast fótgangandi yfir verður þú að beygja höfuð

til að komast með hesti verður þú að stíga úr söðli.

[15] Sjökvæð átthenda. Ort i október 1935. Þann 16. október 1934 yfirgaf Rauði her­inn herstöð sína í Kíangsí. Gangan mikla var hafin, gangan yfir 12.000 km vegalengd. Í bókinni „Red Star over China“ skrifar Edgar Snow:

 

Það var að jafnaði ein orrusta á dag, stund­um allt að 15 daga óslitinn bardagi. Gangan stóð yfir í 368 sólarhringa. Gengið var í 235 skipti að degi til og 18 sinnum að næturlagi . . . Dagleg ganga var jafnaðarlega 70 lí, um það bil 39 km.

 

Á þessum tíma varð herinn að fara yfir fjölda fjall­lendissvæða, meðal annars Fjallgarðana fimm í Suðaustur­-Kína og Vúmeng-fjallbáknið milli Kveitsjó og Júnnan-fylkis. Hann fór yfir 24 stórfljót, þar á meðal Jangtsekíang sem í efra farvegi sínum nefnist Fljót hins gullna sands og Tatú-fljótið milli Szetsjúan og Síkang. Við Tatú-fljót lokuðu óvinirnir yfir­ferðinni algjörlega. Það var aðeins ein brú, 200 metra löng, krækt saman með 13 járnhlekkjum, sem lausum plönkum var tyllt á. Flestir þessara planka höfðu nú verið fjarlægðir af liði Tsjang Kæsjeks. Þrjátíu sjálfboða­liðar skriðu yfir eftir járnhlekkjun­um. Um helmingur þeirra komst alla leið og gat veitt viðnám þar til afgangur herliðsins var kom­inn yfir. Síðasta stóra þrekvirki göngunnar var hið snæviþakta Mínsjan-fjall. Þegar herinn um síðir komst yfir til Sénsí (þar sem var byltingarsinnuð andjapönsk herstöð) voru aðeins 10.000 eftir af þeim 100.000 þátttakendum sem lagt höfðu af stað.

 

[16] Bragarháttur: „Nén Nú er fögur“. Ljóðið er ort í október 1935. Kúnlún er nafn fjallgarðs sem er 4.000 km langur og liggur um miðbik Asíu. Rauði herinn gekk sumarið 1935 yfir Mínsjan og her­mennirnir gátu þá séð hinn eilífa snjó á Kúnlún í norðvestri. Bæði Jangtsekíang og Gulafljót eiga upptök sín þarna. – Sverðið mikla sem hall­ast að himni kemur fyrir í mörgum fornum kínverskum ljóðum. - Maó skrifar í athugasemd við þetta ljóð:

 

Sígilt ljóðskáld hefur sagt: „Þegar hinar þrjár milljónir silkidreka berjast fyllist loftið af afrifnu hreistri þeirra.“ - Þannig lýsti hann þyrlandi snjónum. Ég fékk að láni þessa líkingu til að gefa mynd af snæviþöktu fjallinu.“

 

[17] Bragarháttur: „Gleði hins hreina friðar“. Ort í október 1935. Þann 7. október 1935 braust Rauði herinn gegnum víglínu fjandmannanna í Ljúpan­fjalli og tókst að komast inn í Sénsí-fylki sem Múrinn mikli liggur meðal annars um. Baráttan gegn Japönum (Drekanum Græna) sem höfðu ráðið yfir Mansjúríu og hluta af Norður-Kína, gat nú hafist fyrir alvöru. - 20.000 lí: 1/4 af ummáli jarðar.

[18] Bragarháttur: „Vor i Tsín-garði“. Ort í febrúar 1936. Þetta mun vera þekktasta ljóð Maós. Landslagið sem lýst er í fyrsta erindinu er aðallega í fylkjunum Sénsí og Sjansí. Tsín, Han, Tang og Súng eru frægar höfðingjættir í sögu Kína. Djengis-khan er hinn frægi mongólski her­foringi (um 1162-1227). Lí er kinversk lengdar­eining, tæplega 600 metrar.

[19] Sjökvæð átthenda. Ort í apríl 1949. Tsjúng-fjalli austan við Nankíng er líkt við dreka en borginni sjálfri við tígrisdýr. Myndirnar vísa til hinnar hern­aðar­lega mikilvægu stöðu borgarinnar frá upphafi. - Einvaldurinn af Tsjú (233-202 f.Kr.) vildi skapa sér orðstír fyr­ir hjartagæsku og drap því ekki sigraðan fjand­mann sinn, Líú Pang. Síðar sigraði Líú Pang ein­valdinn sem þá framdi sjálfsmorð.

[20] Sjökvæð átthenda. Ort í apríl 1949. Þetta er svarljóð til vinar Maós, Líú Jatsú. Líú tók sér ferð á hendur frá Hong­kong til að taka á móti Maó í Pekíng 8. mars 1949. Þegar hann var að fara þaðan aftur orti Maó þetta ljóð þar sem 1. og 2. lína vísa til þess er þeir hittust 1924, 3. lína til óskar Líús um að fá hjá Maó ljóðið „Snjó“ - og 5.-7. lína til fyrstu ferðar Maós til Pekíng árið 1918. - Jen Kúang (úr Han-ættinni síðari (25-220 e.Kr.)) yfirgaf hofið í Tsékíang til að stunda fiskveiðar i Fútsjún­fljóti og dýraveiðar á svæðunum þar í kring.

[21] Bragarháttur: „Lækjarsandur í Húan“. Ort í október 1950. Í athugasemd við þetta ljóð skrif­ar Maó: „Við hátíðarsýningu með Úíghúr-donsum (Úíghúrar búa i Sínkíang-fylki þar sem er borgin Jútén) á ársafmæli Alþýðulýðveldisins Kína 1. október 1950, mælti Líú Jatsú af munni fram ljóð við lagið „Lækjarsandur í Húan.“ Ég svaraði næsta dag með öðru undir sama formi og notaði sömu endaorðin“.

[22] Bragarháttur: „Bárur skola strönd“. Ort sumarið 1954. Peitæhó er sjávarþorp norð­austan við Hópei rétt hjá Tsínhúangtá. Jújen er gamalt nafn á Hópei. llinn stríðsglaði keisari Vei Vú (eða Tsá Tsá) (220-280 e.Kr.) fór á sín­um tíma norðaustur á bóginn gegn törturum í Vúhan. Á leið sinni fór hann framhjá Tsehsiih, klettaskeri nálægt Peitæhó sem i aldanna rás hef­ur horfið í hafið. Þarna reit hann ljóð sem hefst með ljóðlínunni „Austur til Tsésjíh“. Önnur þekkt ljóðlína úr því er „haustvindar kaldir og einmana“.

[23] Bragarháttur: „Söngur vatnsins“. Ort í júní 1956. Samkvæmt kínverskri þjóðtrú búa illar vættir í vatninu. Þess vegna tíðkaðist sundíþrótt ekki í Kína fyrr en eftir að Maó sem alla ævi hefur verið ákafur sundáhugamaður opnaði möguleikana með fyrirmynd sinni. Sumarið 1956 synti hann þrisvar yfir Jangtsekíang. Tvær fyrstu línur ljóðsins eru umsnúningur á gömlu þjóðkvæði: „Heldur viljum við drekka vatn úr Tsénjeh/ en snæða fisk úr Vútsjan“. - Brúin yfir Jangtsekíang var í byggingu árið 1956 og tilbúin ári síðar. Árið 1956 var einnig verið að reisa stíflu í fljótinu. – Samkvæmt fornum goðsögnum elskaði Fjallgyðjan á Tröll­konufjalli prins nokkurn og birtist honum að morgni sem ský. Auk þess leiddi hún marga villur vega og olli slysum.

[24] Bragarhátturr: „Fiðrildið elskar blóm“. Ort i maí 1957. Lí Sjújí er kennari i Tsjangsja. Hún er ekkja eftir Líú Tsíhsún, fornvin Maós og félaga i Kommúnistaflokki Kína frá 1923. Hann féll 1933. Eiginkona Maós, Jang Kæhúi sem ver­ið hafði góð vinkona Lí var tekin af lífi af Kúo­mintang-liðum árið 1930. Vu Kang er vera úr kín­verskri goðafræði. Að refsingu fyrir afbrot sem hann haf6i framið varð hann að höggva greinar af kassíatrénu á tunglinu. Um leið og ein grein var hoggin af óx þar ný. Kassíavín var mjöður hinna ódauðlegu. Tsjang Ó stal víninu og komst undan til mánans með það. En vistin þar varð henni óþolandi einmanaleg, segir goðsögnin. Tígrisdýrið er hér tákn fyrir þá sem börðust gegn Rauða hernum.

[25] Sjökvæð átthenda. Ort 1. júli 1958. Húa Tó var mikill læknir á tíma­skeiði Konungdæmanna þriggja (220-264 e.Kr.). Schístósómíasís-sýkillinn er ein af plágum hins forna Kína. Sýkillinn sest inan á maga manna og dýra, svo að fæðan helst ekki niðri og sjúklingur­inn deyr úr sulti. - Þegar einhver dó óeðlilegum dauðdaga, var það útbreidd trú í Kína að sál hans hyrfi ekki af staðnum heldur yrði eftir og kveinaði þar til hún fyndi sér nýjan bústað - Samkvæmt goðsögninni býr smali á stjörnu einni í Mjólk­urþokunni. Hann er einn af vörðum himins og ber ábyrgð á mönnum og húsdýrum. - Ummál jarðar er 80.000 lí.

[26] Sjökvæð átthenda. Ort 1. júlí 1958. Tilefni: Sjá ljóðið hér á undan. -­Já og eftirmaður hans, Sjún, sem lifðu á 23. öld f.Kr., sameinuðu Kína í eitt ríki í fyrsta sinn, samkvæmt fornum sögusögnum kínverskum. Rauðar bylgjur: Hér mun annað hvort vera átt við rauð fikjublóm­in eða hirsisakrana þegar hirsið er farið að ná þroska. - Í Kína voru hinum látnu brenndir pappirsbátar og kerti við jarðarfarir.

 

[27] Sjökvæð átthenda. Ort 25. júní 1959. Sjásjan í Húnan-fylki er fæðingar­þorp Maós. Þar skipulagði hann baráttu leiguliða gegn jarðeigendum. Sumarið 1927 varð hann að flýja.

[28] Sjökvæð átthenda. Ort 1.   júli 1959. Lúsjan-fjall er við vesturhlið Pójang-vatns i Kíangsí. Hið gamla ríki Vú svarar til núverandi Kíangsí-fylkis. Fljótin níu eru hliðar­elfur Jangtsekíang (Fljótsins mikla). - Um Sumar­skála gulu trönunnar, sjá næstfremsta ljóðið hér að framan. – Heim­spek­ingurinn Tá var Tá Tsén (372-427 e.Kr.) frá Norður-Kíangsí, mikið skáld og frægur ein­búi. Eitt þekktasta verk hans er „Fíkjublóma­land“ sem segir frá þrá höf­undar eftir friði og hamingju á tímum ringulreiðar og ófriðar.

[29] Sjökvæð fjórhenda. Ort í febrúar 1961. „Dætur Kina“ hafa frá fornu fari klæðst rauðu við brúkaup og aðrar stórhá­tíðar. Rauði liturinn er í Kína litur ástar og ham­ingju.

[30] Sjökvæð átthenda. Ort 1961. Tsíú-Jí-fjall, Túng-Tíng-vatn og Appel­sínuey eru öll í Húnan-fylki. Að því er sagnir herma, grétu eiginkonur Sjúns keisara - hinar tvær dætur Jás keisara - svo við dauða manns síns, að tárin festust við bambusinn. Í Mið-Kína eru rauðar doppur sem líkjast tárum á bambusn­um. - „Land Híbískus-blómsins, þar sem hin ei­lífa sól skín“ var nafnið, sem hirðskald Tang-keis­araættarinnar nefndu Húnan.

[31] Sjökvæð fjórhenda. Ort 9. september 1961. Lúsjan er fjall sem haft hefur sérstakt kyngimagn á Kínverja. Hellarnir i fjallinu hafa verið afdrep flóttafólks og einsetumanna. Þetta fjall er við vesturbakka vatnsins Pójang í Kíangsí. Í hugmyndafræði taóismans merkti furan afl, langlifi og ódauðleika.

[32] Sjökvæð átthenda. Ort 17. nóvember 1961. Ljóð þetta er ort sem svar við ljóði eftir Kúó Mójó. Bæði hann og Maó nota goð­sögur og þjóðsögur sem allir Kínverjar þekkja til að lýsa pólitísku ástandi í Kína og í heiminum. Hér er hugsanlega fjallað um baráttuna milli tveggja stefna innan Kommúnista­flokks Kína - stefnu Maós og stefnu Líú Sjátsís. Sumir skýrendur álíta þó að í þessu ljóði sé fremur eða jafnframt sveigt að Sovétríkjunum. Afturgangan sé þá nútíma end­urskoðunarstefna, Munkurinn sé Krústjoff og Gullapinn (og Vitringurinn Sún) marx- og lenín­ismi kínverskra kommúnista. Annars eru þessi nöfn öll tekin úr forni kínverskri þjóðtrú.

[33] Bragarháttur: „Spámaðurinn“. Ort í desember 1961. Blóm vetrar­plómu­trésins var þjóð­arblóm Kína og blóm hins fullkomna samhengis. Tréð ber blóm i desember. Ljóðið er ort í tilefni hugmyndafræðilegs ágreinings Kína og Sovétríkj­anna. Sovétríkin hættu skyndilega öllum stuðningi við kínversku byltinguna - á tíma þegar efna­hagur Kína stóð ákaflega höllum fæti. Sagt er að Maó hafi látið ljóðið ganga á milli félaga sinna í miðstjórn flokksins til að styrkja og efla baráttu­þrek þeirra.

[34] Sjökvæð átthenda. Ort 26. desember 1962 á 69 ára afmælisdegi Maós. Þetta ljóð fjallar sem það næsta á undan um ein­angrun Kína. Tígris­dýrið og Hlébarðinn merkja heimsvaldaseggi hins kapítalíska heims, Björninn er hér tákn Sovétríkjanna.

[35] Bragarháttur: „Gjörvallt fljótið er rautt“. Ort 9. janúar 1963. Ljóð þetta er svar við vinarljóði fra Kúó Mójó til Maós. Tveimur dögum áður en þetta var ort hafði PRAVDA birt fyrstu opin­beru árásina á Kína. Flugurnar hljóta að merkja þá, sem Maó álítur vera endurskoðunarsinna almennt. Maurarnir eru leiðtogar Sovétríkjanna. Tsjangan merkir hér Kína.

[36] Bragarháttur: „Söngur vatnsins“. Ort 1965. Birtist fyrst í janúar 1976. Maó formaður gengur á ný á Tsíngkang-fjöll þar sem fyrsta hernaðar­bækistöð byltingarsinna var. - Hann minnist fornra afreka, minnist þess sem áunnist hefur og bregður upp mynd af möguleikum bylt­ingarinnar eins og þeir blasa við honum i dag. Ljóðið er því annars vegar táknmynd þeirrar baráttu sem kínverska þjóðin hefur háð gegn kapítalisma og endur­skoðunar­stefnu, gegn heimsvaldastefnu og sósialheimsvalda­stefnu, gegn arðráni og kúgun, - hins vegar hvatning til þjóðarinnar um að halda baráttunni áfram og gefast ekki upp fyrr en full­um sigri er náð.

[37] Bragarháttur: „Nén Nú er fögur“. Ort 1965. Birtist fyrst i janúar 1976. Þetta ljóð er fordæming á endurskoðunarsinnum, færð í búning fornrar þjóðsögu um risafuglinn og spörfuglinn. Risafuglinn táknar hér marx- og lenínista, þá sem horfa langt og stefna hátt. Spörfuglinn sem heldur sig í kjarrinu táknar endurskoðunarsinna, huglausa og gagnbyltingarsinnða fals-“sósíalista“ sem hræðast og óttast um eigin limi í hvert sinn sem al­þýðan rís upp. Endurskoðunarsinnar predika um draumahallir „á hæðum huldu­landa“, fá fólk til að treysta á samningamakk og „afvopnunar“-ráð­stefnur en á meðan undirbúa þeir nýja heims­styrjöld, nýja vopnaða uppskiptingu markaðanna i heiminum.