Blá fiðrildi

Árið 1989 gaf Bókaútgáfan Reykholt út þýðingar mínar á ýmsum ljóðum ljóðskáldsins og ljóða­söngvarans Leonards Cohen. Þessi ljóð eru nú sett á vef til að fleiri geti notið þeirra.

Ljóðin koma hér á eftir:

 

 

 

 

Úr bókinni „Let Us Compare Mythologies" (1956)

 

 

ÉG HEYRI FÓTATAK

Ég heyrði sagt frá manni

sem segír orðín svo fallega

að konur gefa sig honum á vald

nefni hann aðeins nafn þeirra

 

Líggi ég mállaus við hlið þér

í þögn sem springur út

eins og æxli á vörum okkar

er það vegna þess að ég heyri mann

koma upp stigann

og ræskja sig fyrir utan dyrnar


 

SPÖRVARNIR

Angan komandi vetrar

berfyrir meitlaðar nasir þeirra

svikafuglanna

sem nú hafa yfirgefið oss

Deyfðarlegir brúnir spörvarnir

eru einir eftir

til að hefja samningaviðræður um vorkomuna

 

Ég sagði þér að við værum fífl

að taka þá með í leikinn

en þú svaraðir:

Þetta eru bara upptrekktir fuglar

sem spranga um á skarlatsrauðum fótum

í vonlausri fjarlægð

frá bylgjandi fingrum okkar

 

Ég færði mig til að vara þig við

en þú lagfærðir bara á þér hárið

og misstir ekki kjarkinn:

Vængir þeirra eru úr gleri og gulli

og við erum heppin

að heyra þá ekki splundrast

í árekstri við sól

 


 

Og nú hvíla innantóm hreiðrin

eins og æxli eða steinrunnin blóm

milli vírgreinanna

og þú saklausi könnuður

spyrð mig um þessa brúnu spörva

- hvort við ættum að gróðursetja brauðmylsnu

í lóðum okkar

eða merkja þær svörtum einþykkum krákunum

sem við hötum og grýtum

 

En hvað get ég svo sem sagt þér frá fari fugla

þegar árvissar fylgjar horfinna sumarfugla

draga upp gamlar myndir

á heiðskíran himinn

eða frá flótta í örvita skelfingu

þegar hið minnsta blakt litfagurra vængja

vekur fögnuð ímyndaðs vors

á heittelskuðum strætum okkar?

BRONSLITAÐ NAFN MITT

 

Nakin grátandi stúlkan

hugsar um nafn mitt

hún snýr bronslitu nafni mínu

hring eftir hring

með þúsund fingrum

líkama síns

og smyr axlir sínar

með tilhugsuninni um ilminn

af húð minni

Ó ég er hershöfðínginn

í sögu hennar

yfir ekrurnar

kný ég hestana miklu

klæddur í gullín klæði

vindurinn er á brjóstbrynjunni

sálin í magastað

 

Megi mjúkir fuglar

mjúkir eins og sagan í augum hennar

vernda andlit hennar

fyrir óvinum mínum

megi bardagafuglar

með oddhvassa vængi

mótaða í málmhöfum

gæta herbergis hennar

fyrir leigumorðingjum mínum

 

Nóttin fari mjúkum höndum

um stjörnurnar sem verða hreinar

af nöktu holdi hennar

Megi bronslitað nafn mitt

ætíð njóta snertingar

þúsund fingra hennar

verða bjartara við grát hennar

þar til ég verð óhagganlegur eins og stjörnuþoka

og gleymist ekki

á þessum leynda og brothætta himni hennar

 

ÞAÐ SKIPTIR MIG ENGU

Það skiptir mig engu

hvernig þú myrtir fjölskyldu þína

þegar munnur þinn líður um líkama minn

 

Og ég þekki draumana þína þungu

um hrynjandi borgir og hófatak

um sólina sem kemur of nærri

og um nóttina sem aldrei endar

 

En ekkert af þessu skiptir mig máli

aðeins líkami þinn

 

Ég veit að úti geysar stríð

að þú gefur út skipanir

um að kæfa börn og hálshöggva foringja

 

 

En blóð skiptir mig engu

veldur mér engu hugarangri

þegar hendur mínar leika um hár þitt

 

Þú skalt pó ekki halda að ég skilji ekki

hvað gerist

þegar herliðin hafa verið stráfelld

og vændiskonurnar stungnar sverðum

 


 

Og ég skrifa þér þetta aðeins

til að ræna þig ánægjunni

svo að þegar höfuð mitt hangir

og úr því drýpur

hjá höfðum annarra foringja

við hlið þitt

 

svo að þú vitir

að allt þetta sá ég fyrir

svo að þú vitir

að það skipti mig engu

 

UMFERÐARSLYS

Hún segir mér að barn hafi byggt húsið hennar

eitt síðdegi um vor

en að barnið hafi látist

á leiðinni yfir götu

 

Hún segist hafa lesið það í dagblaðinu

að á horni þessarar og hinnar götu

hafi barn orðið fyrir bíl

 

Auðvitað trúi ég henni ekki

Hún byggði húsið sjálf

hengdi upp appelsínurnar og litaperlurnar

í dyragættir

vaxlituð blóm á veggina

pappírsóróana gerði hún handa vindinum

safnaði kræklóttu grjóti

vegna skugganna af þeim í sólinni

festi gular og dökkar blöðrur upp í loftið

 

Í hvert sinn sem ég heimsæki hana

endurtekur hún söguna um barnið við mig

Ég spyr hana aldrei

það er mikilvægt að þekkja sinn stað í goðsögninni

 

Ég tek mér stöðu

meðal pappírsfiska og þykjustunni-klukkna

segi nöfnin á blómunum sem hún er búin að teikna

brosi á meðan hún málar andlit mitt á stóra leirtöflu

og elska hana með eins konar viðhöfn

á meðan hún hugleiðir dauða sinn í umferðarslysi

 

Úr bókinni „The Spice-Box of Earth" (1961)

 

 

ÞÖGNIN AÐ GJÖF

Þú segir mér að þögnin

sé nær friði en Ijóðin

en ef ég færði þér þögnina að gjöf

(því að þögnina þekki ég)

segðir þú

Þetta er ekki þögn

þetta er enn eitt Ijóðið

 

Og þú mundir skila mér gjöfinni aftur


 

HVAÐ ER FLUGDREKI?

Flugdreki er fórnarlamb sem við vitum

hvar við höfum

Við elskum hann því að hann togar

nógu létt til að hafa okkur að húsbónda

nógu fast til að hafa okkur að fífli

því að hann lifir

eins og örvinglaður taminn fálki

hátt í hugljúfu loftinu

og við getum alltaf togað hann niður

og tamið til hlýðni ofan í skúffu

 

Flugdreki erfiskur sem við erum búin að veiða

í tjörn þar sem engir fiskar þrífast

svo að við leikum að honum nærgætið og lengi

og vonum að hann gefist aldrei upp

né að vindinn lægi

 

 

Flugdreki er síðasta Ijóðið sem við ortum

við leyfum vindinum því að leíka um hann

en við látum hann ekki frá okkur

fyrr en einhver finnur

eitthvað annað handa okkur að fást við

 


 

Flugdreki er samningur um lofgjörð

sem verður að gera við sólina

Við vingumst því við akrana

við ána og vindinn

síðan biðjumst við fyrir alla nóttina á undan

við skin víðföruls, snúrulauss tungls

svo að við verðum verðug

verðum Ijóðræn og hrein

 

 

 

 

 

 


 

ELSKENDURNIR SÖNNU

Þetta eru elskendurnir

þau eru nafnlaus

- saga þeirra aðeins til fyrir hvort annad

og þetta er herbergið, rúmið og glugginn

Láttu eins og þetta sé helgiathöfn

losaðu um rúmfötin, feldu elskendurna,

myrkvaðu gluggana

leyfðu þeim að dvelja í þessu húsi

í einn eða tvo mannsaldra

Enginn vogar sér að trufla þau

Gestir á ganginum tipla á tám

framhjá löngu læstum dyrunum

hlusta eftir hljóði, eftir andvarpi eða söng

Ekkert heyrist - ekki einu sinni andardráttur

Þú veist að þau eru ekki dáin

þú finnur návist ákafrar ástar þeirra

Börn þín vaxa úr grasi, flytja hurt frá þér

þau eru orðin hermenn, orðin knapar

Maki þinn deyr eftir ævilanga dyggð

Hver þekkir þig? Hver minnist þín?

En í húsi þínu fer helgiathöfn fram

Henni er ekki lokið. Það vantar fleira fólk

Dag einn er dyrunum lokið upp

að herbergi elskendanna

það er orðið að þéttgrónum garði

fullum lita, ilms og hljóða sem þú hefur aldrei kynnst

rúmið er slétt eins og obláta sólskins

og stendur eitt í garðinum miðjum

í rúminu elskast elskendurnir og njóta ástar sinnar

hægt, úthugsað, hljóðlega

augu þeirra eru lokuð

eins þétt og ef þungar kjöttöflur lægju á þeim

varir þeirra eru marðar - marið er gamalt og nýtt

hár hennar og skegg hans eru rammflækt saman

Þegar hann ber varir sínar að öxlum hennar

er hún ekki viss um hvort axlir hennar

kysstu eða voru kysstar

allt hold hennar er eins og munnur

hann strýkur fingrum sínum um mitti hennar

og finnur að gælt er við hans eigið mitti

hún dregur hann að sér

og armar hans sjálfs taka fastar um hana

hún kyssir höndina sem liggur við munn hennar

hvort höndin er hans eða hennar skiptir litlu

kossarnir eru svo margir eftir

Þú stendur við rúmið grátandi af hamingju

þú flettir rúmfötunum varlega

af líkömunum sem hreyfast svo hægt

augu þín eru full af tárum, þú rétt grillir í elskendurna

Meðan þú afklæðist syngurðu

og rödd þín er magnþrungin

því að nú trúir þú því

að hún sé fyrsta mannlega röddin

sem heyrist í þessu herbergi

fötin sem þú lætur falla breytast í vínvið

Þú skríður upp í rúmið og endurheimtir hold þitt

þú lokar augunum og leyfir þeim að límast aftur

þú býrð til faðmlag sem þú sekkur í

Þú finnur aðeins eitt andartak sársauka eða vafa

þegar þú brýtur heilann um hve margar mergðir fólks

liggi við hlið þér

en munnur kyssir

og huggandi hönd strýkur þetta andartak á brott

 

HEILABROT

Ég brýt um það heilann hve margir í þessari borg

búi í herbergjum með húsgögnum

Seint um nótt þegar ég horfi út á öll húsin

sver ég að ég sé andlit í hverjum glugga

sem horfa á móti mér

og þegar ég sný mér undan

brýt ég heilann um hve margir setjist aftur

við borðið sitt

og skrifi þetta niður


 

GÆTTU ÞÍN!

Ef nágranni þinn hverfur

æ ef nágranni þinn hverfur

rólyndi maðurinn sem rakaði flötina sína

stúlkan sem var alltaf í sólbaði

 

Nefndu það aldrei við konuna þína

segðu aldrei um matmálsleyti

Hvað skyldi hafa orðið um manninn

sem rakaði flötina sína?

 

Segðu aldrei við dóttur þína

er þið gangið heim úr kirkju

Undarlegt með þessa stúlku

hún hefur ekki sést í mánuð!

 

Og ef sonur þinn segir við þig

Það býr enginn í næsta húsi

þau eru öll farin burt!

sendu hann þá kvöldmatarlausan í rúmið

 

Því að þetta getur breiðst út, getur breiðst út

og eitt fagurt kvöld þegar þú kemur heim

hafa kona þín, dóttir og sonur

gripið hugmyndina á lofti og yfirgefið þig

 

 

 

 

 

 

 

GYÐINGUR

Fyrir þig

skal ég vera fátækrahverfisgyðingur

dansa

draga hvíta sokka

á snúna fótleggi mína

eitra brunnana ykkar

út um alla borg

 

Fyrirþig

skal ég vera guðsafneitunargyðingur

segja spánska prestinum

frá blóðeiðnum

í Talmúðinum

hvar bein barnanna eru falin

 

Fyrirpig

skal ég vera bankastjóragyðingur

fella að velli

stoltan gamlan veiðikóng

enda feril hans

 

Fyrirþig

skal ég vera Broadwaygyðingur

gráta móður mína

í leikhúsunum

selja afsláttarvörur

framhjá skatti

 


 

Fyrirþig

skal ég vera læknisgyðingur

leita

í öllum rusladollum

að forhúðum

sauma þær á aftur

 

Fyrirþig

skal ég vera Dachaugyðingur

leggjast í duftið

með undna útlimi

uppþembdan sársauka

sem engin sál getur skilið

 

VIÐ TVÖ

Ég sofnaði næstum því

án þess að muna

eftir hvítu fjólunum fjórum

sem ég stakk í hnappagatið

á grænu peysunni þinni

 

og hve ákaft ég kyssti þig

og þú kysstir mig

feimin

rétt eins og við

hefðum aldrei elskast áður

 

Úr bókinni „Flowers for Hitler" (1964)

 

 

HITLER - HIN VITIBORNA MOLDVARPA

Hitler hin vitiborna moldvarpa horfir út um augu mín

Göring bræðir gullstengur í innyflum mínum

Barkakýlið í mér tútnar utan um hausinn á Göbbels

Það þýðir ekkert að segja við mann

að hann sé gyðingur

Ég er að búa til lampaskerm úr kossi þínum

Játaðu! játaðu!

er skipun þín

þótt þú haldir að þú gefir mér allt


 

HVAÐ ER ÉG AÐ GERA HÉR?

Ég veit ekki hvort veröldin hefur logið

en ég hef logið

ég veit ekki hvort veröldin hefur gert samsæri gegn ástinni

en ég hef gert það

Andrúmsloft pyndinga er engin skemmtun

en ég hef pyntað

Jafnvel án sveppasægsins

hefði ég hatað

Heyrið

ég hefði gert það sama

jafnvel þótt dauðinn væri ekki til

Mér verður ekki haldið eins og róna

undir kaldri bunu staðreyndanna

Ég hafna hinni algjöru fjarvistarsönnun

 

Eins og tómur símklefi sem fólk fer framhjá um nótt

og man eftir

eins og speglar í anddyri kvikmyndahallar

sem fólk lítur aðeins í

á leiðinni út

eins og vergjöm kona sem tengir þúsund karla

í sterkt bræðralag

-        bíð ég

eftir játningu hvers og eins ykkar


 

Í JAKKAFÖTUM MEÐ HATT

Ég er læstur í rándýr jakkaföt

gömul, glæsileg og endingargóð

Aðeins hárinu hefur tekist að halda frelsi sínu

en einhver

hefur skilið eftirflösuna sína í því

Nú ætla ég að segja ykkur

allt sem hægt er að vita um bjartsýni

Sérhver dagur í hjólkoppaspegli

í speglun súpunnar

í augasteinum annars fólks

Ég aðgæti hár mitt

hvort í því sé her alpagreinasnillinga

hvort í því séu indverskir meistarar í kaðlabrögðum

hvort í því séu samanflæktir flugmenn

hvort í því séu dúfur og albatrosar

hvort í því séu sjálfsmyrt skordýr

hvort í því séu snjómennirnir ógurlegu

 

Ég aðgæti hár mitt

hvort í því séu einhvers konar loftfimleikamenn

Trúr og dyggur eins og sjálfvirk lyfta

greiði ég hár mitt vegna allra möguleikanna

Ég sting nefinu fram

ég halla mér ólöglega út um lestarglugga

og aðeins rakarans vegna

geng ég með hatt

 

LÆKNIR MEÐ KRABBA

Læknirinn frægi hélt uppi magasekknum

úr ömmu gömlu

Krabbi! Það er krabbi! hrópaði hann

Það dofnaði yfir sviðinu

og enginn kandídatanna hugsaði lengur

um starfsframa sinn

 

Krabbi! Þau litu öll undan

þau héldu að krabbinn læki út og næði þeim

þeim var illa við að vera nærri

Þetta gerðist í Læknaskóla Vilnaborgar

 

Enginn gat setið kyrr

kannski sætu þau við hlið krabbans!

krabbinn var nálægur!

krabbanum hafði verið hleypt úr flöskunni!

 

Ég horfði upp í birtuna

mig langaði til að verða læknir

læknakandídatarnir hlupu allir út

læknirinn frægi hélt áfram með magann

 

Hann var einn með krabbanum

krabba! krabba! krabbanum!

honum var sama hvort einhver fylgdist með

þetta var áttugasti og sjöundi krabbinn hans

 

LOKS HRINGDI ÉG

Loks hringdi ég í fólkið sem ég vildi ekki heyra í

eftir þriðju hringingu sagði ég

Ég læt hríngja fimm sinnum enn, en hvað svo?

Síminn er ágætis tæki

en ég lærði aldrei almennilega á hann

Fimm sinnum enn og svo legg ég á

ég veit hvernig það er gert, svo mikið veit ég

Síminn er svartur með silfruðum hjólskífukanti

símklefinn var viðkunnanlegri en lyfjabúðin

þar voru alls kyns krem og skæri og túpur

sem líkami minn þarfnaðist

Ég hafði áhuga á mörgum kvefdropum

Ég hugsa að apótekarinn

hati símann sinn og fólk eins og mig

sem biður svo auðmjúkt um skiptimynt

Ég ákvað að halda áfram sömu götu

fara inn í fjórðu lyfjabúðina

og hringja aftur í þau

 

ÞÚSUND ÁRA RÍKIÐ

Þetta gæti orðið
bókin mín litla um ást
ef ég skrifaði hana
en góði djöfullinn í mér sagði:
„Burt með öll skjöl!"

Allir horfðu á mig
brenna bækur mínar
ég sveiflaði frelsiskyndli mínum
hamingjusamur eins og gestapóhrotti
það eina sem mig langaði að bjarga
var rispa

eitt eða tvö brunasár
en góði djöfullinn í mér sagði
„Burt með öll skjöl!
Eldurinn skiptir engu!"
Staflinn logaði vel og vandlega
ég fór heim í bað
hringdi í ömmu
hún er með liðagigt
„Líði þér vel", sagði ég,

„láttu ekki sársaukann á þig fá."
„Ekki þú heldur", sagði hún

 

Klukkustundum síðar braut ég heilann um
hvort hún ætti við

að ég ætti ekki að láta minn sársauka
eða hennar
á mig fá

Því svaraði góði djöfullinn í mér:

„Er þetta allt sem þú getur lagt að mörkum?"
Var það?

Var þetta allt sem ég gat?

Þarna sat gamla konan
borðaði ein

hugsaði um Albert prins, Flanders Field, Kishenev
fingur hennar of sárir
fyrir sjónvarpshnappana
en hvernig gat ég komist þangað?
bækurnar voru farnar
heimilisfangalistinn

Góði djöfullinn í mér tók aftur til máls:

„Burt með öll skjöl!

Þú veist hvernig þú kemst þangað!"

Og allt í einu vissi ég það!

Ég mundi það með mínu eigin minni!

Ég fann hana

þar sem hún sökkti sér niður í ættartré kóngafólksins
„Amma"

hafði ég næstum sagt

„það er á hvolfi hjá þér

„Sjáðu", sagði hún

„það nær alveg til Georgs fimmta!"

„Það er alveg nógu langt
gamla hróið mitt!"

„Satt segirðu!" sönglaði hún
og brenndi

Viku-Mannlífs-Heimsmyndina


 

Ég skildi ekki
hvaða dagur þetta var
fyrr en ég leit út
og sá eld

í hverjum glugga strætisins
og hópa mannvera
sem voru vitlausar í að tala
og ketti, hunda og fugla
sem brostu hver til annars!

 

MISTÖK í EINKALÍFINU

Sársaukasalinn kom heim

eftir erfiðan pyndingadag

 

Hann kom heim með tangirnar

hann lagði frá sér svarta pokann sinn

 

Konan hans sló hann með opinni taug

og ópi sem aldrei hafði heyrst í faginu

 

Hann horfði á Dachau hennar daglega lífs

vissi að frami hans var orðinn að engu

 

Var nokkuð annað að gera?

Hann seldi pokann og tangirnar

 

fór í hundana - karlmaður verður

að geta skaffað konu sinni

 

VERKEFNIÐ

Þeir höfðu bersýnilega þörf fyrir heilmikið blóð í þessar tilraunir. Ég leyfði þeim að taka eins og þeir vildu. Sjúkrahúsið var svalt og skipulegt andrúmsloft þess hvatti mig til að fást áfram við mitt eigið verkefni.

Mig langaði alltaf til að kveikja í húsunum ykkar. Ég hef komið inn á þau. Inn um framdyr og bakdyr. Ég vildi sjá þau brenna hægt, svo að ég gæti farið í heimsókn í mörg þeirra og gægst inn um hrynjandi glugga. Mér þætti gaman að sjá hvað verður um hvíta gólfteppið sem þið þóttust alltaf hafa svo litlar áhyggjur af. Mér þætti gaman að sjá hvítan síma bráðna.

Við viljum ekki að of margir lokist inni því að göturnar eiga að fyllast af vesölum æpandi líkömum sem öskra fram og aftur. Ég ætla að hugga ykkur. Ó elsku besta, náttfataflónelið er sviðið inn í holdið! Ég skal rífa það laust!

Mér virðist þeir hafa tekið of mikið blóð. Líklega eru þeir að selja það hinum megin. Hvíti serkurinn sem litli maðurinn var í var blóði drifinn. Litlir menn hafa nautn af að vera nálægt blóði. Fylgjumst bara með þeim í sláturhúsum eða þegar þeir aðstoða við tilraunir með lifandi fólk.

- Hvenær flettirðu þig síðast?

- Á sunnudagsmorgun fyrir stórum hópi í móttökusal Elísabetar drottningar.

- Fyndinn. Þú veist hvað ég meina.

- Fletta mig fyrir hverjum?

- Konu.

- Aha.

Ég pírði augun og hvíslaði í gult eyra hans:

- Best þú komir með hana hingað líka.

- Og það er samt ókeypis?

Auðvitað var það samt ókeypis. Að frátöldu aukablóðinu sem þau stálu. Komið í veg fyrir að sjúkdómur minn leggi undir sig alla borgina. Hjálpið þessum manni. Veitið honum allt hugsanlegt júdas-kristilegt liðsinni.

Eldur væri bestur. Ég viðurkenni það. Bindið eldibranda á milli refanna og eltið þá um garðana ykkar. Rósrautt ský mundi bæta útsýnið alls staðar frá. Það yrði miskunnarverk. Ó að sjá þökin eyðast og yndislegt, fomt yfirborð landsins rísa á ný.

Verksmiðjan þar sem ég starfa er ekki langt frá sjúkra­húsinu. Sami arkitekt reyndar, og þeim svipar hvoru til annars á ýmsa vegu. Það er þó auðveldara að komast upp með að liggja endilangur í sjúkrahúsinu. En við höfum þó okkar þæg­indi í verksmiðjunni.

Verkstjórinn veifaði til mín þegar ég kom aftur að vélinni minni. Hann dáðist að sínum eigin liðlegheitum. Ég var nýr í vinnunni en hann hafði samt leyft mér að skreppa frá. Ég nýt þess þegar þrælar sýna göfuglyndi. Hann kom til mín til að skoða verk mitt.

- En þetta er allsendis ófullnægjandi.

- Jæja?

- Félagið sagði að þú værir reyndur saumari.

- Ég er það. Ég er það.

- Þetta er enginn saumur.

- Ja, fyrst þú minnist á það . . .

- Sjáðu hérna.

Hann tók nýjar buxur og þrengdi sér inn á bekkinn við hlið mér. Hann var ákafur í að sýna þetta eina sem hann var fær í. Hann setti stykkin undir nálina. Þegar hann var hálfn­aður niður skálmina og gekk mjög vel setti ég fótinn á fótstigið við hliðina á honum. Óvænt hraðaaukningin kippti fingrinum á honum undir nálina.

Önnur þægindi er vörugeymslan.

Hún er stór og dimm og full af efnisböggum og vafn­ingum.

- En ættirðu ekki að vera að vinna?

- Nei María, það ætti ég ekki.

- Saknar Sam þín ekki?

- Hann er á sjúkrahúsi skilurðu. Slys.

María rekur kaffiteríuna og stjórinn flettir sig reglulega fyrir henni. Það tryggir henni tilhliðrunarsemi.

Ég finn sjúkdóminn þjóta um æðar mér. Ég á von á að munn­vatnið í mér missi litinn.

- Já María, ekta kasmír. Þrjú hundruð dollara föt.

Stjórinn á eiginkonu sem hann þarf að fletta sig fyrir af og til. Hún hefur sína mjólkurpósta. Borgin er reglusöm. Hvítar flöskur standa fyrir framan milljón dyr. Og hefðir eru í heiðri hafðar. Skarar af stjórum eiga sameiginlega ánægjuna af að fletta sig.

Ég verð brjálaður. Þeir munu finna mig við tind Mont Royal þar sem ég þykist vera Djengis Khan. Heltekinn af hlátri og greftri.

- Mjög mjúkan, María. Fyrir það borga þeir.

Eldur yrði bestur. Logar. Bjarmi í gluggum. Tveir bílar sem springa í hverjum skúr. En gæti ég lokið verkinu? Þessi leið er seinfarnari. Hetjulegri að sumu leyti. Auðvitað ekki eins mikilfengleg. En ég hef ríkt ímyndunarafl.

 

BLÓM

blóm handa hitleri geyspaði sumarið

blóm yfir allt nýja grasið mitt

og hér er lítið þorp

það er verið að mála það vegna hátíðar

hér er lítil kirkja

hér er skóli

hér eru litlir hundar að elskast

fánarnir eru bjartir eins og nýþvegið lín

blóm handa hitleri geyspaði sumarið

 

 

 

 

VIKTORÍA DROTTNING OG ÉG

Víktoría drottning

faðir minn og allt tóbakið hans elskuðu þig

ég elska þig líka í öllum þínum myndum

grönn óvinsamleg hrein mey sem allir vildu gilja

hvítur líkami fljótandi milli þýskra skeggja

illgjörn valdskona á stóru bleiku landakorti

einlífur syrgjandi eftir konungsson

Viktoría drottning

ég er kaldur og regnvotur

ég er óhreinn eins og glerþak á lestarstöð

mér líður eins og innantómri sýningu af brotajárni

ég vil skreytingar á allt

því að ást mín er horfin með öðrum strákum

Viktoría drottning

geymirðu refsingu undir hvítri blúndunni?

verðurðu stutt í spuna við hana

og lætur hana lesa litlar biblíur?

rassskellirðu hana með vélknúnu lífstykki?

ég vil að hún sé hrein eins og púður

ég vil að hörund hennar sé dálítið myglulegt

þar sem það mætir millipilsunum

víltu þvo laust skolið úr hausnum á henni

Viktoría drottning

nútíma ást veitir mér litla lífsfyllingu

viltu koma inn í líf mitt

með sorg þína og svörtu hestvagna

og óskeikult minni?

Viktoría drottning

tuttugasta öldin tilheyrir okkur tveimur

við skulum vera tvö alvörugefin tröll

(ekki síður einmana þótt við séum saman)

sem aflita tilraunaglös í höllum vísindanna

sem bírtast óvelkomin við sérhverja heimssýningu

þung af málsháttum og leiðréttingum

og ruglum í ríminu ferðamenn

með stjörnuglýju í augunum

með óviðjafnanlegri tilfinningu okkarfyrir skorti


 

HLUTSKIPTI

Skilaðu mér húsinu mínu

Skilaðu mér ungu konunni minni

hrópaði ég til fífilsins við stíginn minn

Skilaðu mér skurðhnífnum mínum

Skilaðu mér fjallasýninni minni

sagði ég við fræin hjá stígnum mínum

Skilaðu mér nafninu mínu

Skilaðu mér æskulistanum mínum

hvíslaði ég í rykið þar sem stígurinn varð að engu

Syngdu nú!

Syngdu nú!

söng húsbóndi minn þar sem ég beið í hráslagaroki 

 

Er ég hingað kominn fyrir þetta?

hugsaði ég þar sem ég beið í glænepjunni

loksins tilbúinn til að rökstyðja þögn mína

Seg mér húsbóndi

hreyfast varir mínar

eða hvaðan kemur þetta

þessi mjúki algjöri söngur sem knýr sálu mína

eins og saltspjót inn í bergið

Skilaðu mér húsinu mínu

Skilaðu mér ungu konunni minni

 

GAMLÁRSKVÖLD

Ég vildi mega minna

alla viðstadda á

að drykkimir eru vatnsblandaðir

og að hattastúlkan

er með sárasótt

og að hljómsveitin er skipuð

fyrrverandi SS-skrímslum

En samt úr því að nú er gamlárskvöld

og ég er með varakrabba

ætla ég að setja

pappírshattinn minn

á heilahristinginn og dansa


 

HEIMURINN

Heimurinn stóri mun komast að

þessu um bóndabæinn

heimurinn stóri mun kynna sér

smáatriði þess

sem ég hafðist að í tundurspillinum

 

Og fróðlegt líf þitt með mér

verður efni í svo margar sögur

að enginn mun trúa því

að þú hafir elst

 

Úr bókinni „Parasites of Heaven" (1966)

 

 

ÞAÐ SNJÓAR

Það snjóar

Það er nakin kona í herberginu mínu

hún skoðar vínlitað teppið á gólfinu

 

Hún er átján

hún er með slétt hár

og hún talar ekki Montreal-mállýsku

 

Hana langar ekki til að setjast

hún hefur enga gæsahúð

við heyrum vindinn gnauða

 

Hún kveikir sér í sígarettu

með eldavélinni

hún heldur síðu hárinu frá


 

BLÁTT FIÐRILDI

Ekkert hefur brotnað

þótt einn hlekkur keðjunnar

sé blátt fiðrildi

 

Hér var ráðist á hann

þeir brostu er þeir komu og drógu sig í hlé

eftir að blátt ryk kom þeim í opna skjöldu

 

Bakkarnir svo kunnugir málminum

sem þeir útbjuggu í vængi

þykkar hvelfingarnar flöktu

 

Fallegar stúlkurnar komu nær

fingur þeirra mynduðu bolla

það blæddi úr munnum þeirra

eins og þær hefðu orðið fyrir eldingu

 

Kviðdómurinn bað um vægð

snerti bláu loftnetsstöngina

og var tekinn af lífi með raflosti

 

Þrýstingur á sérhvern hlekk

hefði kannski komið honum niður

en þið miðuðuð öll á bláa fiðrildið

 

SÚSANNA KLÆÐIST KÁPU ÚRLEÐRI

Súsanna klæðist kápu úr leðri

Fótleggir hennar eru tryggðir

af mörgum brenndum brúm

Kálfar hennar eru spenntir eins og þanin segl í úrslitakeppni

harðir af að fylgja tónlist

handan þeirra mæra sem nokkur hlustar á

 

Súsanna klæðist kápu úr leðri

því að hún er ekki óbreyttur borgari

hún gengur aldrei kæruleysislega

niður stræti heilagrar Katrínar

því að í hverju skrefi

verður hún að frelsa hópa hinna vansköpuðu

og rigsa yfír akur risastórra haglsteina

sem aldrei bráðnuðu

-égá við kirkjugarðinn

 

Rísið upp! Standið!

Súsanna gengur hjá

Hún klæðist kápu úr leðri

hún stansar ekki til að binda um brotin

sem hún gengur hjá

hún má ekki stansa

hún má ekki hafa peninga á sér

Margir eru þeir sem vinna að mannúðarmálum

 


 

Fáir þjóna sírenublóminu

fáir lækna með þoku

Súsanna klæðist kápu úr leðri

brjóst hennar æpa á marmara

umferðin stöðvast

fólk fellur út úr bílum sínum

engar afrugluðustu hugsununum eru nógu villtar

til að byggja stappfulla kristalborgina

sem hún mundi splundra með skóhljóðinu einu

 

HJÓNABANDSINS ÞULA


 

 

Tvö fóru að sofa

næstum hvert kvöld

annað dreymdi leðju

annað dreymdi Asíu

heimsótti loftbelg

heimsótti Nijinský

 

Tvö fóru að sofa

annað dreymdi rifbein

annað dreymdi þingmenn

 

Tvö fóru að sofa

tveir ferðalangar

Hjónabandið langa

í dimmunni

Svefninn var gamall

ferðalangar gamlir

annað dreymdi epli

annað dreymdi Karþagó

 

Tveir vinir sofandi

árin læst á ferð

Góða nótt mín kæra

er draumurinn kvaddi

annað ferðaðist léttilega

annað fór um vatn

heimsótti skáktafl

heimsótti símklefa

komu alltaf aftur

til að bíða dagsloka

annað hélt á eldspýtum

annað kleif býþúfu

annað seldi heyrnartæki

annað skaut Þjóðverja

 

Tvö fóru að sofa

sérhver svefn fór saman

dreifðist síðan burt

af gagnsettu borði

annað dreymdi gras

annað dreymdi pílára

annað gerði kostakaup

annað var snjómaður

annað taldi meðöl

annað nagaði blýanta

annað var barn

annað var svikari

heimsótti þungaiðnað

heimsótti fjölskylduna

 

Tvö fóru að sofa

hvorugt gat sagt fyrir

annað fór með körfur

 

annað fór með stiga

ein nótt í hamingju

ein nótt í kvöl

ástin gat ekki tengt þau

óttinn ekki heldur

þau fóru án tengsla

vissu aldrei hvert

komu alltaf aftur

til að bíða dagsloka

skildust með kossum

skildust með stunum

heimsóttu dauðann

uns þeim var ekki lengur fagnað

heimsóttu dauðann

uns rétta gríman dugði

 

 

 

HANN VAR SVO FALLEGUR

Hann var fallegur þar sem hann sat einn, hann var eins og ég, hann var með hvíta jakkaboðunga, hann hélt á drykkjarkönnu á erfiðasta hátt sem hægt er svo að fingur hans voru allir snúnir en samt langir og fallegir, honum fannst ekkert gott að sitja einn allan tímann en ég sver að í þetta sinn var honum sama.

 

Ég skal segja þér hvers vegna mér finnst gott að sitja einn því að ég er sadisti, þess vegna finnst okkur gott að sitja ein því að við erum sadistarnir sem finnst gott að sitja einir.

 

Hann sat einn því að hann var fallega klæddur í tilefni dagsins og af því að hann var ekki óbreyttur borgari.

 

Við erum sadistarnir sem þú heldur að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af og við höfum enga skoðun á því hvort þú þurfir að hafa áhyggjur af okkur og okkur langar ekki einu sinni til að hugsa um þetta því að það er okkur óskiljanlegt.

 

Kannski skiptir hann mig engu máli lengur en ég hugsa að hann hafi verið eins og ég.

 

Þú hélst að þú yrðir ekki ástfanginn, sagði ég við sjálfan mig og um leið svaraði ég hljóðlega: Heldurðu það?

 

Ég heyrði þig söngla fallega, söngl þitt sýndi mér að ég get ekki látið sem ég sjái þig ekki, að ég hafi loks komist yfir fjölda gómsætra ástæðna sem aðeins þú vissir um og hér er ég, ungfrú Blóð.

 


 

Og þú kemur ekki aftur, þú kemur ekki aftur þangað sem þú yfirgafst mig og þess vegna heldurðu upp á símanúmerið mitt, svo að þú veljir það ekki af misgáningi jafnvel þegar þú ert að fíflast með skífuna og ekki einu sinni að velja númer.

 

Þú byrjar að fara í taugarnar á okkur með kvöl þinni, við höfum því ákveðið að breyta kvöl þinni.

 

Þú sagðist vera hamingjusamastur þegar þú værir að dansa, þú sagðist vera hamingjusamastur þegar þú værir að dansa við mig, hvort áttu við?

 

Og síðan breyttum við kvöl hans, við köstuðum til hans hugmynd að líkama og við sögðum honum brandara og þá hugsaði hann mikið um hlátur og um lausnina.

 

Og hann hélt að hún héldi að hann héldi að hún héldi að það versta sem kona gæti gert væri að tæla karlmann frá vinnu sinni því að það gerði hana hvað, ljóta eða fagra?

 

Og nú hefur þú komist inn í stærðfræðihluta sálarinnar sem þú þóttist aldrei hafa. Ég býst við að þetta, auk ástarsorgar­innar, fái þig til að trúa að nú hafir þú fullkominn rétt til að fara á vettvang og temja sadistana.

 

Hann kunni síðustu ljóðlínu hvers erindis í söngnum en engar aðrar ljóðlínur, síðasta línan var alltaf eins: Kallaðu sjálfan þig ekki leyndarmál nema þú ætlir engum að segja það.

 

Hann hélt sig vita, eða vissi í raun of mikið um söng til að vera söngvari og séu í raun til slíkar aðstæður - er einhver þar og fæðast sadistar þar?

 

Þetta er ekki spumingarmerki, þetta er ekki upphrópunar­merki, þetta er lokapunktur mannsins sem skrifaði Sníkjudýr Himnaríkis.

 

Jafnvel þótt við styddum mál okkar mjög skýrt og allir sem eru eins haldnir stæðu með okkur, hver einn og einasti, yrðum við samt mjög fáir.

 

ÉG ER PRESTUR GUÐS

Ég er prestur Guðs

ég geng niður veginn

með vasana í höndum mér

Stundum er ég vondur

en svo er ég stundum mjög góður

Ég trúi því að ég trúi

öllu sem ég ætti að trúa

Mér finnst gott að heyra þig segja

þegar þú dansar við veltandi höfuð

á silfurfati

að ég sé prestur Guðs

 

Ég hélt ég væri að gera 100 aðra hluti

en ég var prestur Guðs

Ég elskaði 100 konur

sagði aldrei sömu lygina tvisvar

sagði: Ó Kristur þú ert eigingjarn

en ég skipti brauðinu mínu og hrísnum á milli

ég heyrði rödd mína segja fjöldanum

að ég væri einn og væri prestur Guðs

það gerði mig svo tóman

að jafnvel nú árið 1966

er ég ekki viss um hvort ég sé prestur Guðs


 

BÆN TIL ÞÍN, ÓKUNNI GUÐ

Ókunni Guð, þú sem ríkir í jarðneskri dýrð milli hins guðlausa Guðs og þessa gráðuga sjónauka míns, snertu hulinn frauð­vöðva minn, hringdu bjöllum af krafti til að tilkynna komu mína, ég verð að leggja undir mig Babýlon og New York. Veldu mér verðmæt tákn, lyftu mér upp til þinna hæða. Þú og ég, kæri ókunni Guð, við erum báðir djöflar sem hljótum að hverfa í eilífu skriðljósi, fálmandi neistum sem teikna útlínur allra úreltra forma. Við hljótum brátt að hverfa í grundvallar­tilraunum Kodakverksmiðjanna, í eymdardýrðinni að baki dýrðar okkar, í kalkkenndu ískri takmarkalausasta unaðar okkar. Við erum trúir bóndadurgar mölétinnar fallhlífarinnar, guðdóms hjálpræðisins, við greiddum háar upphæðir fyrir hinn fullkomna heilaga kláða, fyrir hnéskel pílagríma, fyrir vanskapaðar axlir undir byrði, fyrir sigurvissan snjómanninn sem ekki verður kalt. Niður með englana þína, ókunni Guð, niður með okkur, snillinga töfranna, inn í foruga elda fjarlæg­asta ástríðugarðs okkar, við skulum fela okkur í hendur þess nú, forarpytti, gægjugöt, óvistlega útsjávarviðhöfn, séð um réttan enda sjónaukans, minni háttar bruna, lengstu gerð af sígarettum, málsbót helfarar og kjarnorku, við skulum fela okkur í hendur ómældrar útlegðar handan þeirra reglna sem gilda utan laga og réttar. Ó Guð, í ókunnri eða guðlausri mynd þinni, í mynd tálsýnar þinnar eða hringsýnar banvæns þumals þíns, stöðvaðu alla stefnu, myldu þetta niður, bannfærðu vitn­eskjuna sem þú þrýstir á tungu hans.

 

Ljóð ort eftir 1966

 

 

ÞETTA ER HANDA ÞÉR

Þetta er handa þér

þetta er hjarta mitt ósvikið

þetta er bókin sem ég ætlaði að lesa þér

þegar við yrðum gömul

Nú er ég skuggi

ég er eirðarlaus eins og heimsveldi

Þú ert konan

sem frelsaðir mig

Ég sá þig horfa á tunglið

þú hikaðir ekki við

að elska mig með því

ég sá þig tjá lotningu þína

vindblómum tíndum á milli kletta

þú elskaðir mig með þeim

Á mjúkum sandinum

milli fjörusands og fjöruborðs

bauðstu mig velkominn í hringinn

meira sem gest

 

Allt þetta gerðist

í sannleika tímans

í sannleika holdsins

Ég sá þig með barni

þú fórst með mig til ilms hans

og sýna hans

án kröfu um blóð

 

Og svo mörg viðarborð

prýdd mat og kertum

þúsund sakramenti

sem þú barst í körfu þinni

Ég heimsótti leir minn

ég heimsótti fæðingu mína

þar til ég varð nógu smár

og nægilega hræddur

til að fæðast á ný

Ég þráði þig vegna fegurðar þinnar

þú gafst mér meira en sjálfa þig

þú veittir mér affegurð þinni

þetta eitt lærði ég í nótt

þar sem ég rifja upp speglana

sem þú gekkst burt frá

eftir að þú hafðir gefið þeim

það sem þeir kröfðust

fyrir vígslu mína

Nú er ég skuggi

Ég þrái endimörk

flakks míns

og ég færist

fyrir afl bænar þinnar

og ég færist

í átt til bænar þinnar

því að þú krýpur á kné

eins og blómvöndur

í beinahelli

bak við enni mitt

og ég færist í átt til ástar

sem þig dreymdi handa mér

 

ÞÚ ÞARFT EKKI

Þú þarft ekki að elska mig

bara af því

að þú ert allar konurnar

sem ég hef þráð

Ég fæddist til að elta þig

hverja nótt

þar sem ég er enn

mennírnir mörgu sem elska þig

 

Ég hitti þig við borðið

ég tek um hönd þína

í virðingarverðum leigubíl

Ég vakna einn

hönd mín hvílir á fjarveru þinni

í Hótel Röð og reglu

 

Ég skrifaði alla þessa söngva fyrir þig

ég brenndi rauð og svört kerti

í laginu eins og maður og kona

Ég giftist reyknum

úr tveim pýramídum úr sandelvið

Ég bað fyrir þér

ég bað þess að þú elskaðir mig

og að þú elskaðir mig ekki

 

ÉG HITTI ÞIG

Ég hitti þig

rétt eftir að dauðinn

varð sætur í reynd

Þar varst þú

24 ára gömul

Jóhanna af Örk

Ég fylgdi þér eftir

með allri list minni

með öllu

Þú veist að ég er Guð

sem þarf að nota þig

sem þarf að nota þig

til að syngja um ást

á þann hátt sem enginn

hefur sungið áður

þú ert mín

þú ert ein af síðustu konunum mínum


 

HÚN SYNGUR SVO VEL

Hún syngur svo vel

með ástríðulausri rödd

Hún syngur svo ein

til að segja okkur öllum

að við séum ófundin enn

 

TIL ÞESS YRKI ÉG

Til þess yrki ég

að skapa eitthvað

eins fallegt og þú ert

 

Þegar ég er með þér

langar mig að verða eins hetja

og mig langaði að vera

þegar ég var sjö ára

fullkominn maður

sem drepur


 

KJÖTÆTUR OG ANNAÐ FÓLK

Maður sem borðar kjöt

vill sökkva tönnunum í eitthvað

maður sem ekki borðar kjöt

vill sökkva tönnunum í eitthvað annað

Ef þessar hugleiðingar vekja áhuga þinn eitt andartak

ertu glataður


 

AÐ LOKUM

Hver segir að lokum

að þú sért fullkomin?

Hver mun kjósa þig

til að ná valdi yfir leyndarmálum þínum?

 

Ég syng þetta fyrir börn þín

ég syng þetta fyrir krybbur

ég syng þetta fyrir herinn

fyrir alla sem ekki þurfa

 

Hvern munt þú ávarpa

fyrstan í fyrramálið?

Draumar þínir eru svo smáborgaralegir

að þú neitar að birtast sjálf í þeim

 

Hve fagrir eru hinir alvörugefnu

Já ég hef tekið eftir þér

Þess manns sem gefur þér peninga

verður minnst vegna stoltsins

 

Ég elska að tala svona við þig

því að ég veit hvernig þú komst til mín

gættir þess að minnast ekki á neitt

sem gæti tekið upp tíma okkar

 

Þegar þú ert þjökuð

þegar silfur þitt er þjakað

taktu þá þessa bók úr hillunni

og finndu þér stað í höfði mér

 

FRÉDÉRIQUE LITLA

Það er gott að sitja með fólki

sem er lengi á fótum

hin heimilin okkar mást burt

og aðrar máltíðir sem við yfirgefum

óloknar á borðum

Aðeins kaffi

og sígaretta píanóleikarans

og söngur Tim Hardins

og söngurinn í höfði þér

sem fær mann til að bíða

Ég hugsa til þín

Frédérique litla

með hvíta hvíta hörundið

og sögurnar þínar um auð

í Normandý

Ég held ég hafi aldrei sagt þér

að mig langaði til að bjarga heiminum

þar sem við horfðum á sjónvarpið

á meðan við elskuðumst

pöntuðum grísk vín

og ólífur handa þér

á meðan vinur minn

dreifði dollaraseðlum

yfir höfuð magadansmeyjarinnar

við undirleik klarinetta á 8. Breiðstræti

hlustuðum á áætlanir þínar

um fína gæludýrabúð í París

Móðir þín hringdi í mig

hún sagði að ég væri of gamall fyrir þig

og ég var sammála

en þú komst upp á herbergið mitt

morgun einn eftir langan tíma

því að þú sagðist elska mig

Af og til hitti ég karlmenn

sem sögðust gefa þér peninga

og sumar stúlkur hafa sagt

að þú værir nú engin sýningarstúlka

Vita þær ekki hvað það er

að vera einmana

þrá soðin egg í silfurbikurum

þrá stóran hund

sem hlýðir rödd manns

þrá regn í Normandý

séð í gegnum blýkantaða glugga

þrá hraðskreiðan bíl

þrá spergil á veitingahúsi

þrá venjulegan prins og landkönnuð?

Ég er viss um að þær vita það

en öll erum við sköpunarverk öfundarinnar

við þörfnumst þess að styðja steingerðum

fingurnöglum okkar

á fegurð einhvers annars

við krefjumst ástar í meinum

hjá öllum sem við hittum

en gefum ekkert fyrir hversdagslega ást

Brjóst þín eru fögur

af þeim er hlýtt postulínsbragð

tilbeiðslu og græðgi

Augu þín koma til mín

undan fullkomnum oddum

óforgengilegra augnhára

Munnur þinn lifir

á frönskum orðum

og mjúkum leifum farðans þíns

Aðeins með þér

hermdi ég ekki eftir sjálfum mér

aðeins með þér              

bað ég ekki um neitt

langir langir fingur þínir

losa um hár þitt

kniplingablússan þín

fengin að láni

hjá Ijósmyndara

Ijósin á baðinu

glampa á nýlökkuðum rauðum nöglunum

háir fótleggir þínir blasa við

þar sem ég fylgist með þér úr rúminu

á meðan þú þurrkar döggina

af speglinum

svo að hún starfi handan víglínu óvinarins

í meistarastykkinu þínu

Komdu til mín ef þú verður gömul

komdu til mín ef þig vantar kaffi

 

MARITA

MARITA

FINNDU MIG FYRIR ALLA MUNI

ÉG ER AÐ VERÐA 30